Rússland stöðvar ættleiðingar til Bandaríkjanna
Rússland hefur stöðvað ættleiðingar til Bandaríkjanna í kjölfar á fregnum af því að Bandarísk móðir hafi skilað átta ára gömlum dreng sem hún ættleiddi fyrir ári síðan.
Þetta gerðist fyrir viku og þá þegar hvatti utanríkisráðherra Rússlands til þess að hætt verði að leyfa ættleiðingar barna til Bandaríkjanna frá Rússlandi.
Og núna hafa stjórnvöld í Rússlandi ákveðið að börn verði ekki ættleidd til Bandaríkjanna fyrr en stjórnvöld í löndunum haf komið sér saman um nýtt kerfi eða nýtt fyrirkomulag í þessum málaflokki.
Rússum gremst einnig mjög að engar ákærur hafa verið gefnar út í Bandríkjunum en hin umrædda kjörmóðir setti barnið sitt eitt í flug til Rússlands með miða sem á stóð að hún óski ekki lengur eftir að vera foreldri þessa barns.
Sendinefnd frá Bandaríkjunum er væntanleg til Moskvu í næstu viku til að ræða atvikið og möguleikana á nýju tvíhliða samkomulagi um ættleiðingar milli landanna.
Eins og kunnugt er hafa Íslensk stjórnvöld, að beiðni Íslenskrar ættleiðingar, lagt mikla vinnu í að gera samkomulag við rússnesk stjórnvöld um ættleiðingar frá Rússlandi til Íslands. Við höfum enga ástæðu til að ætla að þetta hörmulega atvik trufli þá vinnu enda hafa Rússar ekki stöðvað ættleiðingar til annarra landa en Bandaríkjanna.
Fyrir viku var þó nokkur umræða í Rússlandi um að stöðva bæri allar ættleiðingar út úr landinu og atvikið sýnir vel að hve mikilvægt er að standa vel að öllu ættleiðingaferlinu því þetta er einkar viðkvæmur og brothættur málaflokkur.
Þannig er mjög mikilvægt að undirbúningsnámskeið fyrir væntanlega kjörforeldra séu vönduð og góð, staðið sé vel að mati umsækjenda af hálfu barnaverndaryfirvalda og stjórnsýslunnar og allar eftirfylgniskýrslur sé vel og rétt unnar og ýtrustu kröfum upprunalandanna fylgt í einu og öllu hvað það varðar.
Samkvæmt upplýsingum frá Rússneska Heilbrigðis- og menntamálaráðuneytinu voru meira en 1800 börn ættleidd til Bandaríkjanna frá landinu á seinasta ári.