Stjórnarfundur ÍÆ 22.06.2004
kl. 20 15.
Mætt: Ingvar Kristjánsson, Ingibjörg Jónsdóttir, Lísa Yoder, Guðmundur Guðmundsson, Gerður Guðmundsdóttir. Auk þeirra sat Guðrún Sveinsdóttir framkvæmdastjóri fundinn.
1) Biðlistareglur lagðar fram og yfirfarnar. Nokkrar athugasemdir gerðar við orðalag og stafsetningu. Meginreglan er að biðlistagjald miðast við eitt barn. Framkvæmdarstjóra falið að setja inn athugasemdir fundarmanna og klára reglurnar með áorðnum breytingum. Þær samþykktar samhljóða.
2) Hliðarlisti lagður fram og yfirfarinn. Samþykktur samhljóða.
3) Ákveðið að leggja verklagsreglur fyrir ráðuneytið til samþykktar. Þó ítrekar fundurinn að þessar reglur eru ekki nýmæli heldur er verið að festa í sessi þau vinnubrögð sem félagið hefur farið eftir hingað til. Verið er að setja vinnureglur inn með formlegri hætti en verið hefur. Þegar ráðuneytið verður búið að samþykkja verklagsreglurnar verða þær aðgengilegar félagsmönnum á heimasíðu ÍÆ svo og á skrifstofu félagsins.
4) Tékkland. Formleg umsókn ÍÆ fer til ráðuneytisins næstu daga. Samstarfsaðilar í Tékklandi óska eftir skýrslu formanns fyrir sl þrjú ár og löggildingarskjalinu. Stjórn fagnar þessum áfanga sérstaklega
5) Kína. Fimm nýjar Kínastúlkur á leiðinni til Íslands. Allt gengur að óskum.
6) Indland. Þrjár fjölskyldur á leiðinni til Indlands að ná í þrjú börn. Anju hefur verið í sambandi og er gott hljóð í henni.
7) Kolombia. Tvær umsóknir úti í Kólombíu. Allt gengur samkvæmt áætlun.
8) Kórea. Í sumar er ráðstefna í Kóreu sem er haldin og skipulögð af ættleiddum frá Kóreu, sjá heimasíðu. Bæklingar liggja frammi á skrifstofu ÍÆ.
9) Baldur Kristjánsson frá KÍ hafði samband, en hann er að vinna að ásamt Hönnu Ragnarsdóttur að undirbúningi á rannsókn sem þau hyggjast gera á högum ættleiddra barna á Íslandi. Stefnt er að því að byrja í haust
10) Styrkjafrumvarpið komið í nefnd, stjórn þarf að halda umræðunni vakandi.
11) Starfsálag á skrifstofu er mikið. Ingvar leggur til að starfshlutfall Fanneyjar verði aukið úr 50% í 75%. Samþykkt samhljóða.
12) Símafundur NAC 2. júni. Farið yfir skipulag NAC ráðstefnunnar sem haldin verður hér í okt. Allt gengur samkvæmt áætlun. Á símafundinum kom fram að nýtt félag hefur verið stofnað í Færeyjum, og menn ræddu að bjóða þeim aðild að NAC sem áheyrnafulltrúa á ráðstefnuna í haust.
13) Ítrekuð sú ákvörðun stjórnar að upplýsingar um börn séu ekki látnar í té nema allir pappírar séu þýddir og yfirfærðir af trúnaðarlækni félagsins, Gesti Pálssyni. Þessi ákvörðun er tekin að fenginni langri reynslu af ættleiðingarmálum.
14 ) Guðmundur Guðmundsson boðar bókun vegna ákvörðunar stjórnar þann 6 maí sl.
Bókun fundarins er svohljóðandi::
“Biðlisti og tæknifrjóvgun
Rætt var um þau vandamál sem upp kunna að koma þegar fólk er samtímis á biðlista eftir ættleiðingu á barni og í tæknifrjógvunarferli. Þá er fyrst og fremst verið að hugsa, eins og alltaf, um hagsmuni kjörbarnsins en ekki langanir og þrár foreldra. Vitað er til að félagsráðgjafar þeir sem taka út fjölskyldu kjörbarns, eru að ýta á fólk að nýta tímann, en það er algjörlega andstætt hugmyndum stjórnar félagsins. Mat stjórnar er að þetta þjóni ekki hagsmunum barnsins.”
Umsögn sem gerð er um barnlaus hjón og forsamþykki byggt á henni gildir ekki lengur ef fólk á von á barni. Afleitt er að þurfa að draga umsókn til baka eftir að hún hefur komist í hendur erlendra ættleiðingaryfirvalda.
Bókun Guðmundar:
Guðmundur Guðmundsson er ekki sammála þessari bókun. Það hlýtur að vera val sérhverrar fjölskyldu hvernig hún stendur að sínum málum meðan það hefur ekki neikvæð áhrif á aðrar fjölskyldur. Ljóst er þó að eftir að umsókn fer til meðferðar erlendis er það gegn hagsmunum félagsins og annarra tilvonandi kjörforeldra ef draga þarf hana til baka af þessum orsökum og því er eðlilegt að á þeim tímapunkti helgi fjölskyldur sig ættleiðingargferlinu.