Rúv.is - Íslendingar ættleiði börn úr flóttamannabúðum
Þá spyr þingmaðurinn einnig hvort innanríkisráðherra hyggist beita sér fyrir því að auðvelda slíkar ættleiðingar. Í samtali við fréttastofu segist Jóhanna líta á fyrirspurn sína sem áskorun til ráðherra að kanna þennan möguleika til hlítar.
„Mér finnst bara að við ættum að kanna þennan möguleika. Núna á næstu mánuðum eigum við von á fjöldanum öllum af flóttamönnum til Íslands í gegnum okkar kvóta, og ég tel að þarna væri gott skref til þess að við gætum í raun og veru gert meira, og það er það sem íslenska þjóðin hefur verið að kalla eftir,“ segir Jóhanna María í samtali við fréttastofu.
Hugmyndir í þessa veru eru ekki nýjar af nálinni, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, nefndi í stefnuræðu sinni á Alþingi í byrjun september að mögulega væri hægt að einfalda ættleiðingu barna frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum löndum. Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi, sagði hugmyndina þá vera illmögulega í ljósi alþjóðlegra samninga og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
„Eins og ég segi í fyrirspurninni þá vil ég endilega láta kanna hvort það séu einhverjir möguleikar á þessu. Hvort einhverjar aðrar þjóðir séu að þessu sem eru kannski nær þessum stöðum. Talandi um að þetta sé illmögulegt, þetta eru börn sem oftast enda þá bara á munaðarleysingjahælum eða hrekjast í flóttamannabúðum alla sína ævi. Þessi börn eru þá mjög gott skotmark fyrir fólk sem er tilbúið til að misnota sér börn sem eiga engan að eins og í mansal og þess háttar, þannig að ég tel það alveg þess vert að kanna þennan möguleika,“ segir Jóhanna María.