Fréttir

Félagsfundur Íslenskrar ættleiðingar 28.03.2012


Félagsfundur Íslenskrar ættleiðingar
Miðvikudagskvöldið 28. mars 2012 kl. 20:00

Tilefni fundarins:
Þar sem ekki hefur verið gerður þjónustusamningur milli ættleiðingarfélagsins og Innanríkisráðuneytisins hefur aðalfundi félagsins verið frestað. Stjórn ÍÆ telur mikilvægt að skýra félagsmönnum frá stöðu mála.

Dagskrá:
1. Kynning af hálfu stjórnar ÍÆ
2. Umræður
3. Ályktun
4. Önnur mál

Hörður Svavarsson formaður ÍÆ setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hann tilefndi Jóhann Sigurðsson sem fundarstjóra og Vigdísi Ósk Sveinsdóttur sem fundarritara og var það samþykkt af fundarmönnum með lófataki. Fundarstjóri tók þegar til starfa, kynnti dagskrá fundarins og kallaði eftir athugasemdum um boðun fundarins. Fundarstjóri gaf síðan formanni ættleiðingarfélagsins orðið.

Hörður Svavarsson fór með framsögu þar sem farið var yfir sögu félagsins, breytingum sem orðið hafa á regluverki um ættleiðingar fyrir tilstuðlan Haagsamningsins um alþjóðlegar ættleiðingar. Ennfremur var farið yfir verkefni og skyldur félagsins, mikilvægi verkefna og kostnaði við að halda úti verkefnum.

Íslensk ættleiðing er 34 ára gamalt félag. Þegar lesið er í gögn félagsins kemur fram að félagið átti lítinn eða engan tilverurétt. ÍÆ var venjulegt félag áhugafólks um sérhagsmuni sína. Erfiðlega gekk að sækja fjármagn til ríkisins. Breytingar í ættleiðingarmálum urðu á tíunda áratugnum þegar ríki fóru að innleiða Haagsamninginn og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Sísti kosturinn fyrir munaðarlaus börn er að alast upp á stofnun. Ættleiðingarfélög út um allan heim eru að vinna að réttindum barna. Mikið hefur verið lagt upp úr því að koma í veg fyrir mansal og tryggja foreldrahæfni umsækjanda, sbr. handbók um ættleiðingar. Íslenska ríkið er búið að undirgangast þessi skilyrði og hefur tekið að sér þessi verkefni. Þessi verkefni hafa síðan verið framseld til ættleiðingarfélagsins með löggildingu, sbr. lög um ættleiðingar nr. 130/1999 og reglugerð um ættleiðingar, nr. 238/2005. Þessu starfi fylgja því miklar skyldur og mikil ábyrgð.

ÍÆ er að gera kröfu um fjármagn til að halda úti þeim verkefnum sem því ber lögum samkvæmt. Félagið annast milligöngu á milli umsækjenda, ættleiðingarfélagsins og ættleiðingaryfirvalda í upprunaríki barnsins. Félagið ber upplýsingaskyldu gagnvart kjörforeldrum um meginákvæði reglna um ættleiðingar á börnum milli landa. Félagið sér um að veita samþykki fyrir ættleiðingu barns samkvæmt Haagsamningnum. Félagið sér um að undirbúa foreldra áður en að ættleiðingu kemur, aðstoðar umsækjendur við ferðir til og frá upprunalandi barns og dvöl þar í landi, auk þess að sjá um að aðstoða umsækjenur vegna aðgerða dómstóla eða stjórnvalda í upprunaríki barnsins. Félaginu er skylt að halda úti vef og reka skrifstofu. Félagið ber að halda undirbúningsnámskeið fyrir verðandi kjörforeldra sem innanríkisráðuneytið hefur neitað að greiða fyrir. Félaginu ber að halda utan um gerð eftirfylgniskýrslna eftir að barn er komið heim sem senda þarf til upprunaríkjanna. Íslensk ættleiðing á að hafa lækni á sínum snærum. Gestur Pálsson barnalæknir hefur borið félagið á herðum sér, hann hefur aldrei þegið laun fyrir vinnu sína, með aðgang að öllum sérfræðingum á Landsspítalanum. Núna er staðan á Landsspítalanum hins vegar orðin þannig að Gestur Pálsson hefur ekki þetta svigrúm lengur. Íslenskri ættleiðingu ber að vakta lista með börnum sem hafa skilgreindar sérþarfir. Sjálfboðaliðar höfðu vaktað listana á næturnar þegar listanir birtust. Er hér um að ræða nærri helming allra ættleiðinga á hverju ári. Þá ber félaginu að annast þjónustu eftir ættleiðingu og eftir að barn er komið heim. Danmörk hefur verið að setja fjármagn í það að bjóða foreldrum og ættleiddum börnum í viðtöl hjá sérfræðingum eftir að heim er komið, nemur sú fjárhæð um 300.000 kr. íslenskar á hverja fjölskyldu per ættleiðingu. Ekkert fjármagn fæst hérlendis til þess að greiða fyrir samsvarandi þjónustu og fjölskyldum er boðið upp á í Danmörku. Íslenskri ættleiðingu ber að viðhalda samstarfi við þau lönd þar sem félagið hefur löggildingu. Þá er félaginu ætlað að afla nýrra sambanda og tryggja þannig að ekki verði rof á ættleiðingum til landsins. Gríðarlega mikið verkefni hefur verið unnið af Elínu Henriksen til að afla sambands til Rússlands. Ef hún hefði ekki fylgt því eftir að slíkri elju, væri samningurinn við Rússland ekki í sjónmáli.

