Fréttir

Vill barnið þitt læra um kínverska tungu- og menningu?

Fræðsla fyrir börn og foreldra um kínverska menningu og tungumál.
Íslensk ættleiðing hefur í samvinnu við Konfúsíusarstofnunina Norðurljós ákveðið að kanna áhuga barna frá Kína og foreldra þeirra á að fá fræðslu og kennslu um kínverska tungu og menningu.

Hugmyndin er að a.m.k. eitt foreldri komi með hverju barni í kennslustund þar sem þau fræðast saman um helstu grunnatriði tungumálsins, læri grundvallaratriði í einföldum setningum auk þess að fá ákveðna fræðslu um menningu landsins.

Hugmyndin hefur ekki verið endanlega útfærð en gengur út á að bjóða upp á 4-5 kennslustundir (u.þ.b. 10:00 til 12:00) á laugardögum í mars - apríl. Verðið mun taka mið af þátttöku en reynt verður að stilla því í hóf.

Kennslustaðurinn er ekki endanlega ákveðinn en ef einhver félagsmaður hefur aðgang að kennslustofu sem hentar fyrir unga nema og foreldra þeirra er það vel þegið.

Í undirbúningi Konfúsíusarstofnunarinnar og Íslenskrar ættleiðingar hefur verið horft til barna sem eru fimm ára og eldri, en ef mikill áhugi er námskeiðunum er hugsanlegt að aðlaga hugmyndina að öðrum aldurshópi líka.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni eru vinsamlegast beðnir að senda tölvupóst á netfangið okkar isadopt @ isadopt.is. Allar ábendingar um fyrirkomulagið eru einnig vel þegnar því hér er um þróunarverkefni að ræða sem vonandi mun festa sig í sessi. Ef vel tekst til með svona námskeið geta þau verið vísir að sambærilegri fræðslu á vegum félagsins um menningu og tungu annarra landa.

Er eitthvað meira spennandi núna en skella sér í smá kínversku með barninu sínu?


Svæði