Aðalfundur ÍÆ 16.03.2006
haldinn Fosshótel Lind.
•Kosning fundarstjóra og –ritara
Ingibjörg setti fundinn, bauð fundarmenn velkomna og lýsti yfir ánægju sinni með góða mætingu á fundinn. Síðan stakk hún uppá Hrafnhildi Arnkelsdóttir sem fundarstjóra og Helgu Gísladóttur sem fundaritara. Ekki voru athugasemdir við það. Tóku þær því báðar til starfa og Hrafnhildur kynnti dagskrá fundarins.
1. Venjuleg aðalfundastörf:
•Skýrsla formanns
Ingibjörg Jónsdóttir las skýrslu formanns. Hún rakti starfsemi félagsins síðast liðið ár. Í allt komu 35 börn til landsins árið 2005, 32 frá Kína, 2 frá Indlandi og eitt frá Kólumbíu.
Biðtími til Kína hefur verið að lengjast og má rekja það til aukinnar aðsóknar því fjöldi umsókna frá 15 samstarfslöndum kínversku ættleiðingamiðstöðvarinnar hefur aukist mjög mikið. Von er á sendinefnd frá kínversku ættleiðingamiðstöðinni þann 19 apríl n.k. Þeir óska m.a. eftir að hitta börn sem ættleidd hafa verið frá Kína og fjölskyldur þeirra, auk þess að ræða við fulltrúa ísl. stjórnvalda og stjórn ÍÆ.
Biðtími er enn mjög langur þegar ættleitt er frá Indlandi. Bið eftir börnum þaðan hefur tekið upp í þrjú ár og ekki er í sjónmáli nein breyting þar á. Nú á vormánuðum er ÍÆ að endurnýja starfsleyfi sitt á Indlandi og barnaheimilið okkar í Kolkata er nýbúið að endurnýja sitt leyfi til þriggja ára. Lisa Yoder fyrrverandi formaður ÍÆ og Guðrún Sveinsdóttir heimsóttu barnaheimilið í Kolkata í mars 2005.
Biðtími í Kólumbíu er rúm tvö ár hjá þeim sem sækja um eitt barn en lengri bið er ef sótt er um systkin.
Litlar sem engar fréttir eru af ættleiðingamálum í Tékklandi, eitt ættleiðingarmál er þar í gangi og allt gengur samkvæmt áætlun. Lítill áhugi á ættleiðingum frá Tékklandi hefur komið á óvart.
Árið 2005 varð gífurleg aukning á biðlista ÍÆ, sem hefur þýtt aukið álag á skrifstofu og starfsmenn félagsins, aukna aðsókn í námskeið á vegum ÍÆ og aukin umsvif almennt. Það hefur verið stefna ÍÆ alveg frá byrjun að þjónusta við þá sem eru í ættleiðingarferlinu hefur algjöran forgang fram yfir önnur verkefni sem þarf að sinna svo og þjónusta við þá aðila sem við erum í sambandi við.
Ingibjörg sagði að með tilkomu þessarar aukningar sé ljóst að það þurfi að leita að stærra og hentugra húsnæði, samhliða því að auka við þann mannafla sem nú þegar er í vinnu hjá ÍÆ. Er það eitt brýnasta verkefni nýrrar stjórnar.
Með útgáfu nýrrar reglugerðar um ættleiðingamál í febrúar á síðasta ári varð sú breyting á að nú er umsækjendum skylt að sækja námskeið áður en forsamþykki ráðuneytisins er gefið út. Ráðuneytið fór þess á leit við ÍÆ að taka að sér þetta verkefni og hefur mikil vinna verið lögð í það með endurskipulagningu námskeiða fyrir verðandi foreldra.
Á árinu hafa verið gefnir út fjórir bæklingar, tveir eru notaðir á námskeiðum fyrir verðandi foreldra, bæklingur fyrir leikskóla og bæklingur um ættleiðingar einhleypra. Ingibjörg sagði að mikill áhugi væri fyrir að láta þýða fleiri bæklinga, t.d. um máltöku ættleiddra barna, um upphaf skólagöngu þeirra og um blandaðar fjölskyldur þar sem eru bæði kynbörn og kjörbörn. Það er mikið til af góðu efni á erlendum tungumálum en mjög dýrt er að láta þýða þetta efni.
Ingibjörg rakti síðan félagsstarfsemi félagsins sem hefur verið með miklum blóma. Hápunktur skemmtanahaldsins var án efa Þjóðahátíðin sem haldin var 23. október. Forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorrit Mussajef voru heiðursgestir hátíðarinnar. Hátíðina sóttu á fimmta hundruð manns. Þessi hátíð tókst framar björtustu vonum og notaði Ingibjörg tækifærið og þakkaði öllum þeim sem komu að skipulagningu hennar.
