Fréttir

Um vinnureglu...

...um að ekki megi óska eftir annarri ættleiðingu fyrr en ár er liðið frá því foreldrar koma heim með fyrra barn

Eins og getið var um í Fréttariti félagins frá 3. nóvember var vinnuregla um að ekki megi óska eftir annarri ættleiðingu fyrr en ár er liðið frá því foreldrar koma heim með fyrra barn, aflögð um sinn af hálfu félagsins frá og með 7. nóvember. Ekki er þó útséð um að sögu þessarar vinnureglu sé lokið

Í aukaútgáfu Fréttaritsins frá 16. nóvember er m.a. sagt frá fundi fulltrúa Í.Æ, ráðherra og fleiri aðila. Á fundinum kom ofangreint vinnulag til umræðu og er sagt frá því í Fréttaritinu með eftirfarandi hætti.

“Einnig kom til umræðu á fundinum að fulltrúar í ráðuneytinu eru ánægðir með þá vinnureglu sem Í.Æ. hefur nú hætt að starfa eftir og snýst um að ekki megi leggja fram nýja umsókn fyrr en ár er liðið frá fyrri ættleiðingu.

Af hálfu ráðuneytisins verður það ef til vill skoðað hvernig rökstyðja megi þetta vinnulag og hvort lagalegar forsendur séu til að formgera það í reglugerð.”

Á stjórnarfundi Íslenskrar ættleiðingar þann 18. nóvember var málefnið aftur til umræðu og um það var þá bókað:

“Umræður um viðbrögð fulltrúa í Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu við ákvörðun stjórnar Í.Æ. sem bókuð var undir 2. lið fundargerðar frá 13. Fundi stjórnarinnar þann 14. október 2009. Ákveðið að formaður taki saman efni umræðunnar og sendi ráðherra þá samantekt þegar í stað.”

Bréfið sem formanni var falið að senda ráðherra fór til Rögnu Árnadóttur Dómsmála- og mannréttindaráðherra þann 18. nóvember og það má lesa í heild sinni hér fyrir neðan. Vinsamleg viðbrögð ráðherrans þess efnis að álitaefni bréfsins verði athuguð og lagaskrifstofa skoði lagaskilyrðin bárust degi síðar.

 

 

Erindi til ráðherra 18.11.09:

Dómsmála- og mannréttindamálaráðuneytið
b.t. Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra 
Skuggasundi 
150 Reykjavík

Reykjavík, 18. nóvember 2009

Efni: Um boðað biðtímaákvæði í reglugerð

Háttvirti ráðherra.
Um leið og ég þakka fyrir fundinn með yður föstudaginn 13. nóvember síðastliðinn, fagna ég því fyrir hönd félagsmanna í Íslenskri ættleiðingu að þér efnið til samráðs af þessu tagi um mótun reglna og lagaumhverfis sem væntanlegir kjörforeldrar munu búa við.

Eins og fram kom á áðurnefndum fundi hefur Íslensk ættleiðing hætt að starfa eftir vinnureglu þess efnis að taka ekki við umsóknum um forsamþykki frá kjörforeldrum, sem ættleitt hafa barn nýverið, fyrr en ár er liðið frá fyrri ættleiðingu. Fulltrúar félagsins hafa tilgreint ýmis rök fyrir því að ekki skuli starfað lengur eftir þessu vinnulagi sem tíðkast hefur um árabil. Þau helstu eru að fyrirkomulagið, sem á sér ekki stoðir í lögum eða reglugerð, er íþyngjandi fyrir einstaklinga sem þegar hafa tekið ákvörðun um að ættleiða öðru sinni, og er ástæðulaust í þeim aðstæðum sem nú ríkja þegar biðtími eftir barni erlendis frá er mjög langur eða að minnsta kosti fjögur ár.

Þau rök sem mæla með því að viðhafa beri áðurnefnt vinnulag, sem eins og áður segir á sér ekki stoð í lögum eða reglugerð en er þó getið um í leiðbeiningabæklingi til barnaverndarnefnda um umsagnir í ættleiðingamálum gefnum út af Dómsmálaráðuneytinu árið 1997 eða tveimur árum áður en núverandi löggjöf um ættleiðingar var sett af Alþingi, þau rök snúa að samræmingu reglna á Norðurlöndum. Ekki er ástæða til að gera lítið úr mikilvægi þess, háttvirti ráðherra, að reglur verði samræmdar á Norðurlöndum og íslensk stjórnsýsla efld og lögðuð að því besta sem þekkist meðal nágranna okkar, en þess ber þá að geta að aðstæður í ættleiðingamálum á Íslandi eru um margt annarskonar en á hinum norðurlöndunum. Eins og ráðherrann hefur bent á hefur ekki verið hugað að stofnun nýrra ættleiðingasambanda milli Íslands og annarra landa með sama árangri og á hinum Norðurlöndunum. Árangurinn er að virk milliríkjasambönd um ættleiðingar eru að lágmarki tvöfalt fleiri á hverju hinna norðurlandanna en á Íslandi. Fjöldi virkra milliríkjasambanda hefur áhrif á fjölda ættleiðinga til landsins. Samkvæmt gögnum frá systursamtökum Íslenskrar ættleiðingar í Evrópusamtökunum Euradopt er fjöldi ættleiðinga til hinna Norðurlandanna sem hlutfall af stærð þjóðanna nærri tvöfalt hærri en á Íslandi. Fá ættleiðingasambönd milli miðstjórnvalda á Íslandi og í öðrum löndum hefur einnig valdið því að samdráttur í alþjóðlegum ættleiðingum, sem einkum hefur borið á í kjölfar þess að mörg lönd vinna nú að innleiðingu Haagsamningsins, hefur komið fram á Íslandi af margföldum þunga á við flest önnur lönd. Má í þessu samhengi nefna að samkvæmt gögnum okkar frá Euradopt voru ættleiðingar til Noregs árið 2008 alls 304, til Danmerkur 395, til Svíþjóðar 599 en til Íslands einungis 13. Af þessu má ráða að svigrúm og ástæður annarra Norðurlandaþjóða til að setja reglur sem draga úr fjölda umsókna um ættleiðingar og hægja á afgreiðslu þeirra kann að vera af öðrum toga en hér gerist.

