Aukaaðalfundur 21.04.2009
Aukaaðalfundur Íslenskrar ættleiðingar haldinn þann 21. apríl 2009, kl. 20 í húsnæði Háskólans í Reykjavík.
Hörður Svavarsson formaður ÍÆ setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hann tilnefndi Hrafnhildi Arnkelsdóttur sem fundarstjóra og var það samþykkt af fundarmönnum með lófataki. Fundarstjóri tók þegar til starfa og tilnefndi Vigdísi Ósk Sveinsdóttur sem fundarritara og var það samþykkt af fundarmönnum. Fundarstjóri kynnti dagskrá fundarins.
1. Lagabreytingar.
Vigdís kynnti tillögur stjórnar ÍÆ að lagabreytingum. Tillögur stjórnar hljóðuðu upp á breytingar við þrjú ákvæði laganna, þannig að bætast myndi við sem 2. mgr. 7. gr. laganna og ákvæði færast þá niður um töluröð eftir því. Þá voru gerðar breytingar við ákvæði 1. mgr. 6. gr. laganna og ákvæði 13. gr.
Að lokinni kynningu bar fundarstjóri upp tillögur að breytingum við fyrstu lagabreytingu og þá hvort hún teldist samþykkt. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. laganna og ákvæði laganna sem færðust niður um töluröð eftir því var samþykkt. Nýtt ákvæði 2. mgr. 7. gr. hljóðar því svo:
,,Til aukaaðalfundar skal boða með sama fyrirkomulagi og til aðalfundar samkvæmt 7. gr.”
Fundarstjóri bar upp tillögur að breytingum við aðra lagabreytingu og þá hvort hún teldist samþykkt. Breyting á ákvæði 1. mgr. 6. gr. var samþykkt. Nýtt ákvæði 1. mgr. 6. gr. hljóðar því svo:
,,Stjórn félagsins skal skipuð 7 mönnum: formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og þremur meðstjórnendum. Kosnir skulu tveir varamenn. Kosning stjórnarmanna og varamanna ræðst af atkvæðamagni. Falli atkvæði jafnt við kjör skal endurtaka kosningu milli viðkomandi frambjóðenda og falli atkvæði enn jafnt ræður hlutkesti. Sé aðeins einn frambjóðandi í kjöri skoðast hann sem sjálfkjörinn án leynilegra kosninga. Kosning stjórnar fer fram á aðalfundi ár hvert eða aukaaðalfundi. Hluta stjórnarmanna skal kjósa árlega til tveggja ára í senn, þrjá annað árið og fjóra á því næsta. Hætti stjórnarmaður á kjörtímabili tekur varamaður sæti hans að öðrum kosti er félagsfundi heimilt að kjósa annan í hans stað.”
Fundarstjóri bar upp tillögur að breytingum við þriðju lagabreytingu og þá hvort hún teldist samþykkt. Breyting á ákvæði 13.gr. var samþykkt. Nýtt ákvæði 13. gr. hljóðar því svo:
,,Lögum þessum má einungis breyta á aðalfundi sem og á aukaaðalfundi samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna og þarf til þess samþykki 2/3 hluta fundarmanna eða hreinan meirihluta félagsmanna. Allar lagabreytingar skal bera undir dómsmálaráðuneytið áður en þær teljast endanlega samþykktar.”
Fundarstjóri leitaði þá eftir athugasemdum frá fundarmönnum við lagabreytingarnar. Engar athugasemdir bárust og bað fundarstjóri þá félagsmenn sem samþykktu lagabreytingarnar í heild sinni að rétta upp hönd. Lagabreytingar í heild sinni samþykktar.
2. Kjör stjórnar.
Þá var gengið til næsta dagskrárliðar. Fundarstjóri útskýrði fyrir fundarmönnum að krossa skyldi við að hámarki 4 frambjóðendur og að atkvæðamagn myndi ráða hvaða sæti þeir myndu taka í stjórn ÍÆ. Sá sem flest atkvæði hlyti kæmi inn í stjórn sem 1. aðalmaður, kosinn til eins árs. Næstur á eftir kæmi inn í stjórn sem 2. aðalmaður, kosinn til eins árs. Þriðji maður að atkvæðamagni kæmi inn sem 1. varamaður, kosinn til tveggja ára og fjórði maður að atkvæðamagni kæmi inn í stjórn sem 2. varamaður, kosinn til eins árs.
Frambjóðendur fengu nokkrar mínútur til að kynna sig og var það gert eftir öfugri stafrófsröð.
Fundarstjóri kemur með tillögu að kjörnefnd, Klara Geirsdóttir er formaður kjörnefndar og Helga Valtýsdóttir og Ólafur Unnarsson eru henni til aðstoðar. Fundarmenn gera ekki athugasemdir við þessa tillögu.
Stutt hlé var gert á fundinum á meðan atkvæði voru talin.
Formaður kjörnefndar tilkynnir nýja meðlimi í stjórn:
1. Karl Steinar Valsson
2. Guðbjörg Grímsdóttir
3. Pálmi Finnbogason (1. varamaður)
4. Margrét R. Kristjánsdóttir (2. varamaður)
3. Önnur mál.
Fundarstjóri tilkynnir að komið sé að liðnum önnur mál og býður fundarmönnum orðið. Engar sérstakar fyrirspurnir bárust eða umræður.
Fundarstjóri tilkynnir að formlegum aukaaðalfundarstörfum sé hér með lokið og óskar nýrri stjórn velfarnaðar í starfi.
Fundi slitið kl. 21.15.
Vigdís Ósk Sveinsdóttir
Fundarritari