Samantekt á rannsóknarniðurstöðum
16.09.2006
Niðurstöður rannsóknar á heilsu og líðan ættleiddra barna á Íslandi
Rannsókn á heilsu og líðan ættleiddra barna erlendis frá hefur nú staðið yfir um nokkurt skeið og eru fyrstu niðurstöður komnar fram. Fjallað er ítarlega um rannsóknina í BA-ritgerð Bjargar Sigríðar Hermannsdóttur og Lindu Bjarkar Oddsdóttur sem má nálgast á skrifstofu Íslenskrar ættleiðingar, á vef Foreldrafélags ættleiddra barna og á Landsbókasafni Íslands.Úrvinnslu gagna verður haldið áfram á Barna- og unglingageðdeild LSH eftir því sem fleiri svör berast.
Flest börnin sem svör bárust um voru ættleidd frá Indlandi eða Kína og 90% höfðu dvalið á stofnun fyrir ættleiðingu. Börnin voru á aldrinum eins árs til fjögurra ára við komuna til Íslands en um 90% voru átján mánaða eða yngri við ættleiðingu. Um þriðjungur foreldra taldi eða hafði grun um að kynmóðir barnsins hefði verið vannærð á meðgöngu eða að barnið hefði fæðst fyrir tímann. Vanræksla á grunnþörfum eins og fæði, klæði og læknishjálp var talin hafa átt við um fjórðung barnanna en um 44% barna voru talin hafa upplifað vanrækslu á grunnþörfum eins og ástúð, umhyggju og athygli. Rúmlega þriðjungur foreldra taldi að sæmilega eða illa hefði verið hugsað um börn þeirra fyrir ættleiðingu.
Foreldrar flestra barna voru í hjónabandi en í um 10% tilvika voru mæður einar með börn sín. Yfir helmingur foreldra hafði lokið háskólanámi en þar sem ekki fengust samanburðartölur fyrir íslenska foreldra almennt er ekki ljóst hvort menntun kjörforeldra er meiri en hjá öðrum foreldrum. Yfir helmingur mæðra og nær allir feður voru í fullri vinnu og 30% mæðra voru í hlutastarfi. Í nær öllum tilvikum hafði að minnsta kosti eitt foreldri farið í barneignarleyfi eftir ættleiðingu og um 90% foreldra fengu sex mánaða leyfi eða meira. Hluti foreldra fékk þó mun lengra barneignarleyfi og var meðallengdin tíu mánuðir. Um 70% foreldra var boðið að sækja sérstakt undirbúningsnámskeið fyrir ættleiðingu en nær enginn af foreldrum barna á aldrinum átta til átján ára var í þeim hópi.
Stór hluti barna var við góða heilsu við komuna til Íslands en 40% foreldra sögðu að börn þeirra hefðu greinst með fleiri heilsufarsvandamál en gefin voru til kynna fyrir ættleiðingu. Hegðunarvandamál á fyrstu mánuðum eftir ættleiðingu virtust í flestum tilvikum hafa verið væg en þau algengustu voru svefnvandamál og martraðir. Hjá flestum börnum löguðust hegðunarvandamál innan sex mánaða frá ættleiðingu og um þriðjungur barna átti ekki við nein slík vandamál að etja. Geðrænir erfiðleikar, námserfiðleikar eða þroskaskerðing kom fram hjá nokkrum börnum og flest þeirra höfðu þegar hlotið meðhöndlun. Rúmlega 70% barna glímdu ekki við erfiðleika af þessu tagi.
Miðað við svör foreldra voru erfiðleikar við myndun geðtengsla hjá börnunum sjaldgæfir og samkvæmt 80% foreldra liðu einungis nokkrir dagar þar til börn þeirra höfðu tengst þeim. Um 20% töldu að mánuður eða meira hefði liðið þar til börnin höfðu tengst þeim en nær allir foreldrar töldu sterk tengsl hafa myndast ári eftir ættleiðinguna. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að erfiðleikar við myndun geðtengsla geta komið upp meðal barna af stofnunum og kjörforeldra þeirra og þar sem niðurstöðurnar stangast nokkuð á við það er mögulegt að ekki sé viðeigandi að meta geðtengsl út frá svörum foreldra við beinum spurningum um þau.
