Samið við Innanríkisráðuneytið um undirbúningsnámskeið fyrir kjörforeldra
Í gær var skrifað undir samkomulag mill ÍÆ og Innanríkisráðuneytisins um að félagið annist námskeið fyrir verðandi kjörforeldra næstu fimm árin.
Eitt af hlutverkum löggilts ættleiðingarfélags er að bera ábyrgð á að væntanlegir kjörforeldrar, sem félagið annast milligöngu um ættleiðingu fyrir, sæki námskeið til undirbúnings ættleiðingu á erlendu barni, svo sem kveðið er á um í 5. gr. reglugerðar um ættleiðingarfélög.
Ákvæði reglugerða (um undirbúningsnámskeið fyrir verðandi kjörforeldra) eiga sér stoð í lögum um ættleiðingar og eru í fullu samræmi við Haagsamninginn um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa og handbókar við þann samning, enda er undirbúningur væntanlegra kjörforeldra einn af mikilvægustu þáttunum í að tryggja velferð kjörbarns. Það er niðurstaða fjölda rannsókna að góð þjálfun og fræðsla væntanlegra kjörforeldra sé lykilatriði.
Eins og kunnugt er tilkynnti ÍÆ það til Innanríkisráðuneytisins í apríl að félagið hefði ekki bolmagn til að halda námskeiðin. Í tilkynningunni sagði meðal annrs:
“Aðstæður ættleiðingarfélagsins eru nú þannig að ekki er svigrúm til að endurnýja samning við höfund námsefnis, ekki eru aðstæður til að velja nýja leiðbeinendur og þjálfa þá og þar að auki er ekki réttlætanlegt að taka fjárhagslega áhættu af námskeiðshaldi meðan óvissa ríkir um gerð þjónustusamnings milli Innanríkisráðuneytisins og Íslenskrar ættleiðingar.”
Flest bendir nú til þess að endurgjald ríkisins fyrir störf ÍÆ aukist með fjáraukalögum sem samþykkt verða seinna í þessum mánuði og unnið er að því að annað skref verði stigið í fjárlögum næsta árs, endurgjald til félagisn verði þá 38 milljónir. Í þeirri trú að þær áætlanir gangi eftir veitti stjórn ÍÆ, Kristni Ingvarssyni framkvæmdastóra félagsins, umboð til að semja við ráðuneytið að nýju um undirbúningsnámskeið fyrir verðandi kjörforeldra.
Kristinn ritaði undir samninginn í gær fyrir hönd félagsins en af hálfu Innanríkisráðneytisins skrifaði Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri undir samninginn.
Von er á Lene Kamm höfundi námskeiðanna til landsins í vikunni. Hún mun uppfæra efni námskeiðsins sem er í stöðugri þróun, veita kennurum félagsins handleiðslu og gera samning við ættleiðingarfélagið um áframhaldandi afnot félagsins af námsefninu.
Síðar í þessum mánuði (23. og 24. nóvember) verður fyrsta námskeið þessa árs haldið en eins og áður greinir er þátttaka á námskeiðinu forsenda þess að hægt sé að senda umsókn um ættleiðingu úr landinu.