Fréttir

Aðalfundur 17.mars 2022

Fundargerð aðalfundar Íslenskrar ættleiðingar, mánudaginn 17.mars 2022, kl. 20.00.  

Fundarstaður: Framvegis, miðstöð símenntunar, Borgartúni 20, 3.hæð, 105 Reykjavík. 
Mætt af hálfu stjórnar:  Lísa Björg Lárusdóttir sitjandi formaður, Berglind Glóð Garðarsdóttir, Brynja Dan Gunnarsdóttir, Tinna Þórarinsdóttir. Fjarverandi voru: Dylan Herrera og Sigurður Halldór Jesson. 
Mætt af hálfu starfsfólks skrifstofu: Elísabet Hrund Salvarsdóttir, framkvæmdarstjóri, Ragnheiður Davíðsdóttir, verkefnastjóri og Rut Sigurðardóttir, félagsráðgjafi. 
Fundargerð aðalfundar ritaði: Ragnheiður Davíðsdóttir  

Dagskrá aðalfundar:  

  1. Fundarstjóri og fundarritari kjörnir.
  2. Skýrsla stjórnar um hag félagsins og rekstur þess á liðnu starfsári. 
  3. Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár ásamt athugasemdum endurskoðanda félagsins lagður fram til samþykktar. 
  4. Kjör stjórnar.
  5. Ákvörðun árgjalds. 
  6. Breytingar á samþykktum félagsins.
  7. Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin. 

 1. Fundarstjóri og fundarritari kjörnir 

Elísabet Hrund Salvarsdóttir framkvæmdarstjóri Íslenskrar ættleiðingar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Elísabet tilnefndi Eygló Jónsdóttur fundarstjóra og Ragnheiði Davíðsdóttur fundarritara og var það samþykkt af fundarmönnum.  

Fundarstjóri bauð fundarmenn velkomna og kallaði eftir mótmælum um boðun fundarins.  

Engin andmæli bárust og telst fundurinn því löglega boðaður án athugasemda.  

Fundarstjóri fór yfir dagskrá fundarins og bauð stjórnarformanni að kynna skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins. 

2. Skýrsla stjórnar um hag félagsins og rekstur þess á liðnu starfsári.  

Elísabet Hrund Salvarsdóttir, framkvæmdastjóri kynnti og fór yfir skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2021.  

Kristinn Ingvarsson hætti sem framkvæmdarstjóri um áramótin og er honum þakkað fyrir vel unnin störf.  
Reykjavíkurmaraþon var ekki haldið árið 2021 sem hafði áhrif á styrki það árið. Breytingar voru á skrifstofu, t.d. var stofnuð facebooksíða (like-síða) og instagramsíða.  

4 börn ættleidd til Íslands árið 2021. Færri börn ættleidd í heiminum og kemur það til meðal annars vegna breytinga sem verða í upprunalöndunum, t.d. í Kína mega fjölskyldur eignast fleiri börn, barnaverndarkerfi að breytast í löndunum, sum lönd að loka því ekki er talið nægilega tryggt að börnin þaðan séu löglega ættleidd.   

KPMG gerði úttekt á félaginu í lok 2021.  

Ekki var óskað eftir áframhaldandi löggildingu í Búlgaríu en ekki hefur verið áhugi að senda umsóknir þangað. Verið að vinna að löggildingu í Indlandi. Erum með löggildingu í Kína, Kólumbíu, Tékklandi og Tógó. Verið að huga að því að klára löggildingu í Kólumbíu og til Dóminíska lýðveldis.  

Spurningar úr sal.  

Spurt um tölfræði, hvort hún sé til?  
Tölfræðin er til hjá okkur. Við vorum einnig að fá PowerBI sem heldur betur utan um alla tölfræði. 

Varðandi reglugerðabreytingar, hvaða atriði er það aðallega? 
Til dæmis varðandi þjónustu við uppkomna ættleidda, stendur ekki í reglugerð. 
Til að uppfylla Haag samninginn þyrfti þetta að vera í reglugerðinni. 
Farsældarlögin, ættleiddu börnin ættu að falla inn í ramma þar.  

Engar fleiri spurningar og fundarstjóri þakkar fyrir yfirferð á skýrslu. 

3. Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár ásamt athugasemdum endurskoðanda félagsins lagður fram til samþykktar. 

Stjórnarformaður fór yfir reikninga og rekstur síðasta árs.  

Fundarstjóri ber ársreikning 2021 til samþykktar. 

Spurning úr sal: 

Hvað eru helstu liðir undir eignir? Undir eignir fellur t.d. sjóður sem var stofnaður fyrir „Húsið í skóginum“. Höfum þurft að nota sjóðinn og því fara eignir lækkandi. 

2020 þurfti að breyta gjaldskránni þar sem ríkisstyrkurinn myndi ekki hækka.  

Ársreikningur verður birtur á heimasíðu félagsins.   

Engar fleiri spurningar og ársreikningur samþykktur samhljóða fyrir starfsárið 2021. 

4. Kjör stjórnar 

Stjórn Íslenskrar ættleiðingar skal skipuð 7 mönnum: Formanni, varaformanni og fimm meðstjórnendum. Kosning stjórnarmanna ræðst af atkvæðamagni. Falli atkvæði jafnt við kjör skal endurtaka kosningu milli viðkomandi frambjóðenda og falli atkvæði enn jafnt ræður hlutkesti. Sé aðeins einn frambjóðandi í kjöri skoðast hann sem sjálfkjörinn án leynilegrar kosningar. Kosning stjórnar fer fram á aðalfundi ár hvert eða aukaaðalfundi. Hluta stjórnarmanna skal kjósa árlega til tveggja ára í senn, þrjá annað árið og fjóra á því næsta.   

