Ríkisstjórnin styður fjölskylduna í Kólumbíu
Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að verja þremur milljónum af ráðstöfunarfé sínu til að styrkja fjölskylduna sem dvalið hefur í Kólumbíu í níu mánuði í þeim tilgangi að ættleiða þaðan tvær stúlkur.
Fjölmiðlar á Íslandi hafa fjallað töluvert um aðstæður íslenskrar fjölskyldu, sem er fyrir milligöngu Íslenskrar ættleiðingar í Kólumbíu til að ættleiða tvær ungar stúlkur. Hjónin Bjarnhildur og Friðrik fóru í desember síðastliðnum til Kólumbíu en hafa ekki ennþá komist heim með börnin vegna þess að mál þeirra hefur þæfst hjá þarlendum dómstól.
Mál þessarar fjölskyldu er einstakt og á sér ekki hliðstæðu í Kólumbíu eða í reynslubanka Íslenskrar ættleiðingar. Augljóst er að óvænt níu mánaða dvöl í öðru landi hefur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir fjölskylduna og þá ekki síst á fjárhag hennar. En samkvæmt fréttum stendur kostnaður þeirra nú í um 12 milljónum króna vegna þessarar útiveru.
Á föstudagskvöld bárust Íslenskri ættleiðingu þær gleðilegu fréttir að ríkisstjórn Íslands hafi tekið þá ákvörðun að verja af ráðstöfunarfé sínu þremur milljónum til að styrkja fjölskylduna í sínum þröngu aðstæðum.
Það mun hafa verið Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sem, eftir ábendingu frá skrifstofustjóra í Innanríkisráðuneytinu, beitti sér fyrir því utan og innan ríkisstjórnar að fjölskyldunni yrði lagt lið með þessum hætti.
Félagar í ættleiðingarfélaginu hljóta að fagna þessum fréttum sem þó koma varla á óvart því ættleiðingarmálaflokkurinn hefur aldrei áður fengið jafn mikla athygli hjá neinni íslenskri ríkisstjórn.