Tékkland
Íslensk ættleiðing hefur nú hafið samstarf við ættleiðingaryfirvöld í Tékklandi. Má reikna með að í framtíðinni verði árlega ættleidd þaðan nokkur börn til Íslands ef nógu margir umsækjendur hafa áhuga.
Helstu skilyrði eru gifting og sambúð í a.m.k. 3 ár. Umsækjendur séu 25- 38 ára þegar umsókn er send, þegar upplýsingar um barn koma mega umsækjendur ekki vera meira en 40 árum eldri en barnið. Barnlausir hafa forgang og best er að senda ófrjósemisvottorð. Umsækjendur séu ekki á sakaskrá.Sé umsögn gerð af félagsráðgjafa eins og venja er hérlendis þurfa umsækjendur að fá á eigin kostnað sálfræðimat til að senda með umsókn-inni.Einhleypir eiga örlitla möguleika á ættleiðingu í Tékklandi en aldursmörk eru mun strangari en t.d. í Kína. Börnin eru oftast milli tveggja og þriggja ára gömul, hægt er að sækja um ættleiðingu eldra barns. Yngstu börnin eru alltaf ættleidd innan Tékklands og börnin sem ættleidd eru til útlendinga eru langflest af sígönskum uppruna. Oft eru einhverjar athugasemdir í læknisvottorði barnanna, t.d. að þau séu rangeygð, þurfi gleraugu eða hafi astma. Mæðurnar hafa stundum neytt áfengis eða lyfja á meðgöngu. Alltaf eru gerð HIV próf á börnunum. Börn með mikla erfiðleika eða þroskatruflanir eru yfirleitt ekki ættleidd.Biðtími er um það bil 18 mánuðir frá því umsókn er send til Tékklands. Umsækjendur þurfa að fara 2 ferðir, fyrst í fáa daga til að hitta barnið sem þeim er ætlað, ákveða hvort þeir sækja um ættleiðingu þess og skrifa undir öll skjöl. Um 4-6 vikum seinna er seinni ferðin sem tekur um 2 vikur og er þá aðlögunartími og gengið frá ættleiðingarmálinu. Börnin eru ekki ættleidd í Tékklandi heldur er sótt um ættleiðingu hér eftir heimkomu barnsins. Börnin koma oftast frá 7 barna-heimilum á vegum yfirvalda, víðsvegar um Tékkland. Senda þarf 5 skýrslur um eftirfylgni til tékkneskra stjórnvalda eftir heimkomu barnsins á næstu þremur og hálfu ári. Heildarkostnaður verður svipaður og í öðrum löndum, um milljón með tveimur ferðum. Barnaheimili í Tékklandi hafa betri aðbúnað en víða er í A-Evrópu. Danir og Svíar hafa ættleitt börn þaðan síðustu ár og eru ánægðir með umönnun barnanna og ættleiðingarferlið í Tékklandi.