Rúv.is - Meðvitaður um takmarkaðan tíma og fann þörf til að leita upprunans
Sunnudaginn 19.5.2024 birtist grein á rúv.is um Anton Gunnar Ólafsson sem var ættleiddur frá Indlandi sjö mánaða gamall. Nýlega komst hann að nýrri merkingu nafns síns, möguleg skilaboð. Hann hélt í mánaðarferð til heimalandsins og segir það hafa verið góða stund að hitta konurnar sem önnuðust hann.
Anton Gunnar Ólafsson var ættleiddur sjö mánaða gamall frá Indlandi af hjónum frá Akureyri. Hann hefur hugsað um uppruna sinn frá barnsaldri því óhjákvæmilega áttaði hann sig á að hann var ólíkur öðrum börnum í kringum sig. Hugmyndin um að leita að uppruna sínum fór þó ekki að skjóta upp kollinum af neinu viti fyrr en faðir hans lést árið 2016. Hann fékk í sínar hendur skjölin sem fylgdu honum í ættleiðingunni og eftir að hafa leitað ráða fór hann loks til Indlands í fyrsta sinn.
Anton er nýkominn heim úr þeirri ferð og ræddi við Gunnar Hansson í Mannlega þættinum á Rás 1 um reynslu sína.
Aðsend / Anton Gunnar Ólafsson
Getur haft mikil áhrif á börn
Foreldrar Antons sóttu hann til borgarinnar Kolkata árið 1992 eftir að hafa sótt systur hans á sama barnaheimili fjórum árum áður. „Þetta var síðasti séns hjá foreldrum mínum, þau voru mjög fullorðin á þeim tíma,“ segir Anton. Móðir hans hafi verið 44 ára og faðir hans 39 ára þegar þau ættleiddu hann.
Fyrsta minning Antons er frá afmæli systur hans þar sem amma þeirra systkina þurfti að gefa honum einnig gjöf til að sefa hann. „Ég var rosalega æstur, svolítið hávært barn sem fylgir víst oft ættleiddum börnum,“ segir Anton. Það sé einhver óróleiki sem fylgi því.
„Það er bara eitthvað sem ég lærði seinna á lífsleiðinni. Það getur margt fylgt ættleiddum börnum vegna þess að þetta er ákveðið sjokk sem maður kannski áttar sig ekki á. Það að börn eru tekin frá móður sem ætti í rauninni aldrei að gerast undir eðlilegum kringumstæðum því móðurtengingin er svo sterk,“ útskýrir Anton. Þetta hafi honum fróðara fólk kunngjört þegar hann var að þroskast, „að það geti haft rosaleg áhrif á börn“.
Fannst hann þurfa að sanna sig
Anton segist hafa tekið eftir því alveg frá byrjun að hann væri ólíkur börnunum í kringum sig. „Í grunnskóla var kannski byrjað að benda á þetta. Ekkert á neikvæðan hátt, heldur bara þá var fólk að spyrja meira út í þetta,“ segir hann. „Maður býr í samfélagi þar sem enginn er líkur manni og ekkert mikið af ættleiddu fólki í kringum mann.“
Þegar Anton var sex ára kynntist hann besta vini sínum sem var mun líklegri til að vera sonur móður hans heldur en Anton sjálfur. „Ef við vorum báðir með mömmu þá hélt fólk alltaf að hann væri sonur hennar og ég ekki.“ Þá hafi hann farið að leiða hugann að þessu en velti sér þó ekki mikið upp úr því.
Þó það hafi ekki komið honum á óvart að fólk skyldi ekki telja hann vera son móður sinnar og var farið að spyrja hann út í uppruna hans þá fannst honum hann þurfa að sanna sig.
Talaði opinskátt um uppruna þeirra
Anton segir móður sína hafa verið duglega að minna þau systkinin á að þau væru ættleidd. „Hún var á því að við ættum alltaf að muna það og vita.“ Hún hafi þolað illa þegar foreldrar segðu börnunum sínum um tvítugsaldurinn frá uppruna þeirra, í tilvikum þar sem ekki var jafn greinilegt að þau væru ættleidd. „Þá er þetta náttúrulega mikið sjokk að uppgötva.“
„En hún var alltaf að segja okkur þetta og útskýra fyrir okkur. Þannig að á tímapunkti var þetta bara komið inn í mann, innrætt. En maður var kannski ekkert að hugsa um þetta þegar hún var að segja manni þegar maður tveggja, þriggja, fimm ára. Þetta kom svolítið seinna.“
Þau systkinin hafi þó ekki rætt mikið sín á milli upplifun sína af því að vera ættleidd eða hvernig það væri að líta öðruvísi út en flest börnin á Akureyri. „En henni fannst mjög gaman að ég væri að fara þangað. Hún hefur ákveðinn áhuga á þessu, hvað sem hún gerir í því.“
Aðsend / Anton Gunnar Ólafsson
„Manni finnst eins og það séu ákveðin skilaboð í nafninu“
Anton segist alltaf hafa verið forvitinn um uppruna sinn þó hann hafi ekki endilega langað til að fara og leita að móður sinni. Það hafi ekki gerst fyrr en faðir hans dó árið 2016. „Mamma er fullorðin, verður 76 ára núna í júní. Maður fer að verða meðvitaður um að maður hefur kannski takmarkaðan tíma og þá er kannski einhver ástæða til að athuga hvað sé til, hvort það sé einhver uppruni.“
Hann hafði samband við ættleiðingarstofnunina fyrir ári og fékk hjá þeim öll þau gögn sem fylgdu honum. Þar var að finna dagbók sem faðir eða frændi hans skrifaði um fyrstu mánuðina.