Í kjölfar á áðurnefndum fundi með yður, barst undirrituðum ásamt öðrum, tölvupóstur frá lögfræðingi í ráðuneytinu þar sem segir m.a.

 “Til viðbótar tilkynnist að ráðherra hefur auk þess fallist á sjónarmið félaganna um að ekki sé rétt, eins og á stendur, að gera það að skilyrði að kjörforeldrar bíði í 12 mánuði eftir heimkomu barns þar til beiðni um forsamþykki til ættleiðingar á öðru barni er lögð fram hjá sýslumanni. Því verður einnig kveðið á um í reglugerðinni að heimilt sé að leggja fram nýja forsamþykkisumsókn hjá sýslumanni 6 mánuðum eftir heimkomu ættleidds barns.”

Af þessu tilefni vil ég upplýsa yður um, að samkvæmt tölum sem ég hef látið taka saman um hver afgreiðslutími á umsóknum um forsamþykki hefur verið undanfarið, kemur fram að tafir í afgreiðslu þessara mála eru verulegar. Sýslumaðurinn í Búðardal hefur að jafnaði verið 23 vikur að afgreiða umsóknir um forsamþykki síðastliðið ár, en það eru 5,2 mánuðir að jafnaði sé miðað við fimm daga vinnuviku og 22 vinnudaga í mánuði. Ef það er niðurstaða yðar að kveða á um í væntanlegri bráðabirgðareglugerð að ekki sé heimilt að leggja fram nýja forsamþykkisumsókn hjá sýslumanni fyrr en 6 mánuðum eftir heimkomu ættleidds barns, þá er sú ákvörðun fallin til þess að bæta 6 mánuðum við þann drátt sem nú þegar er á afgreiðslu þessara mála. Vandséð er hvað eigi að gerast á þessum 6 mánuðum sem ekki gerist hvort eð er á þeim árum sem væntanlegir kjörforeldrar þurfa því miður að bíða þar til umsókn þeirra fær afgreiðslu hjá erlendum ættleiðingaryfirvöldu.

Ég legg því til við yður að þér frestið ákvörðun um að kveða á um í reglugerð að þá fyrst sé heimilt að leggja fram nýja forsamþykkisumsókn hjá sýslumanni þegar 6 mánuðir eru liðnir eftir heimkomu ættleidds barns og reglugerðin verði án slíkra hindrana eins og nú er. Ég legg líka til við yður málamiðlun í þessu efni, sem felst í því að þér kveðið á um í reglugerð að sýslumanni sé þá fyrst heimilt að gefa út forsamþykki að nýju þegar 6 mánuðir eru liðnir frá heimkomu barns.

Sé það á hinn bóginn einbeitt afstaða yðar að kveða á um það í reglugerðinni að kjörforeldrar sem þegar hafa ákveðið að óska eftir forsamþykki til að ættleiða annað barn skuli samt bíða með að leggja fram umsókn í 6 mánuði eftir heimkomu með fyrra barn, þá óska ég eftir fyrir hönd Íslenskrar ættleiðingar, að þér hlutist til um að aðstæður stjórnsýslunnar verði þegar í stað með þeim hætti að dráttur á afgreiðslu umsókna verði ekki almennur eins og nú er heldur algjör undantekning.

Ég tel einnig mikilvægt að sé það ófrávíkjanlegt af yðar hálfu að kveða á um í reglugerðinni að þá fyrst sé heimilt sé að leggja fram nýja forsamþykkisumsókn hjá sýslumanni þegar liðnir eru 6 mánuðir frá heimkomu ættleidds barns, þá sé sú ákvörðun vel ígrunduð og rökstudd og hún byggi á sterkum lagalegum forsendum. Í því samhengi bendi ég yður á að ef til vill er heppilegra að þessi ákvörðun bíði heildarendurskoðunar á reglugerðinni sem þér hafið boðað á nýju ári, en fram að þeim tíma verði ofangreindar hömlur ekki festar í reglugerð fremur en nú er.

Sent samkvæmt samþykkt á stjórnarfundi Íslenkrar ættleiðingar
þann 18. nóvember 2009.
Virðingarfyllst, 
f.h. Íslenskrar ættleiðingar

 

______________________________________
Hörður Svavarsson
formaður stjórnar.


Svæði