Rúv.is - Má ekki syrgja upprunann því hún á að vera svo þakklát fyrir björgina
Miðvikudaginn 24.7.2024 birtist grein á rúv.is um Steinunni Önnu Radha sem ættleidd var til Íslands sem ungabarn. Steinunn Anna segist fyrst hafa virkilega fundið fyrir þörf til að tjá sig þegar Black Lives Matter hreyfingin fór af stað hér á landi. Þá hafi hún fundið fyrir mikilli vanlíðan „og þegar þú ert byrjaður að tjá þig þá er rosalega erfitt að stoppa.“
„Um leið og þú nefnir að þú hafir misst fjölskyldu þína og ert þunglyndur út af því, þá má ekki tala um það því það eru allir svo uppteknir af því að hafa bjargað barni,“ segir Steinunn Anna Radha sem var ættleidd til Íslands sem ungabarn.
„Mér finnst ég aldrei vera í aktívisma, mér finnst ég bara vera að segja frá eigin upplifun,“ segir baráttukonan Steinunn Anna Radha sem hefur vakið athygli á hinum ýmsu málaflokkum og upplifun sinni af jaðarsetningu. „Án þess að pæla endilega í því hvaða afleiðingar það gæti haft.“
Freyja Haraldsdóttir ræddi við Steinunni í Við eldhúsborðið á Rás 1 um reynslu hennar af margþættri mismunun sem hún hefur þurft að sæta fyrir að vera hinsegin, fötluð, og ættleidd brún kona í íslensku samfélagi.
Mikilvægt að taka afstöðu og standa með henni
Steinunn Anna segist fyrst hafa virkilega fundið fyrir þörf til að tjá sig þegar Black Lives Matter hreyfingin fór af stað hér á landi. Þá hafi hún fundið fyrir mikilli vanlíðan „og þegar þú ert byrjaður að tjá þig þá er rosalega erfitt að stoppa.“
Það sé vegna þess að þegar maður fari að sjá eina jaðarsetningu sé auðvelt að mynda tengingar og sjá samasemmerki milli annarra atvika sem byggja á fordómum gegn kynþætti eða fötlunar. „Þú sérð hvað er líkt með þessu og þá tengirðu þessi kerfi saman.“
„Ég gerði mér ekkert grein fyrir því hvað svona umræður væru pólíseraðar þangað til ég byrjaði að tala. Þá fattaði ég líka að það er rosalega mikilvægt að taka afstöðu og standa með henni.“
Fékk áfall við að sjá brúnt barn með foreldrum sínum
Steinunn Anna var ættleidd frá Indlandi átta mánaða gömul og segir það rosalega flókið að móta sjálfsmynd sína þegar líkaminn og tilveran skarast á við svo mikla jaðarsetningu, bæði á grundvelli húðlitar, fötlunar og kynhneigðar.
Uppruninn sé annað flækjustig og segist hún alltaf hafa leitt hugann að því hver hún væri hefði hún fengið að vera með foreldrum sínum. „Í réttu umhverfi þar sem ég fæ rétta speglun í kringum mig, sé annað brúnt fólk.“
Hún segist enn þá muna hve mikið sjokk hún hafi fengið þegar hún sá brúnt barn með foreldrum sínum í fyrsta sinn. Það hafi verið fyrir tveimur árum og hún þurfti að fara heim úr vinnu því það snerti hana svo mjög. „Ég fékk bara svona sjokk,“ segir Steinunn Anna. „Ég þurfti að hætta, ég vissi ekki hvernig ég átti að díla við sjálfa mig.“
Það þarf ekki að taka allt í burtu
Steinunn Anna hefur verið opinská um afstöðu sína til ættleiðinga. „Ég tel að það sé hægt að fara betri leiðir að þessu heldur en þessar lokuðu ættleiðingar, þar sem enginn getur í rauninni gefið samþykki og við vitum ekki einu sinni hvort að líffræðileg móðir hafi gefið samþykki,“ segir hún.
Á Íslandi eru ættleiðingar alltaf lokaðar. Við ættleiðingu barns eiga ný fjölskyldutengsl að myndast og tengsl við upprunafjölskyldu því rofin. Fæðingarvottorði er breytt og þar með uppruna og tengsl við lífforeldra þurrkuð út.
„Það skánar strax ástandið um leið og ættleiðingar eru opnar og barnið fær að halda í fæðingarvottorðið sitt, í nafn móður sinnar, í upprunalegt nafn á sér – að það sé bannað að breyta því vegna þess að það er hluti af sjálfsmyndinni,“ segir Steinunn Anna. „Það eru alls konar hlutir sem er auðveldlega hægt að hafa í lagi, þarf ekki að taka í burtu.“
Fyrir hana sjálfa þá hefði opin ættleiðing haft þá þýðingu að verið væri að samþykkja að hún ætti sér sögu utan Íslands. „Ég birtist ekki bara hérna.“ Eins hefði hún vitað að allt hefði verið gert til að halda tengingu við líffræðilegu fjölskylduna þó þau væru ekki í beinum samskiptum.
