Fréttir

Sálfræðingur ráðinn til starfa hjá félaginu

Lárus Blöndal sálfræðingur hefur verið ráðinn til starfa hjá Íslenskri ættleiðingu. Lárus mun sinna fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við kjörfjölskyldur fyrir og eftir ættleiðingu og mun jafnframt sinna stuðningi og ráðgjöf við uppkomna ættleidda sem leita til félagsins.

Allt frá því fjárlög voru samþykkt á Alþingi í desember fyrir ári, hefur verið ljóst að verkefni og aðstæður félagsins tækju veigamiklum breytingum. Eins og þekkt er, hefur um langa hríð verið kveðið á um í löggjöf að félaginu beri að sinna ýmsum verkefnum í samræmi við ákvæði Haagsamningsins um alþjóðlegar ættleiðingar, án þess að félagið hefði raunverulega getu til að annast verkefnin. Löggjöfin hefur því verið ágæt þó á framkvæmdina hafi skort.

Þegar drög að þjónustusamningi milli Innaríkisráðuneytis og Íslenskrar ættleiðingar lágu fyrir í haust var ákveðið að auglýsa lausa stöðu ráðgjafa hjá félaginu.

Lárus, sem kom til starfa hjá ÍÆ fyrir mánuði, útskrifaðist sem sálfræðingur frá Háskólanum í Osló í árslok 1988 og hefur unnið við ýmis sálfræðistörf síðan og mikið með börnum og foreldrum þeirra.

Má þar nefna Unglingaráðgjöf Unglingaheimili ríkisins, Heimili einhverfra, sérdeild fyrir einhverfa, Félagsstofnun Reykjavíkur m.a. við forsjármál, Svæðiskrifstofu um málefni fatlaðra Reykjanesi, Leikskólum Reykjavíkur og nú síðast hjá SÁÁ og þar af síðustu sex árin með börnum og foreldrum þeirra.

Lárus er giftur Valgerði Baldursdóttur geðlækni og saman eiga þau þrjú ættleidd börn frá Indónesíu og Kólumbíu.

Margir eldri félagsmenn þekkja e.t.v. vel til Lárusar og Valgerðar en þau voru virk við stofnun félagsins og sat Valgerður m.a. í stjórn þess.


Svæði