Fréttir

Stjórnarfundur ÍÆ 23.09.2004

kl. 20:15.

Mætt: Ásta B. Þorbjörnsdóttir, Gerður Guðmundsdóttir, Guðmundur Guðmundsson, Helga Gísladóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Ingvar Kristjánsson, Lísa Yoder. Auk þeirra sat Guðrún Sveinsdóttir framkvæmdastjóri fundinn.

Fundargerð.

Þetta var fyrsti fundur stjórnar eftir sumarið.

Nýtt starfsplan fyrir árið 2004-2005.
Byrjað var á að yfirfara starfsplan fyrir árið. Dagskráin verður send til umsjónarmanns vefsíðu og komið á síðuna hið fyrsta.

Fyrirlestrar eru fyrir alla, líka landsbyggðina.
Rætt var um hvernig koma megi til móts við landsbyggðina varðandi fyrirlestra á vegum félagsins. Tæknin sem notuð er til að flytja fyrirlestra gegnum netið er ekki eins dýr og áður var. Guðmundur ætlar að leggja til tæknilega lausn og skoða kostnaðarhlið hennar.

Ættleiðingar frá Rússlandi og/eða Tékklandi.
Lísa greindi frá fundi sem átt hefur sér stað með konu sem vinnur fyrir skrifstofu sem hefur milligöngu um ættleiðingar frá Rússlandi. Kanna þarf hvort þessi leið muni verða heimiluð af Dómsmálaráðuneytinu. Ef Norðurlöndin opna fyrir ættleiðingar með aðstoð þessa aðila myndi það örugglega hjálpa til með að fá leyfi hjá Dómsmálaráðuneytinu. Ljóst er að um meiri kostnað er að ræða miðað við aðra möguleika sem félagið býður upp á, líklega á bilinu 10-12 þús. dollarar auk tveggja ferða til landsins.
Ættleiðingar frá Tékklandi eru sennilega vænlegri kostur. Ef norðurlöndin opna fyrir ættleiðingar frá Rússlandi með aðstoð þessarar skrifstofu myndi það örugglega hjálpa til með að fá leyfi Dómsmálaráðuneytinu.

Nac fundurinn á Íslandi
Victor Groza verður gestafyrirlesari á NAC fundinum í haust. Hann er til í að hafa fyrirlestur fyrir félagsmenn en við þurfum að leggja línurnar með efni. Til er fullt af áhugaverðum rannsóknum sem hann hefur framkvæmt. Við þurfum að skoða betur hvað hann hefur fram að færa á heimasíðunni hans og taka ákvörðun í framhaldi af því. Það væri spennandi að láta hann gera grein fyrir niðurstöðum ýmissa rannsókna sinna. Hann verður á landinu frá 20. – 25. okt. Rætt var um heppilegan tíma fyrir fyrirlestur hans og þótti flestum sunnudagseftirmiðdagur vænlegur kostur.

Annars er undirbúningur NAC fundarins í fullum gangi. Gerður greind frá helstu þáttum sem búið er að ákveða og ganga frá.

Hliðarlistinn fyrir einhleypa.
Hann hefur ekki enn verið samþykktur en er til skoðunar hjá Dómsmálaráðuneytinu.

Fjáröflun.
Það sem nú er í gangi:. Verið er að selja boli , einnig sængurverasett.

Önnur mál.
• Styrkurinn frá stéttarfélögunum hefur verið skattlagður í sumum tilfellum en ákveðið var að félagið hefði ekki afskipti af þessum málum vegna fyrri reynslu.
• Í ljósi þess að nýr forsætisráðherra hefur tekið til starfa þykir rétt að endurnýja umsókn félagsins um styrk fyrir kjörforeldra. Spurning hvort umsóknin fari annan hring.
• Rætt var um sérhátíðir innan félagsins sem haldnar hafa verið eins og t.d. Kínaárshátíðina. Nú hefur fjöldinn aukist til muna sem kallar á stærra og dýrara húsnæði. Spurning vaknar um hvers hlutverk það sé að kalla til nefnd til að undirbúa þannig hátíð. Lagt var til að þeir sem hafi áhuga á að standa að undirbúningi Kínaárshátíðar hafi samband við Helgu í stjórn því brýnt er að ákveða dagsetningu hið fyrsta. Samþykkt að félagið geti verið vettvangur til að tengja fólk saman fyrir hátíðir af þessum toga án þess þó að standa endilega beint að þeim.

• Leikskólabæklingurinn sem Gerður hefur þýtt er að fara í prófarkalestur.
• Bóksafnið. Hér er um mikinn bókakost að ræða sem því miður er lítið notaður. Lagt var til að hafa kynningu á heimasíðunni á t.d. bók mánaðarins og byrja með barnabækur.
• Rætt var hvort þörf væri á að hafa spjallfundi á vegum félagsins. Lagt var til að fella þá af dagskrá félagsins í ljósi þess hve þeir voru lítið sóttir sl. vetur.
• Euradopt. Inga talaði um umsókn tveggja félaga að Euradopt sem félagið þarf að taka afstöðu til. Gögnin komu meira og minna á frönsku. Rætt var um að hlera hvað hin Norðurlöndin hefðu um þessar umsóknir að segja og gera eins og þau.
• Farið var yfir fundargerð síðasta fundar. Þetta verður framvegis fyrsta verk hvers stjórnarfundar.
• Heimasíða félagsins. Til stóð að bæta inn gagnagrunnstengingu á gömlu síðuna fyrir haustið en lítið fór fyrir þeirri framkvæmd. Rætt um að fá nýjan aðila til verksins og einn nefndur til sögunnar. Ritara var falið að ræða við viðkomandi og stýra framkvæmd verksins.

Fleira var ekki rætt á þessum fundi.
Fundi slitið kl. 22:30.


Svæði