Hamingjustund
Þann 16.03.2016 hittu hjónin Þorkell Ingi og Sigrún Inga son sinn í fyrsta sinn.
Þegar þau komu á barnaheimilið beið hann þeirra með eftirvæntingu enda er biðin eftir því að þau fái að hittast búin að vera löng.
Ingi Frans hljóp beint í fangið á foreldrum sínum, hann var mjög hljóður og hélt fast í þau og vildi ekki fara úr fangi móður sinnar. Það leið ekki á löngu áður en foreldrar hans fengu að sjá fallega brosið hans sem er svo einlægt, fallegt og bræðir alla sem sjá. Einnig skein persónuleiki hans meira og meira í gegn eftir því sem feimnin minnkaði. Ingi Frans er hress og jákvæðir drengur sem hefur gaman af því að tjá sig bæði í tali, söng og skemmtilegum barnslegum dansi.
Í Tógó fóru Þorkell, Sigrún og Ingi Frans í sund, göngutúra, á leikvelli og fleira og kynntust hvert öðru meira og meira auk þess sem foreldrar hans sýndu Inga Fransi myndir af ættingjum hans á Islandi. Þar á meðal var systir hans Karlotta Rós, 16 ára gömul sem beið spennt eftir að fá að hitta bróður sinn.
Það var mikill hamingjudagur þegar Ingi Frans útskrifaðist af barnaheimilinu og síðustu undirskriftunum lauk. Það var hreinlega eins og það væri allt bjart og það var hreinlega ekki hægt að hætta að brosa.
Heimferðin frá Tógó til Íslands var á afmælisdegi Sigrúnar og er vart hægt að hugsa sér betri afmælisgjöf.
Eftir heimkomu hittust systkynin og eins og við mátti búast bræddi hann hjarta systur sinnar og öfugt. Ingi Frans er glaður og kátur og talar mikið og er eins og svampur að ná íslenskri tungu. Honum finnst t.d. mjög gaman að láta lesa fyrir sig og nær þar ekki bara til foreldra hans heldur einnig systur sinnar líka og ef hann er spurður út í mömmu og pabba passar hann ávallt að bæta Karlottur Rós systur sinni við.
Umsókn Þorkels Inga og Sigrúnar Ingu var móttekin af yfirvöldum í Tógó í ágúst 2011 og voru þau pöruð við Inga Frans 2. september 2015. Þau voru því á biðlista í Tógó í fjögur ár eftir að hafa verið á biðlista á Indlandi önnur fjögur ár. Biðin eftir að ættleiða barn náði því 8 árum.
Þetta er fyrsta fjölskyldan sem sameinast með milligöngu Íslenskrar ættleiðingar á þessu ári. Nú hafa 5 börn verið ættleidd frá Tógó til Íslands með milligöngu félagsins.“