Mikilvægi verkefna félagsins eru augljós. Það skiptir miklu máli að félagar okkar í Skandinavíu séu þess fullvissir að hér sé gott umhverfi til ættleiðingar. Hörður vísar hér m.a. til Tékklands.

Kostnaður við verkefnin. Ekki er ágreiningur við ráðuneytið um hvað þessi verkefni kosta. Þetta er kostnaður upp á 62 milljónir á ári. Ættleiðingarfélagið fær 9,2 milljónir á fjárlögum og það fjármagn hefur dregist saman vegna fjármálahrunsins og verðbólgu.

Að teknu tilliti til framangreinds er hér ekki um nýjan vanda að ræða. Til stóð 2009 að leggja viðbótargjald á umsækjendur. Það olli ólgu hversu klaufalega slík framkvæmd var kynnt en burtséð frá því er þörf fyrir peninga. Árið 2009 þegar ný stjórn var mynduð í félaginu var fundað oft með Rögnu Árnadóttur þáverandi innanríkisráðherra. Félagið tók tillit til fjármálahrunsins og var skorið niður í staðinn í rekstrinum um 3,5 milljónir. Árið 2010 var ráðherra sent erindi í átta liðum þar sem fram kom að gera þyrfti heildarendurskoðun á málaflokknum en það væri mjög mikilvægt að bregðast strax við fjárhagsvanda félagsins. Ráðherra réð lögfræðing, Hrefnu Friðriksdóttur, til þess að skrifa skýrslu um málaflokkinn. En áður en skýrslan kom út urðu ráðherraskipti. Farið var á fund núverandi ráðherra með erindi í þremur liðum, þar sem rætt var um samning við Rússland, Tógó og að meira fé þyrfti í málaflokkinn. Ögmundur lofaði að bæta úr. Skýrsla Hrefnu Friðriksdóttur kom síðan út þar sem fram kom að regluverkið á Íslandi væri gott en vandkvæði eru með framkvæmdina. Á þessum tímapunkti varð af sameiningu ráðuneyta og óskaði ráðherra þá eftir að málefni ÍÆ yrðu sett á bið. Kynningarfundur fór síðar fram á skýrslu Hrefnu Friðriksdóttur. Búið var að skipta um ráðherra, skrifstofustjóra, nýr ráðuneytisstjóri tekinn til starfa og ráðuneytið búið að skipta tvisvar um nafn. Nokkrum mánuðum síðar skipaði ráðherra nefnd til að fjalla um skýrsluna og breyta löggjöfinni þó ekki hefði verið mælt til þess í skýrslunni. Núna er því verið að skrifa nýja ættleiðingarlöggjöf. Þessi starfshópur átti einnig að skila inn þjónustusamningi fyrir haustið 2011. Fulltrúar ÍÆ funduðu með starfshópnum og buðust til að skrifa þjónustusamninginn. Þess í stað skrifaði starfshópurinn bréf til ráðuneytisins um að það þyrfti að gera þjónustusamning við ættleiðingarfélagið strax.

