rúv.is - Ólöglegar ættleiðingar í Svíþjóð
Ættleidd án samþykkis líffræðilegra foreldra
Tugþúsundir barna hafa verið ættleiddar til Svíþjóðar erlendis frá undanfarna áratugi. Í flestum tilfellum koma börnin frá löndum þar sem hluti fólks býr við sára fátækt eða svæðum þar sem upplausn ríkir, til dæmis vegna borgarastríðs eða valdaráns. Í umfjöllun dagblaðsins Dagens Nyheter kemur fram að ágallar hafi verið á ættleiðingum frá flestum þeim löndum sem börn hafa verið ættleidd frá.
Sérstök athygli hefur beinst að Suður-Ameríkuríkinu Chile enda hafa fjölmiðlar þar í landi fjallað um meint mannrán og lögbrot í tengslum við ættleiðingar til Svíþjóðar, áratugum saman.
Ríflega tvö þúsund börn voru ættleidd til Svíþjóðar frá Chile á árunum 1971 til 1992. En allt bendir til að strax frá upphafi, hafi eitthvað misjafnt átt sér stað.
Fyrsta barninu sem ættleitt var til Svíþjóðar frá Chile, var flogið hingað 1971, af konu sem kölluð er Aja, í ítarlegri umfjöllun Uppdrag Granskning, fréttaskýringarþáttar sænska ríkissjónvarpsins. Aja þessi átti eftir að starfa mikið fyrir sænsku ættleiðingarsamtökin Adoptionscentrum.
Samkvæmt sænskum lögum, þurfa blóðforeldrar að veita samþykki sitt fyrir ættleiðingu, ef hægt er að hafa uppi á þeim. Og þessari fyrstu ættleiðingu frá Chile var hafnað af dómstól hér í Svíþjóð, vegna þess að slíkt samþykki lá ekki fyrir. En eftir að talsmenn foreldranna fullyrtu að þetta væri bara misskilningur, blóðforeldrana væri hvergi að finna, þá féllst dómstóllinn á það. Og heimilaði ættleiðinguna.
En var þetta rétt? Og hvaðan kom barnið og öll hin börnin sem Aja þessi hafði milligöngu um að ættleiða til Svíþjóðar næstu árin?
Þetta er ekki vitað. Í bréfi frá Adoptionscentrum til sænska sendiráðsins í Chile, árið 1975 segir: „Við vitum ekki hvernig hún vinnur. Við höfum bara þakkað fyrir og þegið.“
"Af hverju segir mamma mín að mér hafi verið rænt?"
Þrátt fyrir þetta hafa fulltrúar samtakanna ítrekað fullyrt að það sé ekkert bogið við ættleiðingar til Svíþjóðar.
Því miður virðist sú fullyrðing hæpin. Í Uppdrag Granskning og í umfjöllun Dagens Nyheter, hefur verið rætt við fjölda mæðra í Chile sem segja að börnum þeirra hafi hreinlega verið rænt. Stundum af sjúkrahúsum og stundum hafi börn verið tekin af mæðrum sem höfðu verið handteknar vegna einhvers - sérstaklega eftir valdarán herforingja í Chile 1973.
Eitt þessara barna er Anna Contreras Hurtig sem var ættleidd frá Chile, árið 1981. Í skjölum frá ættleiðingarsamtökunum, kemur fram hverjir eru líffræðilegir foreldrar Önnu. Þá segir að þeir búi við mikla fátækt og geti ekki séð henni farborða.
En þegar Anna varð18 ára hafði hún samband við líffræðilega móður sína. Sem fékk áfall.
Þegar móðirin var ólétt, átján árum áður, hafði hún lent í alvarlegu umferðarslysi og verið haldið sofandi á sjúkrahúsi. Þegar hún vaknaði og spurði eftir barninu, var henni tjáð að það hefði látið lífið í slysinu.
Mál þetta vakti mikla athygli í Chile þegar það kom upp - fyrir um tuttugu árum. Og Anna Contrares Hurtig kom fram í viðtalsþáttum þar í landi, ásamt chíleanskri móður sinni. Þegar hún kom heim til Svíþjóðar, hafði hún samband við Adoptionscentrum - til að láta vita. En segist ekki hafa komið að lokuðum dyrum.
Málið komst enn og aftur í hámæli 2018, eftir umfjöllun í Chile. Og í framhaldinu komustu margir Svíar, ættleiddir frá Chíle, í samband við blóðforeldra sína. Meðal þeirra Maria Diemar. Sem vildi vita hverju segir mamma mín að mér hafi verið rænt?
Svarið frá Adoptionscentrum var sama þá og nú - að þetta segi mæður, því þær finni fyrir skömm og sektarkennd. Segir Maria Diemar.
Lítil viðbrögð í Svíþjóð, þrátt fyrir mikla umfjöllun í Chile
Þegar Uppdrag granskning spurði fyrrverandi skrifstofustjóra samtakanna út í málið fyrr á þessu ári, sagðist hún vissulega hafa séð, einstaka sinnum, umfjöllun um að ættleiddum börnum hafi verið stolið af foreldrum sínum. En hún hafi aldrei haft neinar áhyggjur af því að það gæti verið rétt.
Það virðist ekki hafa verið mikill áhugi á því í gegnum árin að komast til botns í þessum málum. - hvorki hjá Adoptionscentrum né sænskum stjórnvöldum.
Í Chile hefur málið hins vegar verið til rannsóknar. Þingnefnd rannsakaði ættleiðingar fyrir nokkrum árum og komst þeirri niðurstöðu að rétt væri að hefja málsókn á hendur chileanska ríkinu fyrir kerfisbundin mannréttindabrot. Og lögregluyfirvöld í Chile hafa nú til rannsóknar 630 ættleiðingar til Svíþjóðar.
Eftir stendur spurning einnar móðurinnar sem nýlega frétt að tveir synir hennar væru á lífi og hefðu alist upp hjá fjölskyldu í Svíþjóð. Henni hafði verið sagt að þeir hefðu látist úr lungnabólgu fyrir rúmum 40 árum, á meðan hún var í fangelsi herforingjastjórnar Pinochet. Hún vildi vita: Hver gefur mér þessi 40 ár til baka?
Og einnig: Gerði sænska ríkið eitthvað til að fá að vita hvaðan börnin komu?
Og svo eru það börnin sem nú eru orðin fullorðin. Og foreldrar þeirra - uppeldisforeldrar sem ættleiddu börnin og vissu ekki betur en að þau hefðu verið að koma munaðarlausum börnum í foreldra stað.
Þingið lætur rannska málið
Eftir áralanga bið ákvað sænska þingið loks á þriðjudag að hefja rannsókn á því hvernig staðið var að ættleiðingum erlendis frá til Svíþjóðar undanfarna áratugi. Og það liggur á. Eins og einn rannsakenda í Chile bendir á hafa margar mæðurnar leitað að börnunum sínum allt sitt líf. Og nú þegar þær eru að komast til ára sinna er hætta á að þær deyji án þess að fá nokkurn tíma að vita hvað varð um börnin.