Fjögur stjórnarsæti eru laus til kosningar og bárust 4 framboð. 

Dylan Herrera og Sigurður Halldór Jesson láta af störfum.  
Er þeim þakkað fyrir gott samstarf síðustu ár. 

Berglind Glóð Garðarsdóttir gefur áfram kost á sér til stjórnarsetu.  

Gylfi Már Ágústsson, Svandís Sigurðardóttir og Örn Haraldsson bjóða sig fram í fyrsta sinn.  

Þau teljast sjálfkjörin og eru stjórnameðlimir næstu tveggja ára.  
Nýjir stjórnarmenn boðnir velkomnir með lófataki.

4. Ákvörðun um árgjald: 

Elísabet Hrund Salvarsdóttir leggur til að árgjald félagsins haldist óbreytt og verði áfram 3.500 kr.  
Fundarstjóri spyr hvort einhver mótmæli eða komi með aðrar tillögur.  
Svo er ekki og árgjald telst því samþykkt. 

Spurning úr sal: Hvað eru margir félagsmenn?  Árið 2021 voru 356 félagsmenn. 

6. Breytingar á samþykktum félagsins 

Breytingar á samþykktum félagsins þarf að skila inn fyrir 31.janúar 2022.  

Ein breytingartillaga barst á samþykktum félagsins, nær tillagan til 6.greinar um Stjórn:  

Í dag er 6.grein:

Stjórn 
Stjórn félagsins skal skipuð 7 mönnum: Formanni, varaformanni og fimm meðstjórnendum. Kosning stjórnarmanna ræðst af atkvæðamagni. Falli atkvæði jafnt við kjör skal endurtaka kosningu milli viðkomandi frambjóðenda og falli atkvæði enn jafnt ræður hlutkesti. Sé aðeins einn frambjóðandi í kjöri skoðast hann sem sjálfkjörinn án leynilegrar kosningar. Kosning stjórnar fer fram á aðalfundi ár hvert eða aukaaðalfundi. Hluta stjórnarmanna skal kjósa árlega til tveggja ára í senn, þrjá annað árið og fjóra á því næsta.  
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. 
Í stjórninni skulu eiga sæti læknir og lögfræðingur, en verði því ekki við komið skal stjórn félagsins, í samráði við innanríkisráðuneytið, ráða trúnaðarlækni og/eða lögfræðing til ráðgjafar. Stjórnarmenn skulu hafa þekkingu á þeim málum er varða ættleiðingar á erlendum börnum. Stjórnin ræður löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag. 
Formaður boðar og stýrir stjórnarfundi. 
Stjórnarfundur telst lögmætur ef hann sækir meirihluti stjórnar. 
Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli félagsfunda. 
Stjórnarmenn félagsins, starfsmenn og aðrir sem kunna að vinna í þágu félagsins, eru bundnir þagnarskyldu um hvaðeina er þeir fá vitneskju um varðandi einkahagi manna við störf sín fyrir félagið. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum. 
Stjórnarmeðlimir, starfsmenn og aðrir sem kunna að vinna í þágu félagsins mega ekki taka þátt í afgreiðslu ættleiðingarmáls ef þeir eða menn þeim nákomnir eru aðilar málsins.   

Í tillögunni er lagt til að bætt verði við 6.greinina neðangreindu: 

Komi upp aðstæður eða tilvik er varðar stjórnarmann þess eðlis að áframhaldandi stjórnaseta hans samrýmist ekki hagsmunum eða rekstri félagsins getur stjórn tekið ákvörðun um að víkja honum úr stjórn. Slík ákvörðun skal tekin með atkvæðagreiðslu á stjórnafundi. Ef stjórnarmanni er vikið úr stjórn í kjölfar atkvæðagreiðslu getur hann skotið þeirri ákvörðun til aðalfundar. Getur þá stjórn boðað til aukafundar félagsmanna sbr. 7. gr. samþykktar ÍÆ.  
Stjórnarmaður telst vera í leyfi frá stjórnasetu þar til ákvörðun liggur fyrir á aðalfundi eða aukafundi, eftir atvikum. 
Stjórnarmaður sem brottvísun beinist að skal veitt færi á að tjá sig um málið áður en stjórn tekur ákvörðun. Að öðru leyti skal hann víkja við málsmeðferð og er ekki heimilt að taka þátt í atkvæðagreiðslu stjórnar.  

Ábending úr sal: Þyrfti ekki að skoða tímarammann, að það sé ákveðinn tími, t.d. 30 dagar, ef langt er í næsta aðalfund? Góð ábending og þyrfti að skoða hvort ætti að bæta því við.  

Tillagan er samþykkt. 

7. Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin. 

Fundargestur vildi koma á framfæri þökkum til Kristins Ingvarssonar fyrir flott starf í gegnum árin. 

Elísabet Hrund fékk þakkir fyrir frábær störf sem formaður Íslenskrar ættleiðingar og voru henni færðar gjafir frá stjórn og starfsfólki ÍÆ.  

Engin önnur mál tekin fyrir.  

Fundarstjóri þakkar fyrir góðan fund. 
Fundi slitið kl. 21:00 

 

Svæði