Fréttir

Viðkvæm staða ÍÆ rædd meðal félagsmanna

Miðvikudaginn 29. janúar blés stjórn Íslenskrar ættleiðingar til félagsfundar í sal Framvegis, miðstöðvar símenntunar, Borgartúni 20. Tilefnið var fyrst og fremst að upplýsa félagsmenn um starfsemi og stöðu félagsins en miklar breytingar hafa orðið á undanförnum misserum. Kristín Ósk Wiium Hjartardóttir setti fundinn en Ásta Sól Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri ÍÆ fór yfir starfsemin 2024 og það sem fram undan er. Fram kom að undirritaður samningur við dómsmálaráðuneytið frá 15. janúar síðastliðnum þýðir að félagið þarf enn og aftur að skera niður og neyðist til að hækka þjónustugjöld um 15%. Þrátt fyrir viðkvæma stöðu ætlar ÍÆ að vera eins gott  félagsstarf og hægt er í þessum aðstæðum þar sem gert er ráð fyrir litlum tilkostnaði. Um verður að ræða nokkur opin hús á árinu, fyrirlestra og ýmislegt skemmtilegt fyrir fjölskyldur. Einnig mun félagið hefja á ný þátttöku í Reykjavíkurmaraþoninu og hvetja fólk til að hlaupa til góðs, félaginu til heilla. Þessir atburðir verða allir auglýstir sérstaklega. Leitað verður utanaðkomandi styrkja fyrir viðburði og stofnaður fræðslusjóður.

Félagsmönnum var að brugðið við að heyra hversu þröngum stakk félaginu hefur verið sniðinn og hugnast ekki að starfsemin verði færð annað eða lögð niður. Mikið var rætt um velferð þeirra barna sem hafa verið ættleidd og hvernig er hægt að styðja betur við fjölskyldur því að foreldrar upplifi sig oft eina í baráttunni. Fram kom að fjármagn frá ráðuneytinu gerir ekki ráð fyrir stuðningi að þessu tagi eins og staðan er í dag en umræðunni tekið fagnandi og að möguleikar verði ræddir.

Fyrrum framkvæmdastjóri, Elísabet Hrund Salvarsdóttir, upplýsti félagsmenn um stöðuna í ættleiðingarmálum á heimsvísu en fram kom að ástæður færri ættleiðinga sé vegna færri upprunaríkja, börnin séu eldri, auknar kröfur og skilgreindar þarfir fleiri. Auk þess eru víða rannsóknir í gangi í móttökuríkjunum og að víða sé rekstrargeta ættleiðingarfélaga slæm.

Fyrir utan dagleg verkefni ÍÆ sem eru mörg mun stjórn fara þess á leit að funda með dómsmálaráðherra á næstunni og jafnvel fleirum en næstu skref eru í skoðun meðal stjórnar.

 


Svæði