Fréttir

Aðalfundur ÍÆ 26.03.2009

Aðalfundur Íslenskrar ættleiðingar haldinn þann 26. mars 2009 kl. 20:00 í veislusalnum Skarfinum.
Ingibjörg Jónsdóttir formaður ÍÆ setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hún tilnefndi Pálma Finnbogason sem fundarstjóra og var það samþykkt af fundarmönnum með lófataki. Fundarstjóri tók  þegar til starfa og kynnti dagskrá fundarins. 
Pálmi lagði til breytingu frá hefðbundinni dagskrá aðalfundar sem var á þá leið að skýrsla stjórnar yrði flutt og ársreikningar félagsins kynntir og svo umræður um hvoru tveggja á eftir. Engin fundarmanna mótmælti.
1.     Venjuleg aðalfundarstörf:
Skýrsla stjórnar: 
Ingibjörg Jónsdóttir formaður ÍÆ flutti skýrslu stjórnar. Í skýrslunni kom fram að ÍÆ hefur ekki farið varhluta af þeim þjóðfélagsþrengingum sem dunið hafa á þjóðinni og að hér eftir sem hingað til þurfi félagið að sníða sér stakk eftir vexti. Þar sem skrifstofurekstur ÍÆ hefur ætíð einkennst af miklu aðhaldi er erfitt að skera niður.
Þá kom fram að á árinu 2008 komu 13 börn til nýrra foreldra sinna með milligöngu ÍÆ, öll frá Kína.  Það sem af er árinu 2009 hafa 4 börn komið heim, með milligöngu félagsins, 3 frá Indlandi og 1 frá Kína.  Væntanleg eru 2 börn frá Kína og upplýsingar um 1 barn frá Indlandi eru á leiðinni til landsins. Árið 2007 komu 21 barn heim og árið 2006 komu 8. Nýjar umsóknir árið 2008 voru aðeins 25. Þróunin 2004 og 2005 var á einn veg, aukning í umsóknafjölda, fjölgun á ættleiðingum og fækkun á ættleiðanlegum börnum. Árið 2007 og aftur 2008 fækkaði mikið börnum sem ættleidd voru til Evrópulanda og til USA. Árið 2005 varð sprenging í umsóknum á biðlista ÍÆ, en síðan þá hefur hægt á á umsóknafjölda.  Nú eru 120 með umsóknir í gangi, 77 í Kína, 20 í Kolombíu, 3 í Tékklandi og 12 á Indlandsbiðlistanum, nokkrir eru óákveðnir. Biðtími eftir barni hefur verið lengjast allsstaðar í þeim löndum sem ættleiða börn úr landi.  
Ingibjörg vitnaði í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er búið að lögfesta en þar segir:  ”barn sem ekki nýtur fjölskyldu sinnar á rétt á sérstakri vernd og aðstoð og að ríki skuli sjá barni í slíkri stöðu fyrir annarri umönnun t.d fóstri eða ættleiðingu.  Þegar um ættleiðingu er að ræða skuli fyrst og fremst litið til þess sem barni er fyrir bestu.  Ríkjum ber að viðurkenna að ættleiðing milli landa geti aðeins komið til álita að ekki sé unnt að koma barni í fóstur eða til ættleiðingar, eða veita því einhverja umönnun með viðunandi hætti í upprunalandinu.” Þetta þýðir með öðrum orðum, að alþjóðleg ættleiðing er síðasti kosturinn, eða kannski næst síðasti kosturinn sem upprunalönd barnanna líta til. Það er erfitt að sjá eitthvað vit í þessu en þessir alþjóðlegu samningar eru gerðir til að vernda börnin en geta stundum einnig verið skýringin á því hversu erfitt og flókið það er að koma einu ættleiðingamáli í gegn.  Samt sem áður er mikilvægt að vinna eftir þeim sáttmálum sem undirritaðir hafa verið.  Þar má nefna Haag sáttmálann um vernd barna og ungmenna og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Þeir vernda börnin í þessu ferli.
Ingibjörg sagði að nýjar reglur í Kína, sem tóku gildi árið 2007 hafi breytt miklu en samkvæmt þeim er nær útilokað að senda út umsóknir fyrir einhleypa. Þá hafa reglur um hámarksaldur umsækjanda, 50 ár, lengd hjónabands 2 ár, strangari skilyrði varðandi þyngd og almennt heilsufar, orðið til þess að umsóknum til Kína hefur fækkað um 60% eða jafnvel meira .
Árin 2007 og 2008 komu engin börn frá Indlandi með milligöngu ÍÆ, í fyrsta skipti síðan 1990.  Í byrjun árs 2009 komu 3 börn þaðan. Skýringin á því er sú að allt árið 2007 var ÍÆ að vinna að því að endurnýja starfsleyfi sitt þar í landi og síðan þurfti barnaheimilið að endurnýja sín leyfi.  Þrátt fyrir 20 ára reynslu og feril í ættleiðingarmálum, sem aldrei hefur fallið skuggi á, tók þetta ferli þetta langan tíma. Fulltrúar ÍÆ sóttu ráðstefnu á Indlandi í október ári 2007 og áttu þá fund með yfirmönnum CARA um endurnýjunina og það hafði þau áhrif að um áramót 2007-2008 kom loks hið langþráða skjal. 