Ingibjörg fór síðan yfir aðra atburði ársins s.s. blaðaumfjöllun í tengslum við heimsókn forseta Indlands, heimsókn Sturlu Sigurjónssonar sendiherra sendiráðsins í Dehli og heimsókn indverska sendiherrans sem aðsetur hefur í Osló.
Í máli Ingibjargar kom einnig fram að töluvert er haft samband við skrifstofu varðandi rannsóknir sem fyrirhugað er að gera á högum ætlleiddra. Hlutverk skrifstofu varðandi slík verkefni er að finna nöfn og heimilisföng markhópsins og að senda út spurningalista til viðkomandi því skv. lögum um persónuvernd má ekki afhenda upplýsingar um kjörfjölskyldur né fólk sem hefur verið ættleitt.
Þá talaði Ingibjörg un námsstefnu sem BUGL hélt um tengslaröskun í október 2005 og komu til hennar Dr. Federice taugasálfræðingur og Dr. Ziegler klínískur sálfræðingur. Skrifstofa ÍÆ fékk það verkefni að láta kjörforeldra vita um námsstefnuna og var hún vel sótt bæði af fagaðilum, kjörforeldrum og öðrum áhugasömum.
Fulltrúar stjórnar ÍÆ fóru á ráðstefnu í Danmörku í september. Þar var meginþemað “þjónusta við kjörfjölskyldur og ættleiddra eftir ættleiðinguna”. Ingibjörg sagði þetta verkefni einmitt vera eitt brýnasta verkefni nýrrar stjórnar.
Ingibjörg sagði síðan frá samstarfi við NAC og Euradopt. Hún talaði um mikilvægi þess fyrir lítið félag eins og ÍÆ að vera í góðu samstarfi við önnur ættleiðingarfélög.
Ingibjörg fjallaði síðan í stuttu máli um starfsemi nefnda á vegum ÍÆ og þakkaði öllum sem þar starfa fyrir frábært starf.
Að síðustu fjallaði hún um styrkjamálið. Hún rakti í stuttu máli hvað stjórn ÍÆ hefur gert í gegn um árin til aðkoma þessu brýna hagsmunamáli í gegn á Alþingi. Stjórn ÍÆ hefur frá árinu 2002 barist fyrir því að styrkir til kjörforeldra verði teknir upp með svipuðum hætti og á hinum norðurlöndunum. Hún sagði þetta búna að vera langa og stranga baráttu og að hún hefði ekki yfirsýn yfir öll þau erindi sem hafa verið send og þann þrýsting sem stjórnin og ýmsir einstaklingar hafa beitt gagnvart stjórnvöldum. Hún sagði síðan í grófum dráttum frá fundum með ráðherrum og öðrum ráðamönnum sem að þessu máli hafa komið. Eru þetta t.d. ráðherrar þriggja ráðuneyta; heilbrigðis-, félagsmála- og forsætisráðherrar, bréf til þingmanna og nefndarmanna heilbrigðis- og trygginganefndar og félagsmálanefndar svo eitthvað sé nefnt. Einstakir kjörforeldrar hafa einnig lagt sitt af mörkum til að leggja áherslu á þetta mikilvæga mál. Ýmsir hafa skrifað greinar, verið í sambandi við ýmsa ráðherra og þingmenn. Ýmsir vel tengdir einstaklingar innan ÍÆ sem ekki vilja láta nafn síns getið hafa rætt við ráðherra og einstaka þingmenn til að ýta á þetta réttlætismál. Undanfarna mánuði hefur síðan sjálfsprottinn hópur kjörforeldra beitt sér í málinu. Það er því ljóst að margir hafa lagt hönd á plóginn í styrkjamálinu í langan tíma. Nú hafa orðið straumhvörf á málinu. Styrkjamálið hefur loksins fengið skilning ráðamanna og á að koma á ættleiðingjastyrkjum fyrir fyrir fjárlagaárið 2007. Ingibjörg lagði áherslu á að útfærslan skipti miklu máli og mikilvægt að vanda hana. Hún þakkaði síðan öllum þeim fjölmörgu félagsmönnum ÍÆ og velunnurum allan þann stuðning sem þetta mál hefur fengið.
Að síðustu þakkaði hún fundarmönnum gott hljóð og óskaði þeim góðra stunda.
