Um ættleiðingar samkynhneigðra
Ættleiðingar milli landa byggja á alþjóðlegum samningum og lögum tveggja landa, þ.e. fæðingarlands barns og lands væntanlegra kjörforeldra. Til að ættleiðing samkynhneigðs pars á barni frá öðru landi geti orðið að veruleika, þarf því Dómsmálaráðuneytið að gera samning við land sem heimilar slíkar ættleiðingar.
Stjórn Íslenskrar ættleiðingar er ekki kunnugt um lönd sem heimila erlendu samkynhneigðu pari að ættleiða barn. Í því sambandi má benda á að Svíar hafa heimilað samkynhneigðum að sækja um ættleiðingar erlendra barna frá febrúar 2003 en sænsk ættleiðingarfélög hafa enn ekki geta liðsinnt samkynhneigðum umsækjendum. Ættleiðingar til Svíþjóðar voru t.a.m frá eftirtöldum löndum árið 2004: Kína, Kólombíu, Kóreu, Eþíópíu, Indlandi, Suður-Afríku, Rússlandi, Tælandi, Bólívíu, Fillipseyjum, Taiwan, Hvítarússlandi, Póllandi, Úkraínu, Tékklandi, Perú, Litháen, Búlgaríu, Sri Lanka, Serbíu og Svartfjallalandi, Ekvador, Albaníu, Nepal, Sóvakíu, Króatíu og Eistlandi. Ekkert þessara 26 landa hefur tekið við umsókn frá fyrsta sænska samkynheigða parinu sem sótt hefur um að ættleiða erlent barn. Á árinu 2005 voru á vegum sænsku félaganna ættleidd börn frá 25 löndum og enn hafa engin lönd viljað taka við umsókn samkynhneigðra para. Til Svíþjóðar eru árlega ættleidd tæplega eittþúsund börn.
Jafnframt bendir stjórnin á, að ættleiðingar eru viðkvæmur málaflokkur. Ættleiðingar eiga alltaf að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Um það er kveðið á í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Haagsamningi um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa og þeim alþjóðalögum og sáttmálum sem í gildi eru. Samskipti við yfirvöld og stofnanir í öðrum ríkjum krefjast þess að um mál sé fjallað af virðingu fyrir lögum og siðvenjum í viðkomandi landi. Í því sambandi er rétt að hafa í huga, að samkynhneigð er ekki viðurkennd í öllum samfélögum með sama hætti og hér á landi og á Vesturlöndum almennt. Sama gildir um sambúð og barneignir samkynhneigðra. Stjórn Íslenskrar ættleiðingar leggur höfuðáherslu á að sérstakrar varúðar verði gætt að spilla ekki fyrir þeim góðu samböndum sem Ísland hefur við nokkur erlend ríki í sambandi við ættleiðingar, eða fyrir stofnun nýrra sambanda við erlend ættleiðingaryfirvöld. Mikil vinna hefur verið lögð í að koma þessum samböndum á og í að rækta þau og þroska. Mikilvægt er að tryggja að ekki verði stigin skref sem geta haft neikvæð áhrif á þessi sambönd.
Í þessu sambandi má nefna að í Danmörku og Hollandi er samkynheigðum heimilað að ættleiða innlend börn þar sem við slíkar ættleiðingar er einungis verið að vinna með lög og reglugerðir eins lands. Ástæða þessara ákvörðunar var virðing fyrir lögum og siðvenjum þeirra landa sem Danmörk og Holland eru í samskiptum við að því er varðar ættleiðingar.