Fréttir

Unnið gegn ólöglegum ættleiðingum

Eitt af leiðarljósum þeirra sem vinna að löglegum ættleiðingum barna er Haagsamningurinn um vernd barna og samvinnu um ættleiðingar milli landa frá 1993. Ísland gerist aðila að samningnum árið 2000 og er löggjöfin og reglugerðir innblásnar af samningnum. Í samningnum er lögð áhersla á réttindi barna við ættleiðingar og er upprunaríkjum barnanna skylt að tryggja að búið sé að kanna uppruna þeirra og möguleika þeirra til að alast upp innan fjölskyldu sinnar eða hvort möguleiki sé að ættleiða barnið innanlands. 

Að sameina þarfir barna sem þurfa á fjölskyldu að halda og drauma umsækjenda sem vilja bjóða barni inni fjölskyldu sína er stórkostlegt. En því miður er víða pottur brotinn í málaflokknum og hafa þjóðirnar sem eru aðilar að Haagsamningnum lagt sig fram við að vinna að bættum vinnubrögðum. 

Fyrir nokkru var settur saman vinnuhópur til að vinna gegn ólöglegum ættleiðingum. Í vinnuhópnum eru stjórnvöld í sumum þeirra ríkja sem er aðila að samningnum auk sérfræðinga sem starfa fyrir utan stjórnvöld.

Nú í síðustu viku fundaði vinnuhópurinn í síðasta sinn og verður afrakstur vinnunnar lagður fyrir allsherjarþing Haagsamningsins sem verður haldinn í júlí á næsta ári. 

Fundurinn var átti að vera í Haag, en vegna Covid-19 var hann nú haldinn í gegnum fjarfundarbúnað. Fundurinn stóð yfir í þrjá daga, frá morgni til kvölds á Íslandi, en þar sem aðilar fundarins voru um allan heim allt frá Ástralíu, Asíu, Afríku, Evrópu auk Norður- og Suður Ameríku voru fundargestir á öllum tímabeltum. 

Fimm sérfræðingar voru kallaðir til á fundinn, tveir frá International Social Services, einn fulltrúi samtaka ættleiddra, einn frá UNICEF og einn fulltrúi ættleiðingarfélaga.

Ættleiðingarfélög í heiminum eru fjölmörg og samtök ættleiðingarfélaga sem Íslensk ættleiðing á aðild að eru Nordic Adoption Council (NAC) og EurAdopt. EurAdopt eru regnhlífasamtök ættleiðingafélaga í Evrópu og NAC er sambærilegt fyrir Norðurlöndin. NAC hefur getið sér gott orðspor innan stofnunar Haagsamningsins vegna faglegra vinnubragða og að hafa dregið vagninn í umræðunni um siðareglur og mikilvægi þess að gæta hagsmuna barna í ættleiðingarferlinu. Sem fulltrúi ættleiðingarfélaga var NAC beðið um að tilnefna fulltrúa í vinnuhópinn.

Kristinn Ingvarsson framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar var fulltrúi NAC og lét sjónarmið þeirra fylgja inní umræðuna.  Helstu áherslur voru að taka gjöld til gagngerrar endurskoðunar og að fleiri ættu að taka sér íslensk yfirvöld til fyrirmyndar og standa vel að fjármögnun ættleiðingarfélaga, svo þau þurfi ekki að reiða sig á fjölda umsókna og fjölda ættleiðinga til að tryggja faglegt og gott starf. Það ætti ekki aðeins við um milligöngu um ættleiðingar heldur ætti þjónusta eftir ættleiðingu einnig að falla undir þessi sjónarmið. 

Það verður spennandi að fylgjast með framvindunni og má gera ráð fyrir að handbók til höfuðs ólöglegra ættleiðinga muni líta dagsins ljós í kjölfar alsherjarþingsins næsta sumar.

 Frásögn frá fundinum á heimasíðu Haagsamningsins

 


Svæði