Hrafnhildur þakkaði Ingibjörgu og opnaði mælendaskrá ef einhver vildi spyrja út í skýrsluna. Engir báðu um orðið.
•Skýrsla ritnefndar
Alda sagði að það þyrfti ekki að hafa mörg orð um störf ritnefndar, þau lægju fyrir í þeim blöðum sem gefin hafa verið út. Nýtt blað er á leiðinni og óskaði hún eftir myndum og efni. Ritnefndarmenn voru beðnir um að standa upp og kynna sig. Óskað eftir fólki til starfa í ritnefnd. Ólöf Ýr Atladóttir gaf sig fram.
Hrafnhildur þakkaði ritnefnd góð störf.
•Skemmtinefnd
Klara Geirsdóttir kom í pontu og kynnti störf nefndarinnar. Í máli hennar kom fram að starfsemi hennar hefur verið mikil og blómleg. Foreldramorgnar eða foreldrahittingar voru u.þ.b. einu sinni í mánuði. Í desember voru málaðar piparkökur. Hreyfiland bauð fram aðstöðu sína eina sinni í mánuði. Grillað í Heiðmörk. Útilegan var í Logalandi í Borgarfirði. Jólaböll í Reykjavík og Akureyri. Fjölskyldu og þjóðahátíð.
Klara auglýsti eftir fólki í skemmtinefnd og einnig eftir fólki sem vill vinna að ýmsum tímabundnum verkefnum. Rósa Jóhannsdóttir gaf sig fram.
Hrafnhildur þakkaði skemmtinefnd góð störf.
•Fjáröflunarnefnd
Fimm fjáröflunarnefndarkonur kynntu störf nefndarinnar. Nefndin hefur gert ýmislegt til fjáröflunar. Það hafa verið seldir bolir og einnig hefur nefndin fengið fjárstuðning frá fyrirtækjum. Þær kynntu hvað hafði verið gert og framtíðarsýn þeirra. Þær ætla að leggja áherslu á að sækja í styrktarsjóði hjá fyrirtækjum. Einnig er hugmynd að gefa út “velkomin heim” kort og selja “vöru með notagildi”. Sendir hafa verið út styrkir til Indlands og Kína.
Hrafnhildur þakkaði fjáröflunarnefnd góð störf.
•Fræðslufulltrúi
Ingibjörg Birgisdóttir fræðslufulltrúi sagði frá fræðslustarfi síðasta árs. Mikil breyting varð á fyrirkomulagi fræðslunnar á síðasta ári. Fengin var aðstoð Lene Kam sem skipuleggur fræðsluna í Danmörku til að búa til ný námskeið hér á landi. Haldin hafa verið tvö námskeið og fyrri hluti þess þriðja og hafa þau reynst vel.
Ingibjörg sagði að framundan væri vinna við námskeið fyrir foreldra sem eru komin heim með börn sín. Einnig hafa fræðslufulltrúar átt fund með tveimur sálfræðingum sem hafa fengið styrk til þess að búa til námskeið sem fjallar um tengslamyndun og verður nánari samvinna við þær um námskeiðið. Ingibjörg sagði að þær væru einnig að vinna að því að búa til net sérfræðinga sem kjörforeldrar geta leitað til með sín mál.
Hrafnhildur þakkaði Ingibjörgu fyrir og opnaði fyrir spurningar til Ingibjargar. Fyrirspurn kom um hvort einhver fræðsla væri til foreldra sem hafa ættleitt og eru að fara að ættleiða aftur. Ingibjörg sagði að það mál væri vissulega þarft og væri í athugun.
•Ársreikningur félagsins
Ingvar kynnti ársreikninga félagsins. Reikningar hafa verið samþykktir af Prize Waterhouse
Cooper og stjórnarmönnum Íslenskrar ættleiðingar. Eftir kynningu á reikningunum svaraði hann spurningum varðandi þá.
Spurt var um fjölda félagsmanna. Ingvar sagði að félagar væru um 270. Spurning kom um hvort að félagsgjöld væru að skila sér betur eftir að gjaldið var jafnað og haft ein upphæð fyrir alla. Það er ekki að sjá að það hafi haft áhrif. Spurt var út í launagjöld og svaraði Ingvar því. Spurt var hverjir væru á launum hjá ÍÆ. Ingvar svaraði því að það væru þeir tveir starfsmenn sem eru á skrifstofunni. Formaður þiggur ekki laun.
Hrafnhildur þakkaði Ingvari fyrir og bar reikningana upp til samþykktar. Voru þeir samþykktir einróma.