Ekkert barn kom frá Kólombíu til Íslands með milligöngu ÍÆ árið 2008, vegna þess hve fáar umsóknir voru sendar í upphafi en líka hefur biðtíminn lengst mikið, er núna 3-4 ár, en vonir standa til að árið 2009 verði betra.  Þróunin þar er eins og annars staðar, umsóknum hefur fjölgað en börnum fækkað.  Tengiliður ÍÆ í Kólombíu segir að allt sé með eðlilegum hætti.  Umsóknum til Kólombíu frá ÍÆ hefur fjölgað allverulega og eru nú um 20 umsóknir úti. Það er eitt brýnasta verkefni ÍÆ á næstunni að fara til Kólombíu til að kynna félagið, og kynnast betur þeirri starfsemi sem þar er að finna.
Yngsta sambandið er Tékkland og fyrsta barnið kom heim vorið 2007.  Ekkert barn kom frá Tékklandi árið 2008.  Nú sýna fleiri umsækjendur áhuga á að senda út umsóknir til Tékklands og þar eru nú 3 umsóknir í vinnslu. Haustið 2008 fóru formaður og framkvæmdastjóri ÍÆ á ráðstefnu um ættleiðingar í Tékklandi. Gafst þá tími til að hitta og ræða málin við þarlend stjórnvöld sem fullvissuðu okkur um það að allir pappírar væru í lagi og öll tilskilin leyfi til staðar.  Það vekur undrun hve fáir umsækjendur stefna til Tékklands þar sem ættleiðingar eru vel skipulagðar og umönnun barnanna góð. Biðtími hefur lengst og má reikna með 2-3 árum.
Í apríl mánuði 2008 fór fulltrúi ÍÆ á Euradopt fund á Ítalíu.  Þar var aðalumræðan þeir erfileikar sem ættleiðingarheimurinn á í þessa dagana. Samhljómur var á fundinum um að allstaðar væri fækkun ættleiðinga árið 2007, og það er ekki að sjá að það lagist á næstu árum.  Einnig kynnti Mr. Hirut Delebo ráðherra sem sér um ættleiðingarmál í Eþíópíu ættleiðingarferlið þar.  Ingibjörg talaði um mikilvægi alþjóðlegs samstarf.  Með þátttökunni sjáum við og upplifum að allstaðar er verið að fást við sömu málin. Samstarfið á alþjóðlegum vettvangi sýnir ekki síður hversu mikilvægt það er að viðhalda fagleglegum vinnubrögðum og gera miklar kröfur til þeirra aðila sem verið er að vinna með í upprunalandi barnanna.  Þetta skiptir ekki síst máli er erfileikar steðja að.
Formannafundur norrænu ættleiðingarsamtakanna var í september árið 2008 í Stokkhólmi, þar sem formenn og framkvæmdastjórar norrænu félaganna sem aðild eiga að NAC, eiga sæti. Aðalumræðuefni þar voru ýmis mál sem tengjast almennum rekstri og daglegum úrlausnarefnum.  Það eru allir að að glíma við það sama, lenging biðlista, lengri tími í hvert mál fyrir sig, sem aftur þýðir aukinn rekstrarkostnað.  
Stór ráðstefna Nordic Adoption Council verður haldin í Reykjavík dagana 3. til 6. september næstkomandi.  ÍÆ verður gestgafinn og sér um praktíska hluti, en stjórn NAC mun sjá um innihald og skipulag ráðstefnunnar.  Búast má við um 200 ráðstefnugestum, þar sem eru meðal annarra helstu fræðimenn og fulltrúar ættleiðingarsamtaka Norðurlandanna og vonandi fulltrúar frá upprunalöndunum.
Þá kom fram sú staðreynd að heimkomnum börnum hefur fækkað undanfarin ár sem hefur bein áhrif á rekstrargrundvöll félagsins, sem um mitt síðasta ár var orðinn mjög slæmur.  Vegna þessa átti formaður fund með formanni fjárlaganefndar Alþingis í lok nóvember 2008.  Þar var fjárhagsstaða félagsins rædd og þeirri staðreynd lýst að ef ekki fengist frekara fjármagn til rekstursins þá þyrfti að gera einhverjar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi félagsins.  Í framhaldinu samþykkti Alþingi á aukafjárlögum 3 milljóna króna viðbót inn í rekstur félagsins fyrir árið 2009, þrátt fyrir gífurlegan niðurskurð í opinberum rekstri fyrir árið 2009.  Á fjárlögum hafði verið gert ráð fyrir 6.5 milljónum í rekstrarstyrk.  Ef þessi aukafjárveiting hefi ekki komið til, hefði félagið þurft að grípa til enn frekari niðurskurðar og aðgerða.  Þær ráðstafanir sem stjórn félagsins hefur nú þegar gripið til er lækkun starfshlutfalls framkvæmdastjóra niður í 80% og starfsmanns á skrifstofu niður í 50%.  Að auki er búið að segja upp leigu félagsins. Niðurskurður á öðrum rekstarliðum er í vinnslu.