„Það fyndna er að ég hef aldrei verið hrifinn af upprunalega nafninu mínu, Aninda,“ segir Anton sem tengdi aldrei við nafnið. Merking þess var mjög handahófskennd og sagði honum lítið. Þegar hann las yfir skjölin rakst hann þó á einn aukastaf í nafni sínu sem hann taldi vera stafsetningarvillu. Í ljós kom að nafnið hans innihélt í reynd þennan staf.
„Það er ekki Aninda heldur Anindya. Breytingin á nafninu var svolítið stór eftir að ég uppgötvaði þennan staf. Það þýðir gallalaus, fullkominn. Önnur merking er einhver sem ekki er hægt að kenna um: þetta er ekki þér að kenna,“ útskýrir Anton. „Manni finnst eins og það séu ákveðin skilaboð í nafninu, það var svolítið gleðileg stund. Mér fannst bæði nafnið mitt vera flottara og merkingin.“
Eftir að hafa lesið merkingu nafnsins hugsaði Anton með sér að hann langaði að fara út. „Athuga hvað sé til þarna, fyrst þetta hefur verið svona erfitt fyrir hana móður mína - sem er væntanlega alltaf tilfellið með konur sem gefa börnin frá sér. Þá kom ákveðin þörf.“
Óraunveruleg tilfinning
Hann lagði því upp í fjögurra vikna ferð til Indlands í apríl þar sem hann ferðaðist um landið með hópi áður en hann heimsótti Kolkata og barnaheimilið. Anton segir það hafa verið sérstaka tilfinningu þegar hann lenti í Delí, í mannmergðinni á flugvellinum þar sem nær allir líktust honum sjálfum. „Ég stóð þarna með örugglega mjög skrítinn svip,“ segir hann, „mér fannst þetta bara skrítið. Ég myndi ekkert endilega segja að það hafi verið góð eða slæm tilfinning, þetta var óraunveruleg tilfinning, að vera á stað eins og þessum.“
Aðsend
Eftir að hafa ferðast víða um Indland og einnig farið til Nepal var komið að því að heimsækja Kolkata og barnaheimilið. Anton hafði ekki gert sér miklar vonir um að finna móður sína en „einhvers staðar í hausnum hefði maður vonað að geta kannski fundið nafn eða annað.“
Í skjölunum sem fylgdu honum hafði móðir hans borið fyrir félagslegar og efnahagslegar aðstæður sem ástæðu ættleiðingar. „Þetta eru yfirleitt ungar konur, það var væntanlega lítill stuðningur hjá til dæmis fjölskyldu eða maka. Þess vegna eru það félagslegar aðstæður, get ég ímyndað mér. Efnahagslega er standardinn þarna úti, það er mikil fátækt og sérstaklega á þessum tíma.“
Konurnar á barnaheimilinu sögðu honum að oft fylgdi því mikil skömm að þurfa að gefa barnið sitt. „Það eru alls konar ástæður fyrir því að börn fæðast á þennan hátt, sumar ekkert rosalega góðar. Því fylgir mikil skömm og mæðurnar skrifa oft sérstaklega að þær vilji ekki láta finna sig.“ Konan sem rekur barnaheimilið sagðist þó ætla grennslast fyrir og reyna finna upplýsingar um móður hans fyrir Anton.
Anton leitaði einnig til lögreglunnar ásamt bílstjóra sínum sem talaði nokkuð góða ensku og gat þýtt fyrir hann. „Ég var mjög heppinn með bílstjóra, hann var yndislegur maður,“ segir Anton. Á endanum hafi bílstjórinn þó sagt að þeir skyldu fara því lögreglumennirnir vildu fá mútur fyrir upplýsingar sem þeir höfðu ekki. „Maður lenti í alls konar ævintýrum á þessari leið. Ég er samt mjög þakklátur fyrir að hafa farið á barnaheimilið og sjá aðstæðurnar.“
Upplifðu það besta og versta
Á barnaheimilinu hitti Anton konur sem höfðu verið starfandi þegar hann sjálfur dvaldi þar. „Það voru yndislegar konur sem táruðust eiginlega þegar þær áttuðu sig á því, þegar ég var að sýna þeim myndir. Það var rosalega góð stund og líka bara að sjá börnin, sjá aðstæðurnar og staðinn sem maður kemur frá.“
Þó hann hafi ekki fundið miklar upplýsingar um móður sína enn segist Anton alls ekki sjá eftir ferðinni. „Þetta var mjög skemmtileg ferð að öllu leyti, ótrúlega góður hópur sem ég var í þegar við vorum að skoða landið. Við upplifðum alls konar hluti og fengum að sjá allt það besta og versta.“
Rætt var við Anton Gunnar Ólafsson í Mannlega þættinum á Rás 1.
Sjá grein og viðtal við Anton Gunnar á rúv.is