Villandi fréttaflutningur
Rangt er að halda því fram að dæmi séu um að börn séu ættleidd til Íslands á tilskilinna leyfa eins og gert var í fréttatíma í sjónvarpi á mánudagskvöldið og endurtekið á veffréttamiðli daginn eftir.
Margir íslenskir fréttamenn hafa á undanförnum misserum aflað sér góðrar undirstöðuþekkingar á ættleiðingamálaflokknum og þeir vita því vel að ættleiðing er lögformlegt ferli sem lýtur ströngum skilyrðum. Á Íslandi er reglum Haagsamningsins fylgt í hvívetna og það er útilokað að ættleiða barn til Íslands erlendis frá án tilskilinna leyfa. Fréttir um ættleidd börn og málefni þeirra eru því yfirleitt vandaðar á Íslandi og þær eru ætíð þannig úr garði gerðar að ungmennum sem sjálf eru ættleidd stafar ekki ógn af þeim að ástæðulausu.
Frétt sjónvarpsstöðvarinnar á annan dag páska var til þess fallin að vekja vantraust á vönduðu íslensku ættleiðingarferli sem fylgt hefur skilyrðum Haagsáttmálans í áratug og samræmt er fyrirkomulagi á öðrum Norðurlöndum en Norræna ættleiðingarfyrirkomulagið nýtur mikillar virðingar á alþjóðlegum vettvangi.
Íslensk ættleiðing deilir því sjónarmiði með Mannréttindaskrifstofu Íslands að rétt sé að fullgilda Haagsaminginn á Íslandi og tekur undir að ýmislegt má betur fara í löggjöf, þó nú þegar sé unnið eftir skýru og vel skilgreindu ferli sem fellur vel að fyrrgreindum alþjóðasamningi og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Barnasáttmálanum) sem fullgildur hefur verið á Íslandi síðan 28. október 1992.