Niðurstöður bentu til þess að einkenni á einhverfurófi og einkenni athyglisbrests og ofvirkni séu nokkuð algengari hjá ættleiddum börnum en hjá íslenskum börnum almennt. Tíðni tilfinningavanda, erfiðleika í samskiptum við jafnaldra og jákvæðrar félagslegrar hegðunar virðast í samræmi við niðurstöður rannsókna á íslenskum börnum en einkenni hegðunarvanda voru aðeins tíðari. Þegar spurt var hvort foreldrar teldu börn sín eiga í vanda tengdum tilfinningum, einbeitingu, hegðun eða samskiptum töldu 16% þeirra börnin eiga við væga erfiðleika að etja, 7% töldu erfiðleika barnanna vera greinilega og 4% sögðu þau glíma við alvarlegan vanda. Erfiðleikar barna höfðu helst truflandi áhrif á nám þeirra en síst á tómstundaiðkun.
Nær allir foreldrar sögðu ókunnuga auðveldlega geta séð að barnið hefði verið ættleitt með því að sjá fjölskylduna en 84% töldu útlit þess ekki hafa áhrif á hvort því fyndist það tilheyra fjölskyldunni. Í 83% tilvika höfðu allir ættingjar stutt þá ákvörðun foreldra að ættleiða barn og í öðrum tilvikum höfðu flestir ættingjar sýnt stuðning. Langflestir ættingjar reyndust jafnframt koma fram við börnin eins og þau væru líffræðileg börn foreldra sinna. Samkvæmt foreldrum fá 13% barna á aldrinum sex til átján ára oft eða stundum móðgandi eða óviðeigandi athugasemdir um kynþátt sinn frá jafnöldrum og 17% hafa oft eða stundum fengið slíkar athugasemdir varðandi ættleiðingu. Um 19% foreldra barna á aldrinum eins árs til átján ára sögðu móðgandi eða óviðeigandi athugasemdir varðandi kynþátt barnanna koma oft eða stundum frá ókunnugum og var hlutfallið 15% þegar um var að ræða athugasemdir varðandi ættleiðingu. Ættingjar, samstarfsmenn, kennarar og vinir reyndust mun sjaldnar koma með athugasemdir af þessu tagi.
Um 94% foreldra sögðust reiðubúnir að ræða um kynþáttafordóma og misrétti við börn sín þegar þörf væri á því og flestir töldu tal um slík mál ekki valda ónauðsynlegri spennu. Meirihluti foreldra hallaðist að því að kynþáttafordómar væru vandamál á Íslandi og var sammála því að traust tengsl við upprunann gætu hjálpað barni þeirra að takast á við kynþáttafordóma og misrétti í framtíðinni. Börn foreldra sem voru á þeirri skoðun voru líklegri en börn annarra foreldra til að hafa verið í tengslum við börn frá sama upprunalandi, borðað eða tekið þátt í að elda mat frá upprunalandi sínu, haldið upp á einhvern hátíðisdag landsins eða tekið þátt í annars konar athöfnum sem einkenna upprunalandið. Einungis fjögur börn höfðu þó farið til upprunalandsins eftir ættleiðingu. Langflestir foreldrar töldu umfjöllun um sögu og framlag minnihlutahópa mikilvæga í grunnskólum.
Af þeim sem töldu barnið þurfa aðstoð vegna náms- eða hegðunarvandamála fékk rúmur helmingur alla þá þjónustu sem þörf var á en það sem foreldrum fannst helst vanta var aukin námsaðstoð. Í þessum sama hópi hafði um fimmtungur þurft að sjá til þess að barnið fengi geðheilbrigðisþjónustu og þurft að greiða fyrir hana. Þessar niðurstöður benda til þess að þjónustu og stuðning við ættleidd börn erlendis frá þurfi að auka. Hafa þarf í huga að tvö af hverjum þremur börnum sem svör bárust um voru undir sex ára aldri og þar sem alvarlegir erfiðleikar koma oft ekki fram hjá börnum fyrr en síðar á ævinni er mögulegt að niðurstöður hefðu sýnt fram á meiri vanda ef hópur barna yfir sex ára aldri hefði verið stærri.
Þar sem innan við helmingur foreldra í úrtakinu hefur sent svör við spurningalistanum þarf að taka öllum niðurstöðum rannsóknarinnar með varúð. Ekki er hægt að vita hvort þau börn sem svör hafa borist um eru lýsandi fyrir öll ættleidd börn erlendis frá á Íslandi og vegna þess er erfitt að meta hversu mikil þörf er á aukinni þjónustu við þennan hóp barna. Ef svör berast frá fleiri foreldrum verður áhugavert að kanna hvort það hafi áhrif á niðurstöðurnar. Því vilja rannsakendur eindregið hvetja alla þá sem eiga eftir að svara spurningalistanum til að gera það sem fyrst ef þeir hafa tækifæri til. Jafnframt vilja þeir koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sem tóku þátt í rannsókninni.