Fréttir

Reynslusaga - Ættleiðing er frábær kostur. Eftir Sigrúnu Evu og Bjarna Magnús

Sigrún Eva og Bjarni Magnús ættleiddu Veigar Lei frá Kína árið 2014. Þau voru svo væn að deila sögu sinni með félagsmönnum
Íslenskrar ættleiðingar.

Ferlið
Eftir að í ljós kom að við þyrftum á aðstoð að halda til þess að eignast barn og við vegið og metið stöðuna sem við vorum í ákváðum við að það að ættleiða barn væri rétt leið fyrir okkur.

Draumur okkar var að eignast barn og fannst okkur ættleiðing frábær kostur.

Við fórum í viðtal hjá Kristni (framkvæmda-stjóra ÍÆ) og fengum hann til að fara aðeins yfir þau lönd sem í boði voru fyrir okkur. Þetta var í febrúar 2012.

Á sama tíma skráðum við okkur á námskeiðið „Er ættleiðing fyrir mig“ sem er forsenda þess að fá forsamþykki. Við vorum skráð á námskeið í apríl 2012 sem því miður var fellt niður vegna skorts á fjármagni.

Það var því ekki fyrr en ári seinna sem við komumst á námskeið og í apríl 2013 var umsókn okkar um forsamþykki tilbúin og send af stað til Sýslumannsins í Reykjavík. Við tók úttekt barnaverndar og það var svo í nóvember 2013 sem við fengum forsamþykki til að ættleiða barn með skilgreindar þarfir frá Kína.

Skilgreindar þarfir
Ein af ástæðunum fyrir því að við völdum að fara þessa leið var að biðtíminn var frekar stuttur og okkur fannst ekkert stórmál þó að barnið okkar væri með einhverja skilgreinda þörf.  Við fórum með barnalækni í gegnum allskonar þarfir sem mögulegt barn gæti haft og reyndum að vera raunsæ með það hvaða þarfir við gætum tekist á við og hvað við treystum okkur í. Það er frekar skrítin tilfinning að velta fyrir sér mismunandi þörfum og ímynda sér hvernig við gætum aðstoðað tilvonandi barn að lifa með þeirri þörf. En með góðri aðstoð komumst við að ágætri niðurstöðu sem við vorum bæði sátt við.

Umsókn til Kína
Næst tók við gerð umsóknarinnar sem send var til Kína. Hún var tilbúin í janúar 2014 og samþykkt í Kína 10. febrúar. Þá hófst bið sem að við vissum ekkert hvað tæki langan tíma. Eina sem við vissum var að listinn væri uppfærður á fjögurra vikna fresti aðfaranótt þriðjudags.

Vöktun
Þegar kom að fyrstu vöktuninni vorum við spennt en gerðum okkur líka grein fyrir því að það væri frekar ólíklegt að við yrðum pöruð í fyrstu vöktun.

Það reyndist síðan raunin og við fengum að vita að barni hefði ekki verið læst fyrir okkur. Það voru samt vonbrigði.

Eftir því sem leið að næstu vöktun jókst eftirvæntingin smám saman. Eftir næstu vöktun varð niðurstaðan sú sama, barni hafði ekki verið læst.

Pörun
Það var síðan rétt eftir hádegi næsta föstudag þann 28. mars, að Kristinn hringdi í okkur og sagði að barni hefði verið læst. Þetta kom okkur auðvitað mjög á óvart þar sem að við héldum að við þyrftum að bíða eftir næstu vöktun.

En Kristinn sagði að þau fylgdust með listanum í nokkra daga eftir hverja vöktun. Hann sagði að við hefðum 72 klukkutíma til þess að fara yfir upplýsingarnar til þess að ákveða hvort við vildum halda áfram eða bíða eftir næstu vöktun.

Eftir að hafa talað við Gest lækni ákváðum við að halda áfram með ferlið. Drengurinn var 11 mánaða og með aflagað eyra samkvæmt skýrslunni.

Okkur þótti við heldur betur dottið í lukkupottinn og fannst þetta eyra vera minnsta málið. Nú þurftum við bara að bíða eftir staðfestingu frá Kína að það væri búið að samþykkja ættleiðinguna af þeirra hálfu. Sú bið reyndist lengri en við var búist og það var ekki fyrr en Íslensk Ættleiðing ýtti á þau að við fengum staðfestinguna. Eftir að við fengum staðfestinguna fengum við að vita að við hefðum einn mánuð til þess að undirbúa okkur fyrir ferðina.

Kína
Þann 1. júlí flugum við til Kína en Elva systir Sigrúnar kom með okkur og teljum við að það hafi auðveldað ferðina. Fyrstu dögunum eyddum við í skoðunarferðir í Peking í 35 stiga hita. Síðan var haldið til Tianjin en þangað er aðeins þrjátíu mínútna lestarferð frá Peking. Þann 7. júlí sameinuðumst við síðan. Veigar var þá fjórtán mánaða. Hann tók móður sinni strax mjög vel og næstu daga mátti hún varla leggja hann frá sér án þess að hann byrjaði að gráta á eftir henni. Vegna þess hve heitt var úti og hversu illa það fór í hann reyndum við að vera sem mest inni.

Aðlögun
Eftir að við komum heim tók við tími þar sem að hann svaf og borðaði til skiptis og stækkaði á ljóshraða. Í dag finnst okkur svo ótrúlega langt síðan þetta var en samt eru bara rétt rúm tvö ár síðan. Veigar Lei er ansi duglegur og atorkusamur leikskólastrákur sem elskar að leika sér úti. Það má í raun segja að það hafi ekki komið upp nein stór vandamál síðan að við komum heim.

40 dagar
Eftir á að hyggja er það sem kom okkur mest á óvart með þetta allt saman hvað þetta var raunverulega einfalt og hvað allt gekk vel og hratt fyrir sig. Við vorum fyrirfram með töluvert aðra mynd í kollinum, til dæmis gerðum við upphaflega ráð fyrir að bíða í að minnsta kosti nokkur ár eftir að verða pöruð saman við barn. Í okkar villtustu draumum hefði okkur ekki dottið í hug að aðeins rúmum 40 dögum eftir að umsóknin okkar var samþykkt í Kína væri komin mynd af syni okkar á ísskápinn.


Svæði