•Kjör stjórnar
Tillaga kom frá fundarmanni að heimila það að taka gild umboð sem fundarmenn væru með frá fjarstöddum félagsmönnum til þess að kjósa. Umræður urðu um málið og kom meðal annars fram að það væri ekki jafnræði í því að heimila það núna þar sem það hefði ekki verið auglýst fyrirfram og ef það hefði verið vitað hefðu fleiri komið með umboð fjarstaddra félagsmanna. Síðan var kosið um það hvort fundurinn leyfði það að þau umboð sem lágu fyrir væru tekin gild. Úrslit voru þau að 15 manns voru sammála því að tekið væri tillit til skriflegu umboðanna. Mikill meirihluti var á móti því.
Níu manns eru í framboði til kosninga í þau fjögur sæti sem laus eru. Frambjóðendur eru Elín Hinriksen, Friðjón Guðjohnsen, Guðmundur Guðmundsson, Ingibjörg Birgisdóttir, Jens Karlsson, Karl Steinar Valsson, Kristjana Erlen Jóhannsdóttir, Margrét Rósa og Pálmi Finnbogason Frambjóðendur fengu fjórar mínútur hver til að kynna sig. Eftir kynningar var gengið til kosninga. Að þeim loknum tóku talningarmenn til við talningu. Talningarmenn voru Fanney Reynisdóttir, Óskar Þorbergsson ogGunnar Sigurðsson.
Á meðan á kosningu og talningu stóð fengu fundarmenn sér kaffi.
•Breyting á dagskrá
Hrafnhildur kom með breytingatillögu við auglýsta dagskrá. Lagði hún til að fyrirlesturinn “Mikilvægi þess að hafa rætur” yrði fluttur til og yrði næstur á dagskrá. Var það samþykkt.
2. “Mikilvægi þess að hafa rætur”
Fyrirlesturinn héldu þær Brynja Muditha Dan Gunnarsdóttir og Sólveig Kanthi Engilbertsdóttir. Þær eru ættleiddar frá Sri Lanka 1985. Þær ræddu um hvernig kjörforeldrar geta hjálpað börnum sínum að eignast sínar rætur. Um rétt til þess að vita uppruna sinn og mikilvægi þess að setja fram staðreyndir. Einnig fjallaði fyrirlesturinn um hvað skiptir máli að vita, að fá og að sjá.
Að fyrirlestri loknum svöruðu þær spurningum fundarmanna. Óhætt er að segja að fundarmenn kunnu vel að meta framlag þessara ungu kvenna til fundarins og lýstu margir yfir ánægju sinni og var mikið klappað fyrir þeim.
Ingibjörg þakkaði þeim fyrir fyrirlesturinn og færði þeim blóm í þakklætisskyni.
•Ákvörðun árgjalda
Ingvar kom í pontu og kynnti þá tillögu stjórnar að árgjald verði 4000 krónur. Opnað fyrir mælendaskrá, enginn gaf sig fram. Fundurinn samþykkti að árgjaldið verði 4000 krónur. Ingvar sagði frá því að óskað hefði verið eftir því að hægt sé að setja árgjaldið í greiðsluþjónustu. Fáir hafa svarað þessu. Hægt er að samþykkja þetta á sérstökum blöðum sem liggja frammi á fundinum. Ingvar hvatti fólk til að gefa þetta samþykki.
•Tillaga til lagabreytinga
Ingibjörg formaður hafði framsögu að tillögum til lagabreytinga. Hrafnhildur las síðan tillögurnar upp aftur og óskaði eftir umræðu um þær eða breytingatillögum. Eftirfarandi breytingar lágu fyrir fundinum. Breytingar eru feitletraðar.
6. grein
Stjórn
Stjórn félagsins skal skipuð 7 mönnum: formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og þremur meðstjórnendum. Kosning stjórnar fer fram á aðalfundi ár hvert. Hluta stjórnarmanna skal kjósa árlega til tveggja ára í senn, þrjá aðra árið og fjóra á því næsta. Hætti stjórnarmaður á kjörtímabili er félagsfundi heimilt að kjósa annan í hans stað.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.
Í stjórninni skulu eiga sæti læknir og lögfræðingur, en verði því ekki við komið skal stjórn félagsins, í samráði við dómsmálaráðuneytið, ráða trúnaðarlækni og/eða lögfræðing til ráðgjafar. Stjórnarmenn skulu hafa þekkingu á þeim málum er varða ættleiðingar á erlendum börnum. Stjórnin ræður löggiltan endurskoðenda eða endurskoðunarfélag.
