Skýrsla formanns
Hér er hægt að lesa skýrslu formanns félagsins sem flutt var á aðalfundi þann 31.03.2005.
Góðir fundarmenn,
Það er skemmst frá því að segja að ættleiðingar til Íslands gengu ágætlega á síðasta ári. Heim komu 20 börn frá Kína, 6 börn frá Kolkata og eitt frá Pune í Indlandi og loks kom eitt barn frá Kólumbíu. Til viðbótar má nefna að á árinu 2005 hafa komið heim 10 börn frá Kína og 1 frá Indlandi. Að auki eigum við 9 börn í Kína og 1 frá Indlandi sem bíða heimkomu. Gert er ráð fyrir að fleiri börn komi heim frá Kína í ár en í fyrra og ef heldur sem horfir má búast við því að þau verði 30. Væntanlega koma nokkur börn frá Indlandi og Kólumbíu en sennilega kemur fyrsta barn frá Tékklandi ekki fyrr en á árinu 2006.
Biðtími hefur styst nokkuð í Kína og tekur ferlið tæpa 18 mánuði frá upphafi þangað til barnið er komið heim, ef engar tafir verða.
Því miður tekur mun lengri tíma að ættleiða frá Indlandi. Biðin eftir börnum þaðan hefur tekið upp í þrjú ár. Við vonumst þó til að biðtíminn styttist nokkuð á næstu mánuðum. Á fyrri árum var ferlið styttra og tók á tímabili innan við ár að ættleiða frá Indlandi. Ættleiðingarferlið í Indlandi er nú tafsamara og kröfur til umsækjenda eru miklu strangari en áður. Auk þess leggja yfirvöld áherslu á ættleiðingar innanlands. Þessi nýja stefna hefur áhrif á allar ættleiðingar til útlendinga. Fulltrúar félagsins heimsóttu tengilið okkar í Kolkata nú í mars og var hún nokkuð bjartsýn varðandi starfsemina.
Biðtími til Kólumbíu er um 2 ár hjá þeim sem sækja um eitt barn en lengri bið er ef sótt er um systkin. Óhætt er að segja að ættleiðingar frá Kólumbíu gangi vel og hefur Olga lögfræðingur ÍÆ staðið sig með ágætum enda hefur hún mikla reynslu.
Á óvart kemur að nýjum umsóknum hefur heldur fækkað en alltaf hafa verið einhverjar sveiflur á milli ára. Umsóknir á árinu 2003 voru 34 en 32 á árinu 2004. Það sem af er ársins 2005 hafa 10 umsóknir borist.
Við getum tekið við umsóknum frá hjónum til allra landa sem við eigum í samskiptum við en möguleikar einhleypra eru ákaflega litlir.
ÍÆ hefur sett nýjar verklagsreglur varðandi afgreiðslu upplýsinga um börn sem berast frá Kína. Þessar reglur fela í sér að upplýsingar verða þýddar yfir á íslensku og yfirfarnar af lækni áður en væntanlegir kjörforeldrar fá þær í hendur. Verður leitast við að hafa þetta ferli sem allra styst og er gert ráð fyrir að það taki um viku til tíu daga. Sama regla hefur gilt um ættleiðingar frá Indlandi og mun einnig gilda um öll önnur ættleiðingarlönd.
Þessar reglur hafa verið bornar undir Dómsmálaráðuneyti sem telur þær eðlilegar. Danir og Svíar hafa sambærilegar vinnureglur og í raun er litið svo á að upplýsingar séu ekki tilbúnar fyrr en ákveðin vinna hefur farið fram, þ.e. þýðingar og mat læknis. Því lítur stjórn ÍÆ ekki á þessa vinnu sem ekki tafir. Þótt endanleg ákvörðun um ættleiðingu sé alltaf væntanlegra foreldra verður að byggja slíka ákvörðun á mati sérfróðra aðila og reynslan sýnir að slík ákvörðun er ákaflega erfið sé hún tekin seinna í ferlinu, þegar fólk hefur tengst ákveðnu barni með mynd og upplýsingum þótt barnið sé enn erlendis. Starf ættleiðingarfélags sem miðlara í ættleiðingarmálum felst að miklu leyti í því að finna leiðir til að tengja aðila sem oft eru í mismunandi heimsálfum, börn sem þurfa fjölskyldu og fjölskyldur sem vilja eignast börn, og síðan þau yfirvöld í báðum löndum sem eiga að fjalla um málið og taka ákvörðun um framtíð barnsins. Það er oft erfitt að vinna málin á þann hátt að allir þessir aðilar getir sætt sig við niðurstöðu. Vandamál skjóta upp kollinum og til að finna lausn verður stundum að færa fórnir. Í öllum ættleiðingarlöndum eru fleiri umsækjendur en börn eru til ættleiðingar, því verða til biðlistar og þess vegna þurfa erlend ættleiðingarfélög að sýna fram á að vinna þeirra sé í takt við reglur landsins og unnin af fullri alvöru.
