Skýrsla um ættleiðingarlöggjöf
Út er komin á vegum Dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins skýrsla um ættleiðingarlöggjöf og framkvæmd ættleiðingarmála á Íslandi. Skýrslan er unninn af Hrefnu Friðriksdóttur stjórnarformanni Stofnunar Ármanns Snævarr. Skýrslan er viðamikið verk þar sem ítarlega er fjallað um suma þætti ættleiðinga og víða leitað fanga í gagnaöflun.
Í flestum atriðum tekur skýrsluhöfundur undir þau sjónarmið sem Íslensk Ættleiðing hefur haft uppi undanfarin misseri og er það fagnaðarefni að áherslur félagsins fái brautargengi með þessum hætti.
Meðal annars leggur höfundur skýrslunnar til að:
- Mannafli í málaflokknum verði stórlega aukinn og efldur.
- Útgáfa leyfis til ættleiðinga og útgáfa forsamþykkis verði í höndum nefndar sem hafi aðsetur hjá stóru sýslumannsembætti þar sem umsækjendur geti átt greiðan aðgang að nefndinni.
- Áhersla verði lögð á að ríkisvaldið tryggi að ættleiðingarfélagið hafi raunhæfa möguleika á að sinna þeim verkefnum sem því eru falin.
- Ráðgjöf, stuðningur og þjónusta við kjörbörn og kjörfjölskyldur eftir ættleiðingu verði efld.
- Mörkuð verði skýrari stefna í málum um ættleiðingar barna með skilgreindar þarfir.
Fráfarandi dómsmála- og mannréttindaráðherra, Ragna Árnadóttir, samdi viðRannsóknarstofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni um að stofnunin taki að sér að gera úttekt á löggjöf um ættleiðingar og framkvæmd ættleiðingarmála hér á landi og skili ráðherra sérstakri skýrslu þar að lútandi. Það voru hugmyndir Rögnu að skýrslan yrði grundvöllur að frekari stefnumótun á sviði ættleiðingarmála hér á landi.
Samningur um skýrsluna var undirritaður 28. júlí síðastliðinn og samkvæmt honum var þess óskað að skýrslunni yrði skilað til ráðuneytisins fyrir 1. nóvember en skýrslan var eins og áður segir gefin út þann 30. desember síðastliðinn.
Skýrslan er samtals 183 blaðsíður með fylgiskjölum og því er hér um mikið plagg að ræða.
Það ber að fagna því að þessu skrefitil úrbóta í málaflokknum sé náð.
Íslensk ættleiðing hefur kallað eftir viðamiklum úrbótum í tvö ár. Í janúar í fyrra var Rögnu Árnadóttur sent erindi í átta liðum þar sem óskað var úrbóta, í kjölfarið fóru af stað viðræður við ráðuneytið um hvernig best væri að standa að slíkri úttekt.
Nú þegar skýrslan, sem er arfleifð Rögnu Árnadóttur fráfarandi mannréttindaráðherra, hefur litið dagsins ljós skiptir mestu hvernig unnið verður úr tillögunum. Ögmundur Jónasson núverandi mannréttindaráðherra hefur lýst því yfir að hann vilji eiga gott samstarf við Íslenska ættleiðingu og gera það sem hann getur svo þessi mál gangi smurð fyrir sig. Það er mikilvægt að ekki dofni yfir samræðu ættleiðingarfélagsins við ráðuneytið og þær tillögur skýrsluhöfundar sem brýnastar eru verði þegar í stað settar í framkvæmd.
Skýrsluna má sækja hér í heild sinni í pdf sniði.