Fréttir

STÓR ÁFANGASIGUR Í STYRKJAMÁLINU

Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, kynnti í dag frumvarp sem starfshópur á vegum ráðuneytisins hefur samið.  Fulltrúi  ÍÆ í nefndinni var Karl Steinar Valsson, varaformaður ÍÆ. Frumvarpið verður lagt fram á þingi á næstu dögum og vonir standa til að það verði afgreitt á þingi fyrir jól og að greiðslur hefjist 1. janúar næstkomandi.

Upphæð styrkjanna nemur kr. 480.000 vegna hverrar ættleiðingar og er gert ráð fyrir að styrkirnir verði undanþegnir staðgreiðslu því tekið verður tillit til sannanlegs kostnaðar við hverja ættleiðingu. Einnig er gert ráð fyrir að ef ættleitt er fleiri en eitt barn í einu hækki styrkurinn um 20% fyrir hvert barn. Við væntum þess að frekari upplýsingar liggi fyrir á næstu dögum og að félagsmálaráðherra kynni málið fyrir félagsmönnum á málþingi á morgun.

 Stjórn Íslenskrar ættleiðingar lýsir yfir mikilli ánægju með að þessum áfanga sé lokið í styrkjamálinu sem nú kemur til kasta Alþingis.  Fjölmargir hafa lagt þessu máli lið á síðustu árum og þrýst á stjórnvöld að taka upp styrkina sem tíðkast hafa á Norðurlöndunum síðustu 12 árin.  Stjórn Íslenskrar ættleiðingar þakkar öllum þeim sem unnið hafa að málinu.


Svæði