Fréttir

Stjórnarfundur ÍÆ 19.05.2005

Mættir: Ingibjörg, Gerður, Lísa, Arnþrúður, Guðmundur og Helga. Guðrún starfsmaður sat fundinn.

Dagskrá:

1. Lene Kamm. Kynning fyrir stjórn á framkvæmd fræðslunnar í Danmörku.
2. Kynning á nýrri fræðslu.
3. NAC fundur 9-10 september. Nordic Adoption Council 14 th Nordic Meeting.
4. Niðurstöður skoðanakönnunar skemmtinefndar.
5. Önnur mál.

1. Ingibjörg setti fundinn og kynnti Lene Kamm sem hingað er komin frá Danmörku til að aðstoða okkur við fræðslumálin. Lene sagði stuttlega frá fræðslunni í Danmörku. Hún er sjálf ættleidd, er menntaður sálfræðingur og þerapisti og hefur 5 ára reynslu af fræðslumálum fyrir verðandi kjörforeldra og er yfir fræðslunni í Danmörku. Fræðslufundir eru 40-44 á ári og eru 24 á hverju námskeiði. Á námskeiðunum eru tveir leiðbeinendur, kona og karl. Hvert námskeið er tvær helgar. Fyrri helgin er frá föstudegi til laugardags, síðan eru 5-6 vikur þangað til að hist er aftur frá laugardegi til sunnudags. Mikil áhersla er á að virkja fólk á námskeiðinu. Hún sagði að það væri munur á fólki milli helga. Fólk er opnara á seinna námskeiðinu og getur talað frjálslegar um ættleiðinguna. Hún telur mikilvægt að vera saman yfir nótt og að fólk fari úr þessu venjulega umhverfi, það nái þannig betur að einbeita sér. Reynslan sýnir að hjón kynnast betur, þau ræða jafnvel það sem þau hafa ekki rætt áður varðandi ættleiðinguna. Fyrri helgina er fókuserað á foreldrana; þeirra hæfileika, hvernig var þeirra uppeldi og hvernig voru tengsl þeirra við sína foreldra. Um seinni helgina er fókuserað á barnið og komu þess, bakgrunn og það að mynda fjölskyldu. Í Danmörku eru 7 teymi leiðbeinenda. Lene hittir leiðbeinendur 2 helgar á ári þar sem málin eru rædd. Leiðbeinendur eru gjarna með uppeldismenntun, félagsráðgjafar eða hjúkrunarfræðingar. Helmingur leiðbeinenda er fólk sem hefur ættleitt. Lene taldi ekki þörf á að leiðbeinendur hefðu sjálfir ættleitt, persónuleg saga þeirra á ekki að skipta máli. Það sem skiptir máli er t.d. að fólk sé opið og hafi góða yfirsýn.

2. Búið er að þýða ca. helming danska fræðsluefnisins. Sá sem séð hefur um þýðinguna hefur ekki tíma fyrir meira og því ákveðið að kaupa þýðingu annarsstaðar frá. Guðrún tekur að sér að finna þýðanda. Ætlunin er að taka þetta nýja efni í notkun í haust. Lene leggur áherslu á að námskeiðið standi yfir tvær helgar. Við munum fara eftir þeim ráðleggingum ef fjárhagur félagsins leyfir.

3. NAC fundur. Ákveðið að fjórir fulltrúar fari frá okkur; Gerður sem er okkar fulltrúi, Ingibjörg Jónsdóttir formaður, Ingibjörg Birgisdóttir sem sér um fræðsluna okkar og Guðrún starfsmaður. Kostnaður er ekki mikill, NAC borgar kostnað fyrir Gerði. Ingibjörg Birgis borgar sjálf ferðakostnað. Gert er ráð fyrir að fá ódýrt far og ráðstefnugjald og gisting er um 60 þúsund krónur fyrir þrjá. Ekki er komin formleg dagskrá en það er símafundur í næstu viku og ætti dagskrá að koma í framhaldi af honum.

4. Niðurstöður skoðanakönnunar skemmtinefndar. Ánægjulegt er að fólki virðist líka vel þau tilboð sem verið hafa í gangi og merktu allir við áframhald á þeim (foreldramorgnar, gefa öndunum o.fl.). Tillögur komu að því að hafa eitthvað fyrir eldri krakka. Allir ætla að mæta á hátíðina sem fyrirhugað er að halda í haust og komu ýmsar tillögur að því hvernig hún eigi að vera. Til dæmis að hafa kynningu á öllum löndunum sem ættleitt hefur verið frá í gegnum ÍÆ. Ákveðið var að auglýsa eftir fólki til undirbúnings. Hugsanlega mætti kaupa skemmtikraft til að skemmta börnunum.

5. Önnur mál. Rætt um húsnæðismál. Guðmundur og Ingvar hafa kannað hvort það borgi sig fyrir félagið að kaupa húsnæði. Miðað við leiguna mun það líklega borga sig að kaupa. Við erum að borga of háa leigu miðað við að leiguverð hefur verið að lækka. Ákveðið að tala við leigusalann og athuga hvort að hann er tilbúinn að lækka leiguna. Athuga með kaup húsnæðis í framhaldi af því.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið.
Helga Gísladóttir, ritari.


Svæði