Vonir um Tæland dofna
Kristinn Ingvarsson hefur sent stjórn Í.Æ. minnisblað um fund sinn með Tælenskum ættleiðingaryfirvöldum og niðurstaðan er að það dregur mjög úr vonum okkar um að geta hafið fyrirhugað samstarf við barnaheimilið Pattaya Orphange.
Árum saman hefur Íslensk ættleiðing verið með löggildingu íslenskra stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar frá Tælandi. Löggildingin er meðal annars byggð að bréfi frá Tælenskum ættleiðingaryfirvöldum til Íslenskrar ættleiðingar frá því í september 1991, þar sem samstarfi við félagið um að finna fjölskyldur fyrir munaðarlaus Tælensk börn er fagnað.
Vegna þess að af einhverjum ástæðum hefur aldrei komið til þessarar samvinnu þ.e.a.s. Íslensk ættleiðing hefur ekki annast milligöngu um ættleiðingar frá Tælandi síðan viljayfirlýsingin var gefin út og í millitíðinni hafa orðið breytingar á lagaumhverfi meðal annars með tilkomu Haagsamningsins um alþjóðlegar ættleiðingar líta Tælensk stjórnvöld svo á að ekki sé samningur milli miðstjórnavalda á Íslandi og Tælandi. Og þar stendur hnífurinn í kúnni.
Eins og kunnugt er byggir það form á alþjóðlegum ættleiðingum sem heimilt er á Íslandi á milligöngu ættleiðingarfélags. Til að ættleiðingarfélag, í þessu tilfelli Íslensk ættleiðing, öðlist heimild til milligöngu um ættleiðinga frá tilteknu landi þurfa miðstjórnvöld í löndunum að hafa samning sín á milli og að því búnu öðlast ættleiðingarfélagið löggildingu til starfseminnar. Samkvæmt upplýsingum sem framkvæmdastjóri Í.Æ. fékk á fundi með fulltrúa Tælenskra ættleiðingaryfirvalda er það skilningur fulltrúans að ofangreindar forsendur sé ekki til staðar í dag.
Það blasir því við að óska eftir því við Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið íslenska og það taki upp þráðinn gagnvart Tælenskum yfirvöldum, vís til viljayfirlýsingarinnar frá 1991, skilnings Íslendinga á stöðunni æ síðan og kanni hvort grundvöllur sé fyrir því að ríkin geri samning sín á milli um ættleiðingar frá Tælandi til Íslands. Stjórn Í.Æ. hefur nú þegar sent ósk til ráðuneytisins þessa efnis.