Eins og félagsmönnum er eflaust kunnugt um komu upp ákveðin vandamál í ferð fyrsta hóps til Kína. Viðbrögð kínverskra stjórnvalda voru mjög hörð og var stjórn ÍÆ sagt að samstarfi yrði slitið ef slíkt henti aftur. Bent var á að umsækjendur þyrftu að kynna sér vel upplýsingarnar um barnið áður en þeir skrifa undir viljayfirlýsingu um ættleiðingu. Til þess verða allar upplýsingar að vera skiljanlegar og yfirfarnar. Frá þessu verður ekki hvikað. Erlendis hafa komið upp dómsmál vegna heilsu og þroska barna eftir heimkomu, stjórn ÍÆ vill forðast að slík mál komi upp hérlendis.
Stjórn ÍÆ hefur á því fullan skilning að biðtíminn er erfiður, einkanlega lokaspretturinn, en vonar að umsækjendur hafi á því skilning að þessar reglur eru settar að vel ígrunduðu máli og með hagsmuni umsækjenda í fyrirrúmi.
Nokkrir fyrirlestrar voru haldnir á vegum félagsins á starfsárinu, Hugó Þórisson sálfræðingur hélt fyrirlestur um samskipti foreldra og barna þann 8. mars 2004 og var skemmtilegur að vanda. Margt áhugavert kom fram í fyrirlestri hans.
Í apríl 2004 hélt Valgerður Baldursdóttir barnageðlæknir sem líka er kjörmóðir fyrirlestur um tengslamyndun og síðan fór hún í maí til Akureyrar og hélt fyrirlestur um sama efni fyrir félagsmenn á því svæði. Fyrirlestarnir voru sérlega fróðlegir, enda er Valgerður vel að sér um flest sem snýr að kjörbörnum og umræður á eftir voru líflegar. Fulltrúar félagsins fóru einnig norður til að hitta félagsmenn þar og ræða við þá.
Á árinu 2005 stóðu Samtök um tengslaröskun fyrir fyrirlestrum dr. Federici og Raphaele Miljkoctic um tengsl og tengslamyndun. Bauðst félagsmönnum ókeypis þátttaka á fyrirlestri dr. Federici og Raphaele hélt sérstakan fyrirlestur fyrir félagsmenn.
Útilega ÍÆ var að þessu sinni haldin á Laugarbakka í Miðfirði og var nokkuð vel sótt.
Fjölskyldur lítilla barna voru áberandi, börn á skólaaldri voru fá að þessu sinni en svo voru nokkrir frábærir unglingar mættir.
Foreldramorgnar hafa verið á Akureyri og í Reykjavík í haust og hafa verið vel sóttir og halda áfram á nýju ári. Jólaböll voru á báðum stöðum eins og undanfarin ár.
Formannafundur Nordic Adoption Council var á Íslandi í október, á hann mættu um 40 manns, formenn, skrifstofustjórar og aðrir fulltrúar norrænu ættleiðingarfélaganna til að bera saman bækur sínar og ræða ýmis mál. Fundurinn tókst mjög vel og var einn fyrirlesaranna fenginn til að fræða félaga ÍÆ, Victor Groza, sálfræðingur frá USA. Gátu félagsmenn fylgst með fyrirlestrinum á netinu en einnig verður hægt að fá upptöku af honum lánaða. Victor hefur áhuga á að koma aftur til Íslands og gera rannsókn og kynna ættleiðingar í Háskóla Íslands, við vonumst til að hitta hann aftur og fræðast meira.
Með dagskrá vetrarstarfsins sem send var í pósti til félagsmanna var einnig sent kynningarbréf Sólveigar Georgsdóttur um rannsókn sem hún er að hefja um upplifun kjörforeldra á foreldrahlutverki sínu og sýn þeirra á hvernig börnin mynda tengsl við Ísland og íslenskt þjóðfélag.
Einnig er búið að senda foreldrum allra barna sem komu til Íslands 2002 og 2004 bréf frá Baldri Kristjánssyni og Hönnu Ragnarsdóttur, sem ætla að gera rannsókn á ættleiddum börnum og foreldrum þeirra.
Vonumst við til að þátttaka verði góð svo niðurstöður verði marktækar.