Þá gerði Ingibjörg grein fyrir hækkunum sem stjórn hefur samþykkt og kynnt fyrir umsækjendum á biðlista og eru liður í því að halda rekstri og þjónustu ÍÆ gangandi.  Hugsunin sem liggur að baki er að dreifa þeim greiðslum sem fólk á biðlista greiðir. Gamla fyrirkomulagið var að við innkomu á biðlista greiddi fólk til félagsins 50.000 kr. síðan við miðbik ættleiðingarferilsins greiddi það 70.000 og í lokagreiðslu greiddi það 80.000 kr., eða samtals 200.000. Nýja fyrirkomulagið er þannig að nú greiðir fólk 120.000 við innkomu á biðlista síðan greiðir það 60.000 þau ár sem biðin er og við lok greiðir fólk 120.000.  Ekki eru greiddar á sama ári 120.000 og 60.000, þannig að það par sem greiðir fyrir 1. apríl ár hvert 60.000 þúsund og fær síðan upplýsingar um barn í maí greiðir 60.000 í lokin.  Þetta þýðir að kostnaður miðað við biðtíma í 4 ár, er 360.000. Hugsunin sem liggur að baki er viðleitni til að tryggja fjármögnun á þeim grunnkostnaði sem fellur til við rekstur skrifstofu ÍÆ.  Það er forsvarsmönnum ÍÆ mjög óljúft að þurfa að standa að þessum hækkunum, en þær eru því miður óhjákvæmilegar. Þetta er þrátt fyrir aðgerðir til aðhalds við kostnað á skrifstofunni.
Það er skylda stjórnar að sjá til þess að tryggja þá þjónustu sem ÍÆ þarf að viðhalda til þess að þeir sem eru á biðlista eftir sínu langþráða barni geti lokið því ættleiðingarferli sem hafið er.  Einnig ber að ítreka það að samkvæmt samningi við upprunarlöndin, er félagið skuldbundið til að halda skrifstofurekstri í fullum gangi.  Að öðrum kosti er ekkert samband.  Þetta gildir bæði um Indland og Kína.
Annan kostnað, sem hefur aukist vegna ættleiðingar barns af erlendum uppruna, má annars vegar rekja til gengisfalls íslensku krónunnar og til hækkunar gjalda í upprunaríkjum barnanna.  Þannig hafa t.d. Kínverjar hækkað ættleiðingarkostnað úr 3.800 í 5.800 dollarar auk þess sem þeir hafa hækkað umsýslugjöld og þýðingar.
Þá kom fram að í undirbúningi er sérstök fræðsla eða spjallfundir með biðlistafólki. Þessi vinna er ætluð fyrst og fremst til upplýsingar og vonandi til að auðvelda biðina.  Einnig er gert ráð fyrir að settir verði saman hópar, rýnihópar, félagsmanna, til að fara yfir áherslur í starfi félagsins, hvað vel er gert og hvað megi bæta. Þetta verður gert með því augnamiði að aðlaga þjónustu félagsins að breyttum aðstæðum, fyrst og fremst lengri biðtíma og meiri óvissu sem ríkir um framvindu ættleiðingarferla í flestum löndum.
Ingibjörg sagði frá því að stjórn ÍÆ hefur unnið að því að þeir umsækjendur sem eru nú komnir yfir aldursmörk skv. íslenskum reglum fái að ljúka því ættleiðingarferli sem þeir eru í.  Fóru formaður og lögfræðingur félagsins á fund ráðherra 4. mars til þess að fylgja þessu eftir.  Niðurstaða er ekki komin en hún verður kynnt umsækjendum um leið og hún fæst.
Ingibjörg fór yfir það helsta í félagsstarfi ÍÆ. Útilegan var haldin í Þykkvabænum í júlí í beljandi rigningu.  Í lok afmælisársins tók ÍÆ upp norræna ættleiðingarviku, með opnu húsi á skrifstofunni og greinar birtust í blöðum. PAS nefndin var öflug á árinu 2008 og ritnefnd gaf út stórt afmælisrit. Fjáröflunarnefnd safnaði peningum til nauðsynlegra góðgerðarmála í ættleiðingarlöndunum. Félaginu barst góð gjöf frá Kína, fallegir bolir sem seldir eru til styrktar börnum á erlendum barnaheimilum. Ingibjörg þakkaði nefndunum fyrir frábært starf og Láru og Bárði í Kína voru sendar innilegar þakkir fyrir stuðninginn. Þá sagði Ingibjörg að ný nefnd sem vinna mun að fræðslu varðandi börn með sérþarfir tekur til starfa á næstunni. Aðrir fastir félagsliðir voru á sínum stað, jólaböll í Reykjavík og Akureyri voru vel sótt.  Foreldradagar, hittingar í Húsdýragarðinum, pipakökumálun, hittingar í skautahöllinni og svo mætti lengi telja.  
Í lok skýrslu stjórnar kynntu Ingibjörg Jónsdóttir og Ingibjörg Birgisdóttir þau lönd sem hafa verið skoðuð síðastliði ár með tilliti til nýrra ættleiðingarsambanda.