Á að vera svo þakklát fyrir björgina
Steinunn Anna segist eiga í flóknu sambandi við þá tilfinningu að tilheyra á Íslandi. „Það vill líka flækjast þegar ég glími við vandamál sem ég glími við út af húðlit og það er enginn í ættinni sem tengir við það eða getur skilið. Þá verður maður strax svolítið út undan,“ segir hún.
Fólk í hennar stöðu þurfi að hafa mikið fyrir því að þefa uppi aðra sem líti út eins og það sjálft eða hafi verið ættleitt. „Þetta er svo sár reynsla og við getum ekki gengið út frá því að allir hafi sömu reynslu eða líði eins. Þú ert ekki að segja hverjum sem er þetta, því þú nennir ekki að díla við einhvern skít.“
Hér á Steinunn Anna við þá tilhneigingu fólks að láta eins og henni hafi verið bjargað frá uppruna sínum. „Það fellur einhvern veginn allt undir það. Þú átt bara að vera þakklátur af því að þér var bjargað. En um leið og þú nefnir að þú hafir misst fjölskyldu þína og ert þunglyndur út af því, þá má ekki tala um það því það eru allir svo uppteknir af því að hafa bjargað barni.“
Skiptir máli að finna stuðning
Steinunn Anna segir að oft sé komið fram við hana eins og hún sé mun yngri en hún sé, sem megi rekja til húðlitar hennar og hve lágvaxin hún sé. „Það er einhver svona sammannlegur hlutur sem þau halda að sé ekki sammannlegur en er það samt,“ segir hún. Stundum taki fólk Steinunni Önnu ekki alveg sem Íslendingi, einfaldi íslenskuna fyrir henni og leyfa sér að tala um hana fyrir framan hana því þau halda að hún skilji þau ekki.
Hún segist vera ótrúlega þreytt á því að vera sögð heppin fyrir að hafa verið „bjargað“ en eiga samt að snúa aftur til síns heima, vera barngerð en kyngerð á sama tíma. „Þetta er svo tvíeggja allt saman.“
Hún finnur kraftinn til þess að halda áfram og vekja athygli á hinum ýmsu málaflokkum í því að hún myndi vilja sjá annað fólk gera slíkt hið sama fyrir sig. „Þá geri ég það fyrir aðra. Það skiptir svo miklu máli að maður sjái beint fyrir framan sig stuðning.“ Hún elski að sjá fólk skipta um skoðun því þá viti hún að það sé ekki ógerlegt þó það sé erfitt. Hinsegin samfélagið hafi tekið henni einstaklega vel og heldur vel utan um hana og hvetur til dáða.
Geta tjáð sig sjálf
Eins einfalt og það kann að hljóma þá dreymir Steinunni Önnu um að ef litið sé svo á að allar manneskjur séu með sömu líkamstarfssemi, þá hljóti sársaukinn að vera sá sami fyrir alla óháð útliti. „Það að það sé ekki, er mér með öllu móti óskiljanlegt,“ segir hún.
Henni finnst að skylda ætti verðandi foreldra ættleiddra barna að sitja námskeið um áfallið sem getur fylgt ferlinu fyrir börnin og að þeim séu kennd hugtök á borð við tengslarof og einkenni þess að missa fjölskyldu og land.
„Þessi vanþekking býður líka upp á áframhaldandi tráma vegna ranggreininga innan sálfræðinnar,“ bætir Steinunn Anna við. Til að mynda líkjast þessi einkenni mjög einkennum ADHD en meðferð við ADHD bætir ekki líðan þessa fólks. „Því þetta er ekki ADHD heldur tengslarof sem enginn tók inn í myndina af því að það voru allir svo uppteknir af því að vera þakklátir.“
Það skorti því meiri þekkingu á áfallastreitunni sem fylgi ættleiðingu og tengslaröskun. „Og líka að fólk sé meira tilbúið að hlusta á reynslu einstaklings sem tapaði einhverju á því að vera ættleiddur, frekar en að það þurfi alltaf einhver sem ættleiddi að koma og annað hvort tala fyrir okkur svo einhver hlusti, eða koma með sitt sjónarhorn.“ Það sama eigi við um þær breytingar sem hún vilji sjá í garð fatlaðs fólks: „að fatlað fólk geti bara tjáð sig sjálft. Það þurfi ekki alltaf einhver annar að tjá sig fyrir okkur.“
Sjá grein og hlusta á viðtal við Steinunni Önnu á rúv.is.