Fyrrverandi sendiherra Indlands, herra Gandhi sem hefur aðsetur í Osló, og eiginkona hans heimsóttu skrifstofu ÍÆ og ræddu ættleiðingarmál.
Í lok ársins 2004 fengu við tilkynningu um að tékknesk ættleiðingaryfirvöld hefðu samþykkt samstarf við Íslenska ættleiðingu og bréf um samstarf væri á leiðinni, það er nú komið og vinna við fyrstu umsókn hafin.
Á síðasta vetri fóru formaður og fleiri stjórnarmenn ÍÆ á fundi með dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra og ræddu ættleiðingarmál, þ.á.m. brýna þörf fyrir ættleiðingarstyrk. Einnig var formanni Allsherjarnefndar kynnt málið óformlega í haust.
Þegar nýr forsætisráðherra tók til starfa var ákveðið að senda honum bréf með ósk um að íslensk stjórnvöld kæmu á ættleiðingarstyrk, Svar barst frá Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra. Því miður er þar ekki að sjá skilning á þörfum umsækjenda um ættleiðingu. Þar var þó bent á þann möguleika að bera erindið upp við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og var það gert. Í því sambandi er rétt að benda á að ófrjósemi er skilgreind sem sjúkdómur af WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Neikvætt svar barst síðan frá heilbrigðisráðherra og hefur stjórnin ákveðið að næstu viðbrögð í þessu máli verði að senda nýja fréttabréfið til allra þingmanna til að kynna starf félagsins og aðstæður kjörfjörskyldna.
Eflaust væri áhrifaríkt að félagsmenn, hver fyrir sig, hefðu samband við þingmenn kjördæmis síns og aðra áhrifamenn sem þeir kunna að þekkja, til að fræða þessa aðila um nauðsyn ættleiðingarstyrkja og benda á fordæmi á öllum hinum Norðurlöndunum sem komu á ættleiðingarstyrkjum um 1990-´94, nema í Finnlandi þar sem þeir voru teknir upp 2002.
Hæsti styrkurinn er greiddur í Færeyjum og Færeyingar munu ættleiða flest börn af erlendum uppruna, miðað við hina sívinsælu höfðatölu.
Í febrúar afhenti félagið UNICEF styrk að fjárhæð kr. 305.000 vegna Tsunami.
Ný heimasíða var tekin í notkun. Á henni verður sérstakt svæði fyrir félagsmenn en það svæði er ennþá i vinnslu.
Samkvæmt nýrri reglugerð dómsmálaráðuneytisins hefur félaginu verið falið að annast fræðslu til væntanlegra kjörforeldra. Fræðslufulltrúar félagins, Ingibjörg Birgisdóttir og Ingibjörg Jónsdóttir, hafa fengið sér til liðsinnis Lene Kamm, sem hefur séð um skipulagningu fræðslu í Danmörku. Á fundi sem hún átti með fræðslufulltrúunum afhendi hún fræðsluefni (120 blaðsíður) sem nú er verið að þýða. Ætlunin er að nota þetta efni þegar fræðslan hefst næsta haust.
Nokkur námskeið um umönnun ungra barna hafa verið haldin og sér Kristín Svala Jónsdóttir, hjúkrunarfr. og ljósmóðir um þau.
Þýðing á sænskum leikskólabæklingi, sem félagið fékk leyfi til láta þýða, er í prófarkalestri og verður tilbúinn innan skamms. Fyrirhugað er að láta þýða fleiri bæklinga úr ritröð sænskra ættleiðingarfélaga, t.d. bæklinga um kjörbarnið og skólann, um máltöku, að verða kjörfjölskylda, ættleiðingar einhleypra og um ferðir til upprunalandsins. Við höfum fengið leyfi allra höfundanna til að þýða efnið en mikill þýðingarkostnaður gæti tafið eitthvað.
Fréttabréf kom í mars 2005 og stefnt að öðru í haust.
Lítið hefur safnast inn á reikning okkar til styrktar börnum í ættleiðingarlöndunum. Þessi reikningur er ekki til annarra nota og það er mikilvægt gagnvart erlendum yfirvöldum að félagið sé ekki eingöngu að þiggja börn til ættleiðingar heldur reyni með einhverju móti að styrkja góðgerðarstarf í löndunum sem við ættleiðum frá.
Stjórn félagsins hélt 15 fundi á árinu auk samskipta í tölvupósti.
Við bendum félagsmönnum á að fylgjast með heimasíðu ÍÆ, www.isadopt.is þar koma öðru hvoru nýjar tilkynningar um félagsstarfið.