Stuttar fréttir af stöðu ættleiðingarmála 06.11.2004
Indland : Frá Kalkútta komu heim sex börn 2003 sem er umtalsverð fækkun frá síðustu árum. Erfiðleikar og tafir eru vegna breytinga í indverska kerfinu og hafa mörg fleiri félög lent í sömu töfum. Sjö börn eru komin á þessu ári og fleiri væntanleg. Biðtími vegna ættleiðingar frá Kalkútta er amk. 2 ár. Börnin eru nú um ársgömul þegar þau koma heim vegna fyrrnefndra breytinga á ættleiðingarferlinu. Fulltrúar stjórnar ÍÆ fóru til Indlands í desember ´03 til að hitta yfirvöld í Delhi og sitja ráðstefnu um alþjóðlegar ættleiðingar. Alls hafa komið um 150 börn frá Kalkútta. ÍÆ er löggilt til að sjá um ættleiðingar frá Indlandi og leitar nú eftir samstarfi við fleiri barnaheimili þar. Forstöðukona barnaheimilis okkar í Kolkata kom hingað í heimsókn í sept. ´03 og hitti stóran hóp barna frá Kalkútta ásamt fjölskyldum þeirra, var fundurinn mjög ánægjulegur.
Kína: Samstarf við ættleiðingaryfirvöld í Kína hófst eftir langan og erfiðan samningstíma og komu fyrstu börnin heim til Íslands 2002. Á síðasta ári komu heim einn strákur og 21 stelpa sem öll eru í fínu formi. Nú hafa 15 stúlkubörn verið sótt til Kína og fleiri börn eru væntanleg í desember.
Lágmarksaldur umsækjenda er 30 ár, en elstu umsækjendurnir fá heldur eldri börn til ættleiðingar, einhleypir umsækjendur mega aðeins vera 8% umsækjenda og eru ákveðnar reglur um umsóknir sem skoða þarf áður en einhleypir sækja um. Frá Kína koma aðallega stúlkubörn um eins árs gömul, 10 – 18 mánaða er algengast. Ættleiðingarferlið tekur væntanlega um 18 mánuði í heildina og mjög gott skipulag er á ættleiðingarmálum í Kína. Foreldrar þurfa að sækja börn sín sjálfir og dvölin er um 2 vikur. Venjulega fara 5 eða fleiri fjölskyldur saman og kínverskur túlkur aðstoðar þær. Umsóknir fyrir fleiri íslenska hópa eru hjá ættleiðingarmiðstöðinni CCAA í Beijing og mörg mál eru í vinnslu.
Í maí ´02 komu til Íslands í boði ÍÆ 6 fulltrúar CCAA til að kynna sér landið, aðbúnað barna hér og framkvæmd ættleiðingarmála. Áður höfðu fulltrúar félagsins farið til fundar við kínversk yfirvöld í september ´01 og leist mjög vel á allt skipulag. Ný íslensk ættleiðingarlög gengu í gildi í júlí ´00 og voru grundvöllur samstarfsins sem komst á með góðri aðstoð íslenska sendiráðsins í Beijing og íslenskra stjórnvalda. ÍÆ er löggilt til að starfa í Kína og við mælum með ættleiðingu þaðan fyrir alla sem uppfylla skilyrði þar.
Við höfum góðan nýjan tengilið í Kólombíu, lögfræðing sem aðstoðar ísl. umsækjendur þar, í sept. 2003 komu heim tæplega ársgamlir tvíburar frá Kolombíu og tók ferðin mánuð. Lítill drengur kom í október í ár og nokkrar umsóknir eru úti. Lögfræðingurinn, sem hefur langa reynslu í ættleiðingarmálum, er umsækjendum innan handar við allt ferlið í Kólombíu svo sem útvegun gistingar og ýmsa praktíska hluti. Aldursmörk umsækjenda eru ströng, fólk yngra en 35 ára getur ættleitt börn 1 – 3ja ára, eldri en 35 ættleiða eldri en 3ja ára börn, og þeir sem ekki setja skilyrði um kynþátt barna fara á forgangslista. Í Kólombíu býr fólk af ýmsum uppruna, indíánar, blökkumenn og fólk af spænskum uppruna, en flestir eru blanda af þessu. Heildarbiðtími 24 – 30 mánuðir, dvöl í landinu 4-6 vikur. ÍÆ hefur löggildingu til starfa í Kólombíu.
Frá Tælandi kom barní apríl 2000 og annað 2002, en einungis hafa komið 6 börn þaðan. Erfiðleikum veldur að að auk tveggja ára biðtíma eftir barni (séu umsækjendur barnlausir) eru miklar tafir við endanlega ættleiðingu sem tekur eitt til tvö ár eftir að barnið er komið heim. Á meðan er barnið fósturbarn og hefur ekki íslenskan ríkisborgararétt. Kostnaður er lægri en í öðrum löndum sem ÍÆ er í samstarfi við og félagið hefur löggildingu þar.
Rúmenía: Í desember 2000 voru kosningar í Rúmeníu og var ný ættleiðingarnefnd sett á laggir eftir þær. Hún stöðvaði ættleiðingar úr landi og nú hafa verið sett lög sem stöðva ættleiðingar til útlendinga.
ÍÆ hefur nýlega verið löggilt til að starfa í Tékklandi og bíður nú eftir að fá starfsleyfi þarlendra yfirvalda. Fá börn eru ættleidd úr landi og flest 2–3ja ára. Mesti aldursmunur foreldra og barns er 40 ár, hægt er að senda fáar umsóknir einhleypra til Tékklands.