Stjórnarfundur telst löglegur ef hann sækir meirihluti stjórnar. (Var áður stjórnarfundur telst lögmætur ef hann sækja fimm stjórnarmenn hið minnsta).
Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli félagsfunda.
Stjórnarmenn félagsins, starfsmenn og aðrir sem kunna að vinna í þágu félagsins, eru bundnir þagnarskyldu um hvaðeina er þeir fá vitneskju um varðandi einkahagi manna við störf sín fyrir félagið. Þagnarskylda helst þó látið sé af störfum.
Stjórnarmeðlimir, starfsmenn og aðrir sem kunna að vinna í þágu félagsins mega ekki taka þátt í afgreiðslu ættleiðingamáls ef þeir eða mennþeim nákomnir eru aðilar málsins.
7. grein
Aðalfundur
Aðalfundur skal haldinn í marsmánuði ár hvert. Skal hann boðaður bréflega með minnst þriggja vikna fyrirvara.
Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
•Skýrsla stjórnar um hag félagsins og rekstur þess á liðnu starfsári
•Ársreikningar félagsins fyrir liðið starfsár ásamt athugasemdum endurskoðanda félagsins skal lagður fram til samþykktar.
•Kjör stjórnar
•Ákvörðun árgjalds
•Breytingar á lögum
•Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin.
Breytingar í stjórn félagsins skal tilkynna dómsmálaráðuneytinu áður en 14 dagar eru liðnir.
Tillögur til breytinga á lögum félagsins skulu berast stjórn félagsins skriflega í síðasta lagi 31. janúar ár hvert og skulu þær tilgreindar í fundarboði.Framboð til stjórnarkjörs skulu berast skriflega til skrifstofu félagsins í síðast lagi viku fyrir aðalfund.
Aukafundi skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða að kröfu endurskoðenda eða 2/3 félagsmanna. Skulu þeir boðaðir bréflega með minnst tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal koma fram tilefni fundarins.
Hrafnhildur las upp hverja breytingartillögu fyrir sig og opnaði mælendaskrá eftir hverja breytingartillögu.
Báðar breytingartillögur við 6. grein voru samþykktar samhljóða.
Umræður urðu um breytingartillögu við 7. grein. Ábending kom um það að vika væri of stuttur fyrirvari fyrir fólk utan af landi.
Komið var með breytingartillögu og hljómaði hún svona:
Framboð til stjórnarkjörs skulu berast skriflega til skrifstofu félagsins í síðasta lagi tveimur vikum fyrir aðalfund.
Eftir umræður var gengið til kosninga um tillögurnar. Byrjað var á breytingartillögunni og var hún samþykkt.
Í kjölfarið hófust umræður um það að breyta 10 grein laganna á þann hátt að leyfa annað form á kosningum til stjórnar í félaginu. Kom m.a. fram að vanda þyrfti vel til breytinga af þessu tagi.
Tillaga: Fundurinn samþykkir að fela stjórn að koma með tillögu að því að stjórn taki 10. grein til endurskoðunar með það í huga að breyta formi kosninga til stjórnar félagsins.
Hrafnhildur bar tillöguna upp og var hún samþykkt.
Niðurstöður stjórnarkjörs
Gunnar Sigurðsson afhenti Hrafnhildi niðurstöður talninganefndar. Auðir seðlar voru tveir og 95 manns kusu. Hrafnhildur las upp nöfn þeirra sem hlutu kosningu í stjórn. Voru þeir eftirfarandi:
Ingibjörg Birgisdóttir
Karl Steinar Valsson
Kristjana Erlen Jóhannsdóttir
Pálmi Finnbogason
3. Önnur mál:
-Gerður Guðmundsdóttir kvaddi sér hljóðs. Gerður ætlar að halda áfram að starfa fyrir félagið þó svo að hún gangi úr stjórn. Hún hefur áhuga á að beina kröftum sínum að fræðslu fyrir foreldra eftir að þeir koma heim. Kristín Þórunn Tómasdóttir ætlar að starfa að því með henni. Hún óskaði eftir fleirum til að taka þátt í þessari vinnu með þeim. Hún þakkaði félögum fyrir samstarfið.
-Ingibjörg Jónsdóttir bað um orðið. Hún kvaddi fráfarandi stjórnarmenn með gjöfum og þakkaði þeim störf í þágu félagsins. Hún þakkaði fundarmönnum fyrir góðan fund.
Hrafnhildur þakkaði fundarmönnum fundarsetuna og sleit fundi um klukkan 23:45.
Helga Gísladóttir,
fundaritari.