ÍÆ sótti um starfsleyfi í Nepal þegar það var hægt í fyrra sumar. Félagið hefur verið skráð á lista hjá nepölskum yfirvöldum yfir félög sem leyfi hafa til að starfa í Nepal. Formlegt svar eða starfsleyfi hefur ekki enn borist ÍÆ en um leið og það verður mun dómsmálaráðuneytið gefa úr löggildingu hér, ekki þarf að gera sérstakan samning á milli ríkjanna. Félagið er komið með samstarfsaðila, sem rekur barnaheimili í Kathmandu og hefur yfir 20 ára reynslu af ættleiðingarstarfi á Indlandi, einnig sérstakan tengilið sem sér um praktísku hliðina og er nauðsynlegur samkvæmt nepölskum lögum. Þegar öll tilskilin leyfi eru komin, verður tekið við umsóknum á biðlista. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ÍÆ hefur er ekki búið að ákveða endanlega alla ferla, margt er enn óljóst. Börnin eru allt að 12 ára gömul en meðalaldur er 3 – 5 ára. Fastur kostnaður ÍÆ verður 150 EUR pr. mánuð og 10.000 USD pr. ár sem rennur til barnaheimilisins, það er leið yfirvalda til að tryggja velferð þeirra barna sem ekki verða ættleidd. Kostnaður umsækjenda vegna ættleiðingar er 3000 USD sem renna til stjórnvalda og 5000 USD sem renna til barnaheimilisins og að auki er ferðakostnaður og uppihald í Nepal og á Indlandi. Gert er ráð fyrir 2 vikna dvöl, fyrst í Nepal og síðan á Indlandi þar sem vegabréfsmál eru kláruð í sendiráði Íslands. Helstu kröfur til umsækjenda eru að minnst 30 ára aldursmunur sé á barni og foreldrum en að öðru leyti virðast ekki vera nein aldursmörk, 4 ára hjónaband og hreint sakavottorð. Sérstakar reglur eru með fjölda og kyn barna, ef umsækjendur eiga dreng og stúlku fyrir fá þau ekki að sækja um, ef stúlka eða drengur er fyrir í fjölskyldunni, þá fær viðkomandi barn af gagnstæðu kyni og ef 2 stúlkur eða 2 drengir fá umsækjendur barn af gagnstæðu kyni. Hvert land má senda 10 umsóknir á ári til Nepal og einhleypar konur eldri en 35 ára geta sótt um.
Makedónía hefur skrifað undir Haag samninginn. Samningaviðræður milli Íslands og Makedóníu eru í gangi og ÍÆ bíður eftir starfsleyfi í Makendóníu. Ættleiðingar úr landi eru fátíðar í Makedóníu og ÍÆ gæti sent út 1 til 2 umsóknir á ári.
Reynt var að hefja samstarf við Eþíópíu fyrir 2 árum. Eins og staðan er er ekki tekið við nýjum samstarfsaðilum í bili. Eþíópía er með frekar víðan aldursramma, 40 ára aldursmunur á barni og umsækjendum og hjúskapur í 2 ár. Nýverið var ákveðið að taka ekki við fleiri umsóknum frá einhleypum. Börnin eru á ýmsum aldri og koma frá mörgum barnaheimilum, ÍÆ þarf að hafa tengilið á staðnum. Þeir krefjast þess að samstarfsaðilar haldi úti velferðarprógrammi hjá þeim í skiptum fyrir samband t.d að greiða fastar greiðslur til reksturs barnaheimilis. Danadopt er að vinna þarna og ÍÆ fékk í fyrrasumar vilyrði þeirra fyrir samstarfi.  Þeir lentu í miklum erfileikum í upphafi en eru komnir með málin í gott lag.  Dvöl í landinu 10-14 dagar og biðtími áætlaður 3 ár, styttri fyrir eldri börn, mjög mörg börn milli 4 og 7 ára vantar fjölskyldur.
Tilraun til samstarfs við S-Afríku hófst fyrir 2 til 3 árum. Dómsmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og sendiráðið sem rekið var í S-Afríku reyndu að koma á samstarfi. Svarið var að meðan beðið er eftir nýjum lögum verða ekki fleiri samstarfsaðilar teknir inn. Haft var samband við 2 stofnanir sem reka barnaheimili en þær vildu bíða eftir samþykki sinna stjórnvalda. Nýverið var beiðni um samstarf ítrekuð með bréfi frá dómsmálaráðuneytinu. S-Afríka er aðili að Haag samningi, sem gerir alla vinnu auðveldari.  Einungis giftir umsækjendur, hjúskapur + sambúð lágmark 5 ár, ekki ættleiðingar til einhleypra. Börn á öllum aldri, mörg innan við 1 árs. Ættleiðingarstofnanir eru flestar kristnar og aðstoða aðeins trúaðar fjölskyldur. Stutt dvöl í landinu, um 2 vikur, áætlaður biðtími 3 ár.
ÍÆ skoðaði Kenya sem samstarfsland vandlega í ársbyrjun 2008 og var þá komið í samband við góðan lögfræðing og við stofnun sem rekur barnaheimili. ÍÆ frestaði frekari skoðun á samstarfi vegna kröfu um langa dvöl umsækjenda í landinu, 7-9 mánuði skv upplýsingum frá stjórnvöldum, en einnig vegna átaka á svæðinu sem núna eru að mestu liðin hjá.         
Dómsmálaráðuneytið hefur verið í sambandi við stjórnvöld á Filipseyjum vegna hugsanlegs ættleiðingarsambands. Helstu kröfur til umsækjenda er að þeir séu 27 ára eða eldri, giftir í 3 ár, hámarksaldursmunur umsækjenda og barns 40 ár og yngstu umsækjendur fá yngstu börnin. Stutt dvöl í landinu, um 10 dagar og biðtími er áætlaður um 3 ár.
Áhugi er á að endurvekja samstarf ÍÆ við Department of Public Welfare í Thailandi. Þar eru umsækjendur frá 25 ára, giftir, hámarksaldursmunur foreldra og barns er 40 ár. Mjög erfitt að fá svör, þarf helst að hafa tengilið í landinu. Dvöl í landinu um 2-3 vikur og áætlaður biðtími 3 ár.