Stjórn félagsins er að kanna nýja möguleika en sem stendur er ekkert að frétta af samstarfi í öðrum löndum. Við viljum gjarnan heyra ef fólk veit um aðra möguleika sem vert er að skoða. Brýn nauðsyn er að hafa traustan tengilið í hverju landi, og hann er ekki auðvelt að finna. Utanríkisþjónustan er lítil og íslensk sendiráð sjaldan í löndum þar sem ættleiðingar eru algengar, sendiráðið í Beijing hefur þó veitt ÍÆ ómetanlega aðstoð.
Þeir sem eru að ákveða ættleiðingarland ættu að hafa samband við nýbakaða foreldra og heyra um reynslu þeirra og ferð til að sækja barn sitt, símanúmeralisti fæst á skrifstofu.
Allir þessir foreldrar vilja gjarnan miðla reynslu sinni til ykkar, verið óhrædd við að hringja til þeirra. Einnig hvetjum við væntanlega foreldra til að lesa sér til um löndin.
Athugið að ættleiðingarlandið mun fylgja fjölskyldunni í framtíðinni. Því er best að vera jákvæður gagnvart því og muna að allir staðir hafa góðar hliðar auk hinna hliðanna. Skoðið góðu hliðarnar vel og munið að vera jákvæð svo þið gefið barni ykkar góð skilaboð um uppruna þess í framtíðinni.
Mikil aðsókn er nú að biðlista félagsins og fyrstu einhleypu konurnar hafa fengið forsamþykki. Því miður eru mjög fá tækifæri fyrir einhleypa að ættleiðavegna takmarkana erlendra yfirvalda sem kjósa helst að börnin eignist bæði móður og föður, enda fara þau sum hver til ættleiðingar vegna þess að kynmóðir þeirra er einhleyp og hefur ekki möguleika á að framfleyta sér og barninu.
Reglur um sérstakan lista fyrir einhleypa eru nú í undirbúningi því ekki er hægt að taka við nema broti þeirra umsókna sem berast frá einhleypum.
Ný ættleiðingarlög, númer 130 frá 1999, tóku gildi 11. júlí 2000. (sjá nánar t.d. á heimasíðu Alþingis)
Í framhaldi af því gerðist Ísland aðili að Haagsamningi um alþjóðlegar ættleiðingar sem auðvelda mun samstarf við yfirvöld ýmissa ríkja.
Meðal nýmæla í lögunum má nefna:
- Þeim sem búsettir eru hérlendis er óheimilt að ættleiða barn erlendis nema dómsmálaráðherra hafi áður veitt forsamþykki til ættleiðingarinnar.
- Forsamþykki gildir í tvö ár (var áður eitt ár og þurfti að endurnýja)
- Félagið Íslensk ættleiðing var löggilt til að hafa milligöngu um ættleiðingar barna erlendis.
- Einhleypir geta nú sótt um ættleiðingu, en þurfa að sýna fram á að þeir séu sérstaklega vel til þess fallnir að annast og ala upp barn.
- Ættleiðingarnefnd starfar nú sem úrskurðaraðili Dómsmálaráðuneyti til aðstoðar.
- Ef forsamþykki hefur verið gefið út gildir ættleiðing sem veitt hefur verið erlendis á grundvelli þess. Ríkisborgararéttur fylgir ættleiðingu barns innan 12 ára aldurs.
- Kjörforeldrum er skylt að skýra kjörbarni frá ættleiðingunni jafnskjótt og það hefur þroska til og eigi síðar en þegar barnið verður sex ára.
Loks viljum við benda á að undirbúningsnámskeið fyrir verðandi foreldra eru vaxandi þáttur í starfi félagsins og var á aðalfundi 1999 ákveðið að skylda umsækjendur til að taka þátt í námskeiðunum. Fundirnir eru í formi fyrirlestra og umræðna. Eru fundirnir haldnir á laugardögum milli kl. 10 og 14 til að auðvelda utanbæjarfólki þátttöku. Þátttaka er ókeypis því stjórn félagsins telur mikilvægt að verðandi foreldrar séu vel undirbúnir og hafi íhugað ýmsar aðstæður sem upp kunna að koma. Langflestir umsækjendur hafa lýst mikilli ánægju með fræðsluna. Við hvetjum ykkur eindregið til að nýta ykkur þetta tilboð fræðslunefndar félagsins, skoða dagskrá á heimasíðu félagsins undir liðnum fræðsla og skrá ykkur á námskeiðin.
Málþing um ættleiðingar var í apríl 2003. Þar voru mörg spennandi erindi haldin. Bandarískur prófessor, Victor Groza hélt fyrirlestur fyrir félagsmenn ÍÆ í október.
Varðandi fræðslufundina má benda á að seinni hluti 30. gr nýju ættleiðingalaganna er svohljóðandi:
Dómsmálaráðherra getur mælt fyrir um að með umsókn skv. 1. mgr., eða áður en forsamþykki er gefið út, skuli umsækjendur leggja fram staðfestingu um að þeir hafi sótt námskeið um ættleiðingar erlendra barna. Ráðherra getur sett nánari reglur um inntak þess, skipulagningu og gjaldtöku.
Tillögur frá biðlistafólki um starf félagsins eru alltaf vel þegnar.
Hringið endilega ef þið eruð í vafa varðandi einhver atriði, hlutverk skrifstofunnar er meðal annars að aðstoða umsækjendur í öllu ferlinu, síminn er 588 1480.