Stjórnarfundur 22.01.2009
Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 22. janúar 2009, kl. 20:00
11. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2008
Mættir: Ingibjörg J., Ingibjörg B., Kristjana, Helgi og Arnþrúður, Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn.
Fundurinn hófst á því að fundarmenn fóru yfir síðstu tvær fundargerðir og samþykktu þær.
Fjárlaganefnd
Niðurstaða fjárlaganefndar var að styrkur til ÍÆ verður 9,5 milljónir eins og fyrra.
Endurútgáfa forsamþykkis
Rætt um endurútgáfu forsamþykkis fyrir þá sem fara yfir 45 ára aldursmörk á biðtíma. Dómsmálaráðuneytið er ekki tilbúið til að útvíkka reglurnar frekar. Í Danmörku hefur verið samþykkt að forsamþykki gildi í þrjú ár og framlenging er síðan gerð til tveggja ára. Ákveðið að skrifa bréf til dómsmálaráðherra þar sem óskað verður eftir útvíkkun á reglunum í samræmi við það sem er í gildi í Danmörku.
Nepal
Komið svar frá Nepal þar sem farið er fram á 500 $ greiðslu fyrir starfsleyfi í Nepal. ÍÆ hefur sótt um löggildingu frá dómsmálaráðuneytinu til að miðla ættleiðingum barna frá Nepal og er beðið eftir svari frá ráðuneytinu. Um leið og ÍÆ fær starfsleyfi í Nepal og löggildingu frá dómsmálaráðuneytinu getur félagið farið að vinna í miðlun ættleiðinga frá Nepal.
Ingibjörg B. er að fara á NAC fund til Danmerkur 29. janúar og mun þá um leið hitta mögulegan samstarfsaðila í Nepal.
Ættleiðingargjöld
Lagt fyrir fundinn skjal með upplýsingum um ættleiðingarkostnað, samanburður á raunkostnaði árið 2006 og áætlun fyrir árið 2009. Ljóst er að töluverð hækkun hefur orðið á ættleiðingarkostnaði sem er til komin vegna hækkunar á gjöldum upprunalandanna, hækkun á ferðakostnaði, hækkun á gengi og almennum verðhækkunum í þjóðfélaginu. Á móti kemur að ættleiðingarstyrkur hefur einnig hækkað úr 480.000 kr. í 526.000. Samþykkt að fyrri ákvarðanir stjórnar varðandi hækkanir á gjöldum hjá ÍÆ muni standa.
Aðalfundur
Ákveðið að halda aðalfund ÍÆ þann 26. mars næstkomandi kl. 20:00. Þrjú sæti í stjórn eru til endurkjörs og tveir af núverandi stjórnarmeðlimum ætla ekki að bjóða sig fram aftur. Ákveðið að hafa fyrirlestur eftir aðalfundinn og er unnið í því að fá góðan og áhugaverðan fyrirlesara. Fundarstaður hefur ekki verið ákveðinn.
Fundir með nefndum
Fulltrúar frá stjórn ÍÆ funduðu með fulltrúum frá nefndum félagsins. Nefndirnar munu útnefna einn nefndarmann sem tengilið við stjórn. Nefndirnar geta sent beiðni til stjórnar um fjárveitingu til nefndarstarfanna.
Fundur með FÆB
Greint var frá fundi sem stjórn ÍÆ átti með formanni og varaformanni stjórnar Foreldrafélags ættleiddra barna (FÆB). Rætt var um hugsanlegt samstarf félaganna í framtíðinni meðal annars í fræðslumálum. Ákveðið var að félögin skoði betur saman hvernig og með hvaða hætti þetta samstarf gæti orðið.
Húsnæðismál
Búið er að segja upp núverandi húsnæði frá og með 1. maí 2009. Þörf er á skrifstofuhúsnæði sem er sambærilegt að stærð og núverandi húsnæði þ.e. 80 til 100 fm. Húsnæði hefur verið skoðað á nokkrum stöðum en ekkert hefur verið ákveðið ennþá. Haldið veður áfram að skoða húsnæði.
Fleira ekki rætt og fundi slitið.
Arnþrúður Karlsdóttir
Fundarritari