Ársreikningar félagsins
Finnur kynnti ársreikninga félagsins. Reikningarnir hafa verið samþykktir af Pricewaterhouse Coopers og stjórnarmönnum ÍÆ. Í máli Finns kom fram að tekjur hafa dregist saman á milli ára. Gera má ráð fyrir að framlög hins opinbera munu lækka vegna ástandsins í efnahagsmálum landsins. Á fjárlögum var gert var ráð fyrir 6,5 milljónum til félagsins en 3 milljóna kr. aukaframlag var samþykkt. Tveir gengisreikningar með innistæðum hafa hækkað á milli ára en það er vegna veikingar krónunnar. Varlegt er að líta á þetta sem raunverulegan hagnað þar sem þessir reikningar eru áætlaðir til greiðslu kostnaðar sem til fellur í erlendri mynt.   
Fyrirspurnir
Eftir kynningu ársreikninganna opnaði fundarstjóri fyrir umræður um skýrslu stjórnar og ársreikningana. Margir vildi tjá sig.
Spurt var um hvort umsækjendur mættu eiga barn fyrir en ekki komu fram upplýsingar um það í kynningum á allra nýju landanna. Guðrún framkvæmdastjóri sagði að í Thailandi væri sú regla að umsækjendur mættu ekki eiga börn fyrir en mörg lönd hafa tekið upp einhverjar reglur um takmörkun á barnafjölda umsækjenda t.d. er Nepal með slíka reglu.
Spurt var um nýju 60 þúsund kr. árlegu biðlistagjöldin og greiðslu á lokagjaldið á sama ári. Ingibjörg Jónsdóttir sagði að ef umsækjendur eru búnir að greiða árlega biðgreiðslu á því ári sem þeir fá upplýsingar um barn þá greiða þeir 60 þúsund í lokagreiðslu. 
Spurt var hvað félagið ætlar að gera við peningana sem koma inn með nýju biðlistagjöldunum og hvort hægt væri að sjá fjárhagsáætlun hvernig reksturinn er hugsaður. Einnig var spurt hvort þessi upphæð dyggði til meðal annars til að koma á nýjum ættleiðingarsamböndum sem væru fyrirhuguð og hvernig hún hefði verið fundin út. Finnur svaraði og sagði að samkvæmt áætlunum stjórnar ætti þetta að vera nægjanlegt en ný stjórn mun gera aðra áætlun í framhaldinu.  
Spurt var hvað lægi að baki ákvörðunarinnar um þessa hækkun. Finnur sagði að þar væru helstar þær staðreyndir að færri ættleiðingar fara í gegn, lækkun árlegs fjárframlags frá ríkinu og rekstrakostnaður félagsins í heildina.
Gerð var athugasemd við bréf sem stjórn hafði sent til umsækjenda á biðlista um hækkunina og þá sérstaklega varðandi það atriði að fólk væri tekið af biðlista ef árleg greiðsla væri ekki greidd fyrir 1. apríl. Ingibjörg Jónsdóttir svaraði og sagðist harma að þessi setning hafi verið í bréfinu og að aldrei hafi verið ætlunin að rukka fyrir 1. apríl 2009. Hún baðst afsökunar fyrir hönd stjórnar að þetta hefði verið svona óskýrt orðalag í bréfinu. Hún sagði að hins vegar væri regla félagsins sú að aðeins skuldlausir félagsmenn fá þjónustu í ferlinu, þannig hefur það alltaf verið. Ekki gert ráð fyrir afturvirkni í gjaldtökunni. Fyrirspyrjandi sagðist vilja treysta stjórn ÍÆ en nú er rof á því trausti vegna bréfsins sem sent var út og vegna óljósra upplýsinga um hvert þessir peningar fara.
Spurt var hvort raunhæft væri að spá í ættleiðingarsambönd við lönd sem eru enn lokuð eða bara hægt að fáein fá börn þaðan, hvort ekki væri betra að sníða sér stakk eftir vexti á erfiðum tímum. Ingibjörg Jónsdóttir svaraði að þetta væri alltaf spurning um mat hverju sinni, möguleikar á nýjum samböndum verða skoðaðir og síðan séð til hvað hægt er að halda áfram með . Nepal er frekar dýrt en vonandi að opnast meira og hefur þótt góður kostur að mati stjórnar. 
Spurt var hvenær stjórnin ætlar að fara að veita frekari upplýsingar til biðlistafólks en fyrirspyrjandi telur félagið ekki vera í nægjanlegu samband við þá sem eru á biðlista um það hvernig ferlið gengur. Ingibjörg Jónsdóttir harmaði það að biðlistafólki finndist ekki nægjanlegt samband haft við það að hálfu félagsins.  Á skrifstofu félagsins vinna tveir starfsmenn annar í 80% starfi og hinn í 50% starfi og þeir hafa haft nóg að gera. Fyrirspyrjandi nefndi að ekki þyrfti mikið til t.d. væri hægt að skrifa stutt bréf til umsækjenda um það hvernig ferlið gengur. Finnur sagðist vera búinn að vera í ættleiðingum í 2 ár og í stjórn ÍÆ í 1 ár og sagðist ekki hafa séð fólk leggja sig meira fram í vinnu en fyrir hönd félagsins. Hann sagði frá því að stjórnin hefur verið að velta fyrir sér hvernig hægt væri að fá fólk meira til liðs við félagið. Ætlunin er að fara í naflaskoðun, hvað erum við að gera vel og hvað þurfum við að bæta? Til stæði að stofna rýnihópa félagsmanna sem fara yfir þessi mál og með slíkum rýnihópum væri kannski hægt að finna litla hluti sem hægt er að gera á stuttum tíma. Þetta verður betur kynnt með vorinu. Gert er ráð fyrir að þetta verði einn rýnihópur þeirra sem er á biðlista og annar rýnihópur þeirra sem eru búnir að ættleiða.
