Starfsmannabreytingar á skrifstofu
Guðrún Ó. Sveinsdóttir sem starfað hefur fyrir Íslenska ættleiðingu í 25 ár hefur látið af störfum fyrir Íslenska ættleiðingu.
Þann 30. nóvember barst stjórn félagsins bréf frá Guðrúnu með tilkynningu um uppsögn á starfinu. Á stjórnarfundi þann 1. desember var ákveðið að verða við óskum Guðrúnar um að nýta ótekið og uppsafnað orlof á uppsagnartímanum og hefur hún því látið af störfum nú þegar.
Það eru sannarlega tímamót hjá félaginu þegar Guðrún lætur af störfum eftir aldarfjórðungsstarf sem stjórnandi á skrifstofu Íslenskrar ættleiðingar. Hún hefur unnið ómetanlegt frumkvöðulsstarf í þágu ættleiðinga til landsins og staðið vaktina, oft ein og óstudd, gegn margvíslegum sjóum fordóma og fjárskorts sem háð hafa okkar litla félagi.
Störf Guðrúnar hafa verið til þess að sameina hundruði fjölskyldna og fjölmargir einstaklingar munu hugsa til hennar með þakklæti og hlýhug svo lengi sem þeir lifa. Fyrir hönd allra stjórna félagsins undanfarinn aldarfjórðung þakkar stjórn Íslenskrar ættleiðingar Guðrúnu Sveinsdóttur gott samráð og óskar henni alls góðs í framtíðinni.
Í dag var Kristinn Ingvarsson ráðinn framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar. Kristinn uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til starfsmanna ættleiðingarfélaga í 16. grein Reglugerðar um ættleiðingarfélög. Kristinn hefur undanfarið gegnt starfi deildarstjóra hjá Reykjavíkurborg, hann er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, hann hefur verið í stjórn Alþjóðlegrar ættleiðingar frá stofnun þess félags fyrir rúmu ári, hann situr í Hagsmunanefnd Foreldrafélags ættleiddra barna og er annar fulltrúa Íslenskrar ættleiðingar í stjórn NAC - Nordic Adoption Council. Kristinn er kvæntur Birnu Ósk Einarsdóttur.
Kristinn er boðinn velkominn til starfa fyrir félagsmenn Íslenskrar ættleiðingar.