Þjónustusamningur
Þjónustusamningur dómsmálaráðuneytisins og Íslenskrar ættleiðingar um endurgjald fyrir veitta þjónustu rann út um síðastliðin áramót. Mikill áhugi var á áframhaldandi samningi en ekki hafði gefist tími til að reka endahnút á samningsgerðina. Það var því gleðifregnir að samningsaðilar náðu saman um að endurnýja samninginn til eins árs og leggja vinnu í að kostnaðargreina þá þjónustu sem í boði er fyrir félagsmenn.
Haukur Guðmundsson, ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins skrifaði undir samninginn á afmælismálþinginu og flutti eftirfarandi erindi við það tækifæri.
Kæru gestir, ég vil byrja á því að óska Íslenskri ættleiðingu til hamingju með 40 ára afmælið.
Dómsmálaráðuneytið hefur í gegnum árin átt gott samstarf við Íslenska ættleiðingu, en eins og hefur verið minnst á hér á undan þá var félagið upphaflega löggilt af hálfu ráðuneytisins árið 2000 í kjölfar þess að Ísland gerðist aðili að Haagsamningnum um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa.
Nú hafa ráðuneytið og Íslensk ættleiðing komið sér saman um endurnýjun þjónustusamnings til eins árs. Að mati ráðuneytisins er gerð þjónustusamnings við félagið mikilvægur hluti af eftirliti ráðuneytisins með félaginu. Í dag hefur Ísland myndað nokkurra sérstöðu hvað þetta varðar, en í öðrum löndum eru löggilt ættleiðingarfélög yfirleitt nær eingöngu fjármögnuð af félagsgjöldum. Hefur þetta fyrirkomulag á Íslandi fengið góðar undirtektir erlendis af okkar samstarfsaðilum og fleirum. Ráðuneytið stefnir að því að halda áfram að þróa þjónustusamning við félagið til næstu ára og mun það vera verkefni ráðuneytisins og félagsins á komandi mánuðum.
Ljóst er að með ættleiðingu er verið að taka afdrifaríka ákvörðun sem varðar barn og felur í sér ráðstöfun og réttarstöðu þess til frambúðar. Mikilvægt er að allir aðilar sem koma að slíkri framkvæmd vinni faglega og af heilindum þannig velferð barns í tengslum við ættleiðingu sé tryggð. Ráðuneytið mun halda áfram að tryggja í allri stefnumótun í ættleiðingarmálum að hagsmunir barnsins séu ávallt í forgrunni.
Ráðuneytið vill að lokum þakka Íslenskri ættleiðingu fyrir góð samskipti á liðnum árum og væntum við þess að halda því áfram.