Spurt var um ferðir erlendis sem voru margar á síðast ári og hve margir færu fyrir hönd félagsins í slíka ferðir og hvað væri verið að greiða fyrir viðkomandi. Ingibjörg Birgisdóttir sagði að ÍÆ væri í NAC sem greitt væri árgjald í og á móti kemur að NAC greiðir alltaf fullan ferðakostnað fyrir einn aðila á NAC fundi, greitt er ferðir, hótel og uppihaldi en þar sem tveir aðilar fara frá ÍÆ og þá fellur ferðakostnaður annars aðilans á kostnað félagsins. Hún sagði að ekki væru alltaf sendir tveir fulltrúar það væri frekar gert ef um væri að ræða stærri fundi. Oft færi bara einn aðili frá ÍÆ.
Spurt var hvers vegna ekki hefði verið farið til Kólombíu þar sem margir ættu umsókn þar og stjórn ÍÆ teldi að mikilvægt væri að fara þangað til að styrkja tengslin við það land. Ingibjörg Birgisdóttir sagði að næsta land sem yrði heimsótt væri Kólombía
Spurt var hvort væri búið að fara til Kína. Guðrún framkvæmdastjóri svaraði og sagði að það hefði verið farið til Kína á sínum tíma áður en ættleiðingar þaðan hófust til að koma sambandinu á. Kínverskar sendinefndir hafa komið þrisvar til Íslands síðan samstarf hófst.
Spurt var hvers vegna Bandaríkjamenn væru að fá miklu fleiri börn frá Indlandi en Íslendingar, af hverju hefur gengið svona illa við að fá börn frá Indlandi? Guðrún framkvæmdastjóri sagði að Anju, tengiliður ÍÆ Indlandi segði að Bandaríkjamenn séu miklu opnari fyrir börnum með sérþarfir en við, börnin eru mörg hver fyrirburar og ekki uppburðarmikil og margir Bandaríkjamenn eru tilbúnir til að ættleiða þau.
 Spurt var um þá reglu að ekki væri hægt að vera á biðlista í tveimur löndum í einu, hvaðan þessi regla kemur og hvort stjórn ÍÆ hafi velt fyrir sér þessum möguleika. Ingibjörg Birgisdóttir sagði að þessi regla kæmi frá dómsmálaráðuneytinu en samkvæmt ráðuneytinu er eitt barn ættleitt í einu. Norðurlöndin eru einnig með þessa reglu og samkvæmt Haag samningnum um ættleiðingar eiga umsækjendur að einbeita sér að einni ættleiðingu í einu. Dómsmálaráðuneytið gefur út aðeins eitt forsamþykki í einu.
Spurt var hvaðan sú regla væri komin að bíða þarf í eitt ár eftir að barn er ættleitt þangið til að hægt er að byrja að sækja um næsta forsamþykki. Væri ekki hægt að breyta þessu með tilliti til þess að biðtíminn hefur lengst mikið. Ingibjörg Birgisdóttir sagði að reglan kæmi frá dómsmálaráðuneytinu.
Spurt var hvar lög og reglur félagsins liggja og hvort stjórn ÍÆ geti breytt gjöldunum án fyrirvara og samþykkis félagsmanna. Helgi sagði að gjöldin væru ekki til samþykktar á aðalfundi. Skylda stjórnar er að reka félagið vegna ættleiðingarsambanda. Varðandi upphæð gjaldanna þá er hún eiginlega ágiskun, það er hægt að gera fjárhagsáætlanir en í lokin þá er það ríkisframlagið sem skiptir öllu máli. Stjórn félagsins þarf því miður að eyða allt of mikið af sínum tíma í að spá í þessar fjárhagsáætlanir til að tryggja að starfsemin gangi. Hækkun gjaldanna er gerð til að koma í veg fyrir að starfsemi félagsins stoppi því þá er það stóra stoppið og ættleiðingarsamböndin loka.
Spurt var hvaða þýðingu lenging á biðtíma hefur og hvaða endurnýjun þarf að eiga sér stað á gögnum umsækjenda. Guðrún framkvæmdastjóri sagði að forsamþykki hefði verið gefið út til 2 ára en því hefði verið breytt í 3 ár að beiðni ÍÆ. Hægt er að framlengja forsaþykki um 1 ár. Þeir sem áttu forsamþykki til 2 ára fá 1 aukaár í framlenginu. Eftir 4 ár þarf að sækja aftur um forsamþykki. Það er ákvörðun sýslumanns hvort hann vill láta gera einhverja úttekt á aðstæðum umsækjenda við endurnýjun á forsamþykki. CCAA í Kína treystir ÍÆ til að sjá til þess að umsækjendur séu með skjöl og leyfi í lagi.
