Stjórnarfundur 18.11.2009
Fundur stjórnar Íslenskrar ættleiðingar miðvikudaginn 18. nóvember 2009, kl. 17.15 í húsnæði Í.Æ. Austurveri.
17. fundur stjórnar
Mættir til fundarins stjórnarmenn ÍÆ:
Hörður Svavarsson
Ágúst Guðmundsson
Finnur Oddsson
Margrét Rósa Kristjánsdóttir
Karl Steinar Valsson
Vigdís Ósk Sveinsdóttir
Fundinn sátu einnig Guðrún Sveinsdóttir og Fanney Reynisdóttir, starfsmenn skrifstofunnar.
Fundurinn hófst á því að fundarmenn fóru yfir síðustu fundargerð og samþykktu hana.
Mál á dagskrá:
1. Stefnumótun, þjónusta og framkvæmd
2. Kynningarkvöld um SN leiðina
3. Skipulagt starf með fólki sem ættleitt hefur verið til landsins
4. Önnur mál.
1. Stefnumótun, þjónusta og framkvæmd
Þráðurinn tekinn upp að nýju af fundi stjórnar sem haldinn var 4. nóvember sl. Ákvörðun tekin um að Ingibjörg Valgeirsdóttir taki að sér, í samstarfi við starfsmenn skrifstofunnar að kortleggja verkferla fyrir skrifstofuna og stuðla þar með að auknu gagnsæi fyrir væntanlega og núverandi umsækjendur. Finnur Oddsson mun setja sig í samband við Ingibjörgu.
Guðrún Sveinsdóttir og Fanney Reynisdóttir véku af fundi.
2. Kynningarkvöld um „Special Needs-leiðina“
Kristín Svala Jónsdóttir ljósmóðir, hjúkrunarfræðingur og kjörmóðir, félagsmaður ÍÆ lagði til við stjórnina að haldið verði kynningarkvöld á svokallaðri Special Needs-leið. Stjórnin fagnar þessari tillögu Kristínar og samþykkir jafnframt að þiggja aðstoð Kristínar Svölu við umsjón og skipulagningu kvöldsins.
3. Skipulagt starf með fólki sem ættleitt hefur verið til landsins
Stjórn Í.Æ. hefur mikinn áhuga á að koma á legg skipulögðu starfi með fólki sem ættleitt hefur verið til landsins og er ekki á barnsaldri í dag. Við teljum mikilvægt að á boðstólum sé einhver vettvangur fyrir þennan hóp til að sinna verkefnum á vegum félagsins og til að halda tengslum innbyrðis. Tinna Þórarinsdóttir stjórnmálafræðingur hyggst leggja okkur lið við að ýta þessum hugyndum af stað.
4. Önnur mál
Umræður um viðbrögð fulltrúa í Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu við ákvörðun stjórnar Í.Æ. sem bókuð var undir 2. lið fundargerðar frá 13. Fundi stjórnarinnar þann 14. október 2009. Ákveðið að formaður taki saman efni umræðunnar og sendi ráðherra þá samantekt þegar í stað.
Finnur Oddsson vék af fundi.
Umræður um stöðu trúnaðarlæknis félagsins. Í kjölfar ályktunar stjórnar um kynningarkvöld um „Special Need-leiðina“, var lagt til að stjórnin myndi á næstu vikum hitta Gest Pálsson barnalækni.
Ágúst Guðmundsson, stjórnarmaður ÍÆ lagði fram tölulegar upplýsingar um stöðu Íslands innan ættleiðingarsamfélagsins til samanburðar við löndin í kringum okkur. Er hér um frábært framtak hjá Ágústi sem stjórn tók ákvörðun um að birta síðar til upplýsinga á heimasíðu félagsins.
Þá tók stjórn formlega ákvörðun þess efnis að Elín Henrikssen kæmi að sem sérstakur erindreki ÍÆ vegna ættleiðinga frá Rússlandi. Gerð verður samstarfsáætlun við Elínu um verkefnið og Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu tilkynnt um stöðu hennar.
Fundi slitið kl. 18.30
Vigdís Ó. Sveinsdóttir fundarritari