Stjórnarfundur 6.11.2024
Stjórnarfundur Íslenskrar ættleiðingar
6. nóvember 2024 kl. 17.00
Mættar: Kristín Ósk Wium og Helga Pálmadóttir. Sigríður Dhammika Haraldsdóttir Sólveig Diljá Haraldsdóttir sátu fundinn í gegnum fjarfundarbúnað. Fjarverandi: Selma Hafsteinsdóttir
Ásta Sól Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri tók einnig þátt í fundinum.
-
Fundargerð síðasta fundar
Samþykkt
-
Frásögn frá UMPOD fundi og verkefnum í vinnslu
Ásta Sól framkvæmdastjóri og Sigríður varaformaður sátu online fund með UMPOD þann 29. október síðastliðinn en ekki hafði tekist að koma á fundi eftir að breytingar voru tilkynntar á síðasta ári. Fulltrúar UMPOD sýndu í tölu og tali þá fækkun sem hefur orðið á ættleiðingum frá Tékklandi almennt og að aldur barnanna hefur hækkað sem ættleidd eru. Ekki verður lengur leyfilegt að hafa börn yngri en 3 ára inni á barnaheimilum og fara börn nú inn í fósturkerfið. Nokkrar spurningar vöknuðu upp eftir þennan fund og mun Ásta Sól senda póst á UMPOD til að fá frekari upplýsingar.
-
Uppkomnir ættleiddir
Sigríður varaformaður varpaði upp spurniningunni hvað hægt væri að gera meira fyrir uppkomna ættleidda. Rætt var um einhvers konar fræðslu sem nýst geti uppkomnum ættleiddum, en einnig yngri ættleiddum börnum.
Ákveðið var að skoða með stofnun blandaðs stuðningshóps fyrir uppkomna ættleidda sem fagmaður myndi halda utan um og leiða í rétta átt. Verður þetta rætt frekar og þróað.
-
Dagbók Sóleyjar Lóu
Alda Lóa, móðir 17 ára stúlku, Sóleyjar Lóu, sem ættleidd var frá Tógó árið 2007 hafði samband við ÍÆ en þær mæðgur eru á leið til Tógó í desembermánuði og ætlar Sóley Lóa að gera video-dagbók úr ferðinni og kanna sinn uppruna. Markmiðið er að gera fræðslumynd um sjálfsmynd og ólíka menningarheima. Menntamálastofnun er búin að samþykkja að gera kennsluefni úr ferðinni.
Stjórn ÍÆ fagnar þessu verkefni og vill styðja hana í því. Samþykkt var að félagið bjóðist til að koma að frumsýningu á myndinni, sem gæti þá samræmst fræðslumarkmiðum félagsins. Mun Ásta Sól tilkynna mæðgum það.
-
Stefnumótun 2025
Byrjað var að ræða stefnumótun fyrir árið 2025 en hefur stjórnin til næsta fundar til að velta betur fyrir sér hvernig hún vill móta árið 2025 og koma með innlegg.
Samþykkt var að hittast á hátíðarfundi 4. desember næstkomandi frá klukkan 17-20 þar sem farið verður ítarlega í málin og borðað saman á eftir.
-
Jól og jólaball
Jólaball verður 8. desember n.k. í Laugarneskirkju og verður skráning auglýst í næstu viku. Stjórnarmenn skipta með sér verkum með að fá tilboð í veitingar og nammipoka fyrir börnin
-
Önnur mál
Ákveðið var að skrifstofa ÍÆ verði lokuð frá 20. desember 2024 – 3. janúar 2025
Fundi slitið kl. 18.30
Næsti fundur 4. desember klukkan 17.00