Fréttir

Stjórnarfundur 20.11.2008

Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 20. nóvember 2008, kl. 20:00
9. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2008
 
Mættir: Ingibjörg J., Ingibjörg B., Kristjana, Freyja og Helgi, Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn.
 
Fundurinn hófst á því að fundarmenn samþykktu síðustu fundargerð með fáum athugasemdum.
 
Fundur með stjórnarfólki í Foreldrafélagi ættleiddra barna
Helgi greindi frá fundi sem hann og Finnur áttu með formanni og öðrum stjórnarmanni í Foreldrafélagi ættleiddra barna. Þetta var góður fundur og þar kom fram vilji frá báðum aðilum til að starfa meira saman.
 
Bréf dómsmálaráðuneytis varðandi aldursmörk
ÍÆ sendi bréf til dómsmálaráðuneytisins síðast liðið sumar og óskaði eftir að þeir sem eiga umsóknir hjá erlendum stjórnvöldum fengju undanágu frá reglu um 45 ára hámarksaldur þegar sótt er um. Forsamþykki voru áður gefin út til tveggja ára og eru nú gefin út til þriggja ára og áfram mögulegt að framlengja um eitt ár. Svar ráðuneytisins var á þann veg að umsækjendur með tveggja ára forsamþykki gætu fengið tvisvar framlengt um eitt ár, enda sanngjarnt að báðir hópar njóti sömu réttarstöðu og eigi möguleika á forsamþykki í fjögur ár alls. Ljóst er að þetta er ekki nægilegt fyrir alla umsækjendur þegar biðtíminn er svona langur og var Helga falið að vinna að því að fá undanþágu frá aldursmörkum fyrir þennan hóp.
 
Fjárhagsáætlun
Beiðni dómsmálaráðuneytisins til fjárlaganefndar um fjárframlög til ÍÆ inni á Alþingi núna hljóðar upp á 6,5 milljónir, en ÍÆ fékk alls 9,5 milljónir með viðbótarstyrk á síðasta ári. Stjórn hefur áhyggjur af því að þessi upphæð verið skorin enn frekar niður í afgreiðslu.
 
a)     Sparnaðarráðstafanir: Það eina sem hægt er að lækka er húsaleiga og laun. Samþykkt var að athuga hvort vilji er til að lækka leiguna, en að öðrum kosti að flytja. Guðrún hefur nú þegar lækkað starfshlutfall sitt og ákveðið var að lækka starfshlutfall starfsmanns skrifstofu úr 70% í 50% með þriggja mánaða fyrirvara.
b)    Hækkun gjalda: Árgjald verður að hækka frá og með næsta aðalfundi. Biðlistagreiðsla, milligreiðsla og lokagreiðsla verður líka að hækka, enda vísitölutengar greiðslur. 50% hækkun tekur strax gildi. 
 
Ættleiðingarstyrkir
Nú eru tvö ár frá því ættleiðingarstyrkir komust á og samkvæmt reglum er kominn tími til að endurskoða þá. Það þarf að fylgjast vel með því að styrkirnir lækki ekki við þessa endurskoðun og ákveðið að senda bréf til vinnumálastofnunar og benda þar a hvað kostnaður við ættleiðingar hefur hækkað og mikilvægi þess að styrkurinn lækki ekki.
 
NAC ráðstefna í Reykjavík
Búið er að fastsetja aðalfund NAC og ráðstefnu 3. - 6. september 2009. Ingibjörg B. ætlar að hafa samband við formann NAC skýra frá stöðu mála og óska eftir að kostnaður við undirbúning ráðstefnunnar verði greiddur af NAC þátttakendum.
 
Fræðslumál – skipulag
Fræðslufulltrúar ÍÆ sjá um undirbúningsnámskeiðin. Stjórn mælist til að allar starfandi nefndirnar innan ÍÆ velji sér formann sem sé tengiliður við stjórn ÍÆ, enda heyra nefndirnar undir stjórn. Ákveðið að boða allar nefndir innan félagsins á fund með stjórn.
 
Önnur mál
a)     Nepal: Allir pappírar eru farnir út. ÍÆ þarf að hafa tengilið á staðnum sem samkvæmt þarlendum reglum á að vera Nepali með háskólamenntun. 
b)    Rússland: Magnús í sendiráðinu í Moskvu hitti bæði Norðmenn og Svía og þeir segja nánast ómögulegt að starfa að ættleiðingarmálum í Rússlandi. Það eru allir að gefast upp á því að starfa þar og Hollendingar eru t.d. hættir.
 
Fleira ekki rætt og fundi slitið.
 
Kristjana Erlen Jóhannsdóttir
fundarritari

Svæði