Fréttir

Rúv.is - UNICEF: Ættleiðingar ekki lausn

Mynd: EPA
Mynd: EPA
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF, segist vera sammála Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, um að það verði einnig að veita aðstoð nálægt Sýrlandi. Bergsteinn segir engu að síður að ættleiðingar séu ekki lausn enda séu þær ekki leyfðar í Mið-Austurlöndum.
 

Þetta kemur fram á Twitter-síðu Bergsteins. Sigmundur Davíð gerði málefni flóttamanna að umtalsefni í stefnuræðu sinni í kvöld. 

Hann sagði að íslensk stjórnvöld teldu griðarlega mikilvægt að „við og aðrar þjóðir bregðumst eins vel við þessum vanda og kostur er.“ Mikil góðvild og hjálpfýsi almennings á Íslandi og víða um lönd skipti einnig miklu máli.  

Forsætisráðherra nefndi sem dæmi að meta þyrfti hvort hægt væri að einfalda ættleiðingu barna frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum löndum. „Þúsundir sýrlenskra barna eru nú munaðarlaus og búa við erfiðar aðstæður.  

Hann sagði þó að í öllum sínum aðgerðum yrðu Ísland og önnur Evrópulönd að gæta þess að senda ekki út „þau skilaboð að þau aðstoði fólk eingöngu ef það leitar á náðir glæpamanna og hættir lífi sínu til að komast til Evrópu.“ 

Sammála - verðum að veita aðstoð líka nálægt Sýrlandi. Ættleiðingar eru samt ekki lausn og ekki leyfðar í Mið-Austurlöndum #stefnuræða

— Bergsteinn Jonsson (@Bergsteinn) September 8, 2015

Þingmönnum var tíðrætt um vanda flóttamanna í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði til að mynda að Íslendingar mættu ekki líta undan.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, lýsti ánægju sinni með hvernig fólk hefði látið til sín taka og boðið fram aðstoð við flóttamenn að undanförnu.

Rúv.is - UNICEF: Ættleiðingar ekki lausn


Svæði