Spurt var hvort von væri á nýjum lista yfir börn með skilgreindar sérþarfir frá Kína. Guðrún framkvæmdastjóri sagði að nýr listi hefði komið fyrr um daginn. Á honum eru  börn yngri en 2 ára með alvarlegar fatlanir og þó nokkuð af eldri börnum með minniháttar fatlanir en reynslan væri sú að íslenskir umsækjendur hafa ekki sóst eftir að ættleiða eldri börn.
Spurt var um möguleika á að breyta umsókn ef ný lönd væru að opna fyrir ættleiðingar og hvort samþykki þyrfti fyrir að draga til baka forsamþykki. Einnig var spurt hvort hægt væri að byrja að vinna í nýrri umsókn þó svo að staðfesting sé ekki komin um að umsókn væri dregin til baka. Guðrún framkvæmdastjóri svaraði og sagði að 1 forsamþykki væri í gangi einu og staðfesting þyrfti að koma frá því landi sem hefur forsamþykkið um að hætt væri við umsókn. Það er ákvörðun sýslumanns hvernig staðið væri að slíkum málum.
Spurt var um liðinn fræðslufundir í ársskýrslu félagsins en þar kemur fram að fræðslufundir væru upp á rúmlega 2 milljónir á síðasta ári og spurt var hvort innkoma vegna félagsgjalda færi í að greiða niður fræðslunámskeið fyrir biðlistafólk vegna forsamþykkis. Ingibjörg Jónsdóttir svaraði því til að inni í þessari tölu væru fræðslunámskeið fyrir fólk á biðlista en þau koma til frádráttar annars staðar í ársreikningnum. Gerð var athugasemd við endurskoðendur vegna þessa. Talan villandi en fræðslunámskeiðin vegna forsamþykkis eru að fullu greidd af þátttakendum.
Umræða um varnarleysi umsækjenda gagnvart yfirvöldum t.d. ef upp koma mál vegna meðferðar dómsmálaráðuneytis eða sýslumanns á umsóknum, þá standa umsækjendur einir í málinu. Helgi sagði að stjórnin hefði beitt sér fyrir ákveðnum málum fyrir hönd umsækjenda t.d. vegna þeirra sem eru komnir fram yfir aldursviðmiði og eru með forsamþykki sem eru að renna út. Helgi sagði að margt mætti efla og bæta því margir umsækjendur eru ekki í stakk búnir til að standa í svona málum einir og sér, en sér ekki fyrir sér að félagið fari að vera með lögfræðiráðgjöf fyrir félagsmenn.
Fleiri fyrirspurnir bárust ekki og bar fundarstjóri að svo búnu ársreikning félagsins upp til samþykktar og var hann samþykktur samhljóða af félagsmönnum.
Kjör stjórnar
Þrjú sæti eru í kjöri til stjórnar og í framboði eru fimm,  Ágúst Hlynur Guðmundsson, Hörður Svarvarsson, Ingibjörg Jónsdóttir, Reynir Þór Finnbogason og Vigdís Ósk Sveinsdóttir. Frambjóðendur fengu 2 mínútur til að kynna sig og var það gert eftir stafrófsröð.
Fundarstjóri kemur með tillögu að kjörnefnd, Jóhann Sigurðsson, Klara Geirsdóttir og Ólína Kristinsdóttir. Fundarmenn gera ekki athugasemdir við þessa tillögu.
Þar sem fundurinn hefur dregist á langinn þá leggur fundarstjóri til að stutt hlé verði tekið á meðan atkvæði verða talin og er það samþykkt.
Ákvörðun félagsgjalds 
Finnur kemur með tillögu um 5.500 kr. árgjald í félagið eða hækkun um 10%. Fundarstjóri ber tillögu um félagsgjald undir fundarmenn og er sú tillaga samþykkt af meirihluta fundarmanna. 
Skýrslur nefnda
Störf ritnefndar 
Ritnefnd var ekki með tilbúna skýrslu en tilkynnti að skýrsla nefndarinnar væri blað síðasta árs. Ritnefndinni var þakkað af fundarmönnum með lófataki.
Störf PAS nefndar (Post Adoption Service)
Gerður kynnti skýrslu PAS nefndar. Vettvangur nefndarinnarinnar er fræðsla eftir ættleiðingu. Á síðastliðnu starfsári hélt PAS nefndin fjölda funda, auk 2ja vinnudaga/dagsparta. Í nefndinni eiga sæti 6 fulltrúar á höfuðborgarsvæðinu og 2 ár Akureyri. Fundirnir hafa því að mestu leyti verið í formi Skype funda.
Á síðastliðnu ári var unnið að eftirfarandi verkefnum:  Málþing 17. maí með fjölda fyrirlesara, Kolbeinn Guðmundsson sérfræðingur í innkirtlasjúkdómum, Þórdís Kristinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur barna, Arndís Þorsteinsdóttir barnasálfræðingur Gestur Pálsson barnalæknir auk félagsmannanna Ingibjargar Jónsdóttur og Ingibjargar Birgisdóttur. Í lok málþingsins var Gestur Pálsson heiðraður. Fyrirlestur 16. október um hreyfiþroska barna, fyrirlesarar Birna Björk Þorbergsdóttir og Guðrún Ágústa Brandsdóttir sjúkraþjálfarar. Fyrirlestur 4. og 13. nóvember um hreyfi og skynþroska, fyrirlesari Þóra Þóroddsdóttir. Fyrirlestur 15. Nóvember á Akureyri, „We are home! Now what?“, fyrirlesari Nadya Maria Molina. Spjallfundur 21. janúar á Akureyri um hreyfiþroska barna, fyrirlesari Jón Harðarson sjúkraþjálfari. Fyrirlestur 19. febrúar um kvíða hjá börnum, fyrirlesari Jóhanna Kristín Jónsdóttir sálfræðingur. Allir fyrirlestrarnir voru fróðlegir og áhugaverðir að mati þeirr sem þá sóttu, en mæting var misjöfn.
