Stjórnarfundur 09.02.2021
Stjórnarfundur íslenskrar ættleiðingar, þriðjudaginn 9. febrúar 2021 kl. 20:30 í gegnum fjarfundarbúnað.
Mætt; Berglind Glóð Garðarsdóttir, Dylan Herrera, Elísabet Hrund Salvarsdóttir, Magali Mouy og Ari Þór Guðmannsson.
Lísa Björg Lárusdóttir boðaði forföll. Sigurður er í leyfi.
Einnig tók Kristinn Ingvarsson framkvæmdastjóri þátt í fundinum.
Dagskrá stjórnarfundar
- Fundargerð síðasta stjórnarfundar
- Askur, skýrsla skrifstofu
- Ársreikningur 2020
- NAC og EurAdopt
- Stöðvun alþjóðlegra ættleiðinga í Hollandi í kjölfar niðurstöðu rannsóknar
- ICAR7
- Kaup á barnabók um ættleiðingu
- Spurningalisti frá miðstjórnarvaldi Svíþjóðar
- Önnur mál
1. Fundargerð síðasta stjórnarfundar
Fundargerð samþykkt.
2. Askur, skýrsla skrifstofu
Kristinn fræddi um stöðu mála. Í janúar voru tvö „fyrstu viðtöl“ og var auk þess lögð fram fyrsta umsókn ársins.
Rætt um umsækjendur sem nýlega fengu niðurstöðu frá ráðuneyti sem staðfesti höfnun sýslumanns. Rætt um hvernig hægt sé að gera skilyrði er varða fjárhag skýrari. Umræddir umsækjendur ætla að senda kvörtun til Umboðsmanns Alþingis. Verður fróðlegt að fylgjast með því.
Nk. fimmtudag verður annar fundur með sýslumanni og dómsmálaráðuneyti til að reyna að klára að fara yfir þau mál sem á dagskrá voru fyrir fund fyrir jól.
3. Ársreikningur 2020
Ársreikningur er í vinnslu. Verður byrjað nú í vikunni að stilla upp og vonandi tilbúinn í næstu viku.
4. NAC og EurAdopt
Það var stuttur fundur hjá NAC fyrir skömmu. Fundargerð var send á stjórnarmeðlimi til kynningar. Rætt um stöðu covid í löndunum í kringum okkur.
Svíþjóð upplýsti m.a. um niðurstöður rannsóknar sem hafði verið í gangi hjá þeim á ferli ættleiðinga. Niðurstaða að halda skuli ættleiðingum hjá félögunum en ekki færa yfir til yfirvalda.
Danmörk byrjaðir að taka inn nýja umsækjendur í byrjun árs. Þó ekki alveg komið á hreint hvernig ferlið mun verða hjá þeim.
Verður annar fundur í næstu viku þar sem ákveða á hvað skuli gera varðandi frestun ráðstefna vegna covid.
Euradopt – rætt um mál sem upp kom í Hollandi og er nánar fjallað um í lið hér að neðan.
Ari upplýsir um að verið sé að undirbúa aðalfund sem verði að öllum líkindum rafrænn.
5. Stöðvun alþjóðlegra ættleiðinga í Hollandi í kjölfar niðurstöðu opinberrar rannsóknar á misneytingu í málaflokknum á árunum 1967-1998.
Fréttir voru að berast frá Hollandi um skyndilega stöðvun alþjóðlegra ættleiðinga þar í landi vegna niðurstöðu opinberrar rannsóknar á alþjóðlegum ættleiðingum á árunum 1967-1998 frá Bangladesh, Brasilíu, Kólumbíu, Indónesiu og Sri Lanka. Niðurstaða rannsóknarinnar leiddi í ljós að mæður í umræddum löndum hafi í einhverjum tilfellum verið þvingaðar til að gefa frá sér börn og þeim jafnvel greitt fyrir að láta börnin af hendi svo hægt hafi verið að koma þeim áfram til ættleiðingar. Fram hefur komið mikil gagnrýni á yfirvöld í Hollandi fyrir að hafa brugðist eftirlitshlutverki sínu í málaflokknum og þar með leyft þessu að viðgangast árum saman.
Svíar sendu frá sér tilkynningu í kjölfarið þar sem þeir undirstrika að þeir telji sínar ættleiðingastofnanir hæfar til að sinna verkefnum sínum. Jafnframt bent á að um sé að ræða niðurstöður varðandi ættleiðingar sem áttu sér stað áður en Haag samningurinn tók gildi. Þá er áréttað að með tilkomu Haag samningsins hafi alþjóðlegar ættleiðingar orðið öruggari fyrir alla aðila enda miklar kröfur sem þarf að uppfylla á grundvelli samningsins.
Rætt um að Ísland hafi á umræddum árum einnig verið í samstarfi við þau lönd sem um ræði. Búið að senda erindi á ráðuneyti en beðið svara.
Kristinn ætlar að útbúa yfirlýsingu til að setja á heimasíðuna og senda á ráðuneyti. Sendir á stjórn til yfirlestrar áður en hún verður send út.
6. ICAR7
Sett var inn bréf til stjórnar fyrir fund varðandi ICAR ráðstefnu sem verður rafræn í ár. Hugmynd frá starfsmönnum skrifstofu um að fara saman á hótel og deila upplifun af ráðstefnu.
Ákveðið að ræða málið nánar eftir kosningu á nýrri stjórn á aðalfundi í mars nk.
7. Kaup á barnabók um ættleiðingu
Rætt erindi frá Gunnari Bender er varðar beiðni til félagsins um kaup á bókum frá honum. Þeir sem kynnt hafa sér bókina telja að um mjög þröngt sjónarhorn sé að ræða og að bókin yrði ekki notuð til fræðslu á vegum félags. Félagið á handrit og ætlar að senda á stjórnarmeðlimi svo allir geti kynnt sér áður en tekin verður lokaákvörðun.
8. Spurningalisti frá miðstjórnarvaldi Svíþjóðar
Ráðuneytið leitaði til félagsins og óskaði eftir að félagið myndi svara spurningalista er barst frá miðstjórnarvaldi Svíþjóðar. Verður sent á stjórn til kynningar áður en því verður skilað til ráðuneytis.
9. Önnur mál
Auglýsa þarf aðalfund með nægilegum fyrirvara. Búið að bóka Framvegis húsnæði fyrir fund.
Fundi lokið kl. 21:50
Næsti fundur : 9. mars kl. 20:30 í gegnum fjarfundarbúnað.