Umsóknir samkynhneigðra
Ættleiðingamálaflokkurinn byggir á lögum og reglum, annars vegar íslenskum lögum og hins vegar á lögum upprunalandanna. Árið 2006 var íslenskum lögum breytt og samkynhneigðum heimilað að ættleiða. Það eitt og sér opnaði aðeins á ættleiðingar innanlands þar sem ekkert af upprunalöndum heimsins heimilaði ættleiðingar til samkynhneigðra. Árið 2014 fréttist af fyrstu opinberu ættleiðingunni til samkynhneigðra hjóna. Það voru danskir hommar sem ættleiddu frá Suður-Afríku. Ættleiðingin vakti mikla athygli og var fjallað um hana í fjölmiðlum um heim allan. Íslensk ættleiðing hefur lengi reynt að ná samningum við Suður-Afrísk ættleiðingaryfirvöld en ekki haft erindi sem erfiði.
Það vakti töluverða athygli fyrir nokkru þegar hæstiréttur Brasilíu úrskurðaði að umsókn samkynhneigðra hjóna skyldi vera samþykkt af ættleiðingaryfirvöldum. Í því máli var um að ræða hjón þar sem annar mannanna var brasilískur ríkisborgari og hinn sænskur ríkisborgari.
Miðstjórnvald Kólumbíu hefur haft ættleiðingar til samkynhneigðra í skoðun um nokkurt skeið. Nú hefur miðstjórnvald Kólumbíu samþykkt að taka á móti umsóknum samkynhneigðra og er vitað um eina umsókn frá sænskum samkynhneigðum hjónum sem hafa fengið staðfestingu á að umsókn þeirra hafi verið samþykkt inn á biðlista. Barn hefur ekki enn verið parað við samkynhneigða umsækjendur og mun framtíðin leiða í ljós hvort það muni gerast eður ei, því þó að umsókn umsækjenda sé samþykkt er það ekki trygging fyrir því að það muni leiða til ættleiðingar.