Það sem er framundan hjá nefndinni er: Tveir spjallfundir bæði í Reykjavík og Akureyri um kjörbarnið og leikskólann og um kjörbarnið og grunnskólann. Setja meira fræðsluefni á vefsíðuna, ýmsar greinar íslenskar sem erlendar. Þýðing áhugaverðra greina og bæklinga. Samstarf við Ingibjörgu Símonardóttur talmeinafræðing sem er kominn á eftirlaun og hefur boðið fram krafta sína í þágu félagsmanna.
PAS nefndin biður félagsmenn um tillögur af öllu því sem þeim dettur í hug og gæti fallið undir PAS vinnu.
Niðurstaða úr kjöri stjórnar
Fundarstjóri gerir hlé á kynningum á störfum nefndar og tilkynnir að kjörnefnd hafi lokið störfum og gefur fulltrúa nefndarinnar Klöru Geirsdóttur orðið. Klara tilkynnir að nöfn þeirra sem kosnir eru í stjórn verði nefnd í stafrófsröð og að atkvæðamagn hvers frambjóðanda verði ekki gefið upp. Nýjir stjórnarmenn eru Ágúst, Hörður og Vigdís. Þau voru kölluð upp og fagnað með lófaklappi. Þeir sem ganga út úr stjórn eru Arnþrúður Karlsdóttir, Helgi Jóhannesson og Ingibjörg Jónsdóttir og voru þau kölluð upp og þakkað með gjöf og lófaklappi.
Fundarstjóri tilkynnti að nú yrði haldið áfram með skýrslur nefnda. 
Störf skemmtinefndar
Klara kynnti störf skemmtinefndar. Í nefndinni eiga sæti 7 félagsmenn. Skemmtinefndin stóð fyrir grilli í Heiðmörk í júní í nokkuð góðu veðri. Útilegan var í Þykkvabænum og var bæði blaut og vindasöm en það ánægjulega var að hún var rekin með hagnaði í það skiptið og var ágóðinn notaður til að greiða niður húsaleigu vegna foreldrarhittinga. Reynt að vera með uppákomur þar sem eitthvað annað er gert en það sem krefst greiðslu á leigu. Hittingur í hverjum mánuði og suma mánuðina tvisvar. Á haustönn var 3 sinnum hittingur úti og 2 sinnum inni. Jólaball var í Reykjavík og á Akureyri milli jóla og nýárs og var góð mætting að vanda. Efir áramót var 2 sinnum hittingur úti og 1 sinni inni og var það síðasta laugardag en þá var hið árlega páskaföndur. Næst er svo fyrirhugað að hittast í Nauthólsvíkinni og sulla svolítið saman. Sumargrilið verður í júní og útilegan verður að Varmalandi í Borgarfirði helgina 17 – 19. júlí. Það vantar fólk til starfa í nefndina þar sem 3 þeirra sem í henni hafa starfað eru að hætta.
Fjáröflunarnefnd
Klara og Hólmfríður kynntu. Fjáröflunarnefndin starfar í samræmi við eitt af meginmarkmiðum ÍÆ að vinna að velferðarmálum barna erlendis. Nefndarmenn leita leiða til að afla tekna fyrir nefndina og treysta á sjálfboðaliða úr röðum félagsmanna. Í nefndinni eiga sæti 4 félagsmenn.  Tekjur síðasta árs eru 1.711.314 en í fyrir í sjóði voru 2.080.599. Tvær peningasendingar voru sendar til Kína samtals að upphæð 1.073.110. Ýmiss kostnaður var 265.405 og í sjóði 31.12.2008 var 2.453.398. Helstu verkefni nefndarinnar hafa verið talning í búðum 10-11 og Debenhams, sala á vettlingum og húfum á skrifstofu og bókinni Hjartagull, innpökkun gjafa fyrir jólin og sala áletraðra stutterma bola. Allar hugmyndir og styrkir vel þegnar. Tveir nefndarmanna að hætta en Klara og Hólmfríður bentu á að þetta væri góð nefnd til að starfa í fyrir þá sem eru á biðlista. 
2.  Önnur mál
Fundarstjóri tilkynnir að komið sé að liðnum önnur mál og býður fundarmönnum orðið.  Engar sérstakar fyrirspurnir bárust eða umræður.
Fundarstjóri tilkynnir að formlegum aðalfundarstörfum sé hér með lokið og gaf síðan Ingibjörgu Jónsdóttur fráfarandi stjórnarmanni og formanni Íslenskrar ættleiðingar orðið. 
Ingibjörg þakkaði fráfarandi stjórn frábært samstarf og þakkaði kynni af öllu því fólki í félaginu sem hún hefur kynnst í 7 ára starfi sínu í stjórn ÍÆ. 
Að svo búnu var fundi slitið.
Arnþrúður Karlsdóttir
Fundarritari

Svæði