Fyrir síðustu fjárlög fór formaður á fund ráðherra, þar sem fram kom að gera þyrfti þjónustusamning til að leggja fyrir fjárlaganefnd sem skila þyrfti inn innan 5 daga. Hinn 22. desember funduðu formaður og framkvæmdastjóri félagsins með ráðherra og skrifstofustjóra ráðuneytisins. Þá var ákveðið að kynna málefni félagsins fyrir ríkisstjórnina til að fá framlag á fjáraukalögum. Í febrúar var fundar aftur í ráðuneytinu því ekki var enn búið að leggja málefni ættleiðingarfélagsins fyrir ríkisstjórnarfund. Ráðuneytið ætlaði að skrifa minnisblað en ættleiðingarfélagið tók það að sér þar sem biðin eftir ráðuneytinu var orðin löng. Minnisblað félagsins var lagt fyrir á fundi ríkisstjórnar hinn 9. mars ásamt minnisblaði frá ráðuneytinu um þörfina á þjónustusamningi og kostnað. Síðan hefur ekkert til þessa spurts. Ekki er vilji innan ríkisstjórnarinnar til að breyta aðstæðum ættleiðingarfélagsins. Stjórn félagsins er ekki reiðubúin til þess að takast á við þessa ábyrgð. Enginn félagsmaður bauð sig til stjórnarsetu og því var kallað til félagsfundar til að upplýsa þá um stöðuna. Halli var á rekstri félagsins árið 2010 upp á 2,5 milljónir. Fyrir árið 2011 var hallinn 3,5 milljónir og fyrirsjáanlegt er að hann verði 5,0 milljónir 2012. Félaginu er skylt að eiga varasjóð til að halda utan umsóknir. Þar að auki er fjöldi verkefna, burtséð frá hallanum, sem félaginu ber skylda til að sinna en getur ekki staðist undir, sbr. PAS þjónustuna og læknisþjónustu.

Hörður kynnir ályktun sem lögð verður aftur fyrir félagsmenn í lok fundar. Hörður ítrekar að ekki verði lokað á þær umsóknir sem komnar eru í ferli. Hins vegar er ljóst að síðar á árinu gæti þurft að hætta að taka á móti nýjum umsóknum og hætta með undirbúningsnámskeiðin.

Fundarstjóri fer nú í annan lið, og boðar til umræðna. Orðið er laust.

Fram kom að í ályktun fundarins þyrti að koma fram að félagið starfar að því að uppfylla Haagsáttmálann og drög að texta um ályktun fundarins væru ekki nægilega beitt og textinn þyrfti að vera harkalegri. Fundarstjóri stofnar starfshóp til þess að breyta orðalagi ályktunarinnar.

Kynnt er ný ályktun sem félagsfundur samþykkir einróma:

Ályktun félagsfundar Íslenskrar ættleiðingar
Fjölmennur félagsfundur Íslenskrar ættleiðingar (ÍÆ) sem haldinn var miðvikudaginn 28. mars 2012, samþykkti eftirfarandi ályktun:
„Stjórn Íslenskrar ættleiðingar hefur frá árinu 2009 staðið í viðræðum við Innanríkisráðuneytið vegna beiðni um aukin fjárframlög til félagsins. Enginn ágreiningur er á milli aðila um þau verkefni sem ættleiðingarfélaginu er falið að annast með vísan til laga og reglugerða, né er uppi ágreiningur um hvað það kostar að sinna þeim verkefnum. Framlög til ættleiðingarfélagsins eru í engu samræmi við þennan kostnað. Innanríkisráðherra lagði fram minnisblað fyrir ríkisstjórnarfund hinn 9. mars 2012 þar sem málefni ættleiðingarfélagsins voru rædd. Ekkert kom út úr þeim fundi. Blasir því við að ættleiðingarfélagið þurfi að hætta við verkefni sem getur sett tilvist þess og hagsmuni félagsmanna í mikla óvissu. Þjónusta til félagsmanna verði skorin niður og ættleiðingarsambönd við erlend ríki sett í hættu.
Félagsfundurinn skorar á innanríkisráðherra og ríkisstjórn Íslands að tryggja að Íslenskri ættleiðingu, sem hefur verið falin framkvæmd á fjölmörgum þáttum Haagsamningsins um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa, fyrir hönd íslenska ríkisins, verði gert kleift að uppfylla skyldur sínar. Jafnframt fer fundurinn fram á að innanríkisráðherra gefi án frekari tafa skýr svör um hvort af fjárveitingu verði í samræmi við drög að þjónustusamningi .“
Önnur mál.
Fundarstjóri boðar orðið laust undir liðnum „önnur mál“. Annar tveggja starsfmanna félagsins hefur sagt upp störfum. Félagsmönnum er mikið í mun að fá upplýsingar um það hvort ekki eigi að ráða nýjan starfsmann strax svo hægt sé að setja eftirmann inn í starfið svo hægi ekki á starfseminni frekar en orðið er. Hörður til svara. Ræðir um að fjórir starfsmenn ættu a.m.k að vera starfandi. Eftir 9. mars þegar minnisblað var lagt fyrir ríkisstjórn var félagið reiðubúið til þess að leita eftir starfskrafti. Nú er fullvissa um það að félagið stendur saman að þessu. Félagið mun óska eftir leyfi ráðuneytisins til að ganga á varasjóði félagsins. Í framhaldinu mun félagið auglýsa eftir starfsmanni.

Fundarstjóri þakkar félagsmönnum fyrir fundinn og slítur fundi.

Fundi slitið kl. 21:30.

Vigdís Ó. Sveinsdóttir fundarritari


Svæði