Hamingjustund
Í dag hittu hjónin Jón Hafliði Sigurjónsson og Hulda Guðnadóttir son sinn, Baldur Hrafn Jhon, í fyrsta skipti. Þau fóru á barnaheimili á vegum ICBF í Arauca í Kólumbíu þar sem þau biðu hans eftir að hafa fengið ýmsar upplýsingar frá starfsfólki. Hann kom fljótlega gangandi inn í herbergið, þar sem foreldrar hans biðu í mikilli eftirvæntingu. Hann var feiminn til að byrja með, en eftir að búið var að færa honum bíl, rúsínur og límmiða þá fóru hlutirnir að gerast hratt. Baldur Hrafn Jhon varð fljótlega eitt bros, þó svo hann væri svolítið hissa á þessu öllu saman. Þegar allir voru búnir fá sér kökur og gos þá var farið upp í leigubíl og heim á hótel þar sem við tóku rólegheit í bland við leiki. Fljótlega eftir að heim til Íslands var komið hitti hann svo litlu systur sína hana Nínu Dýrleif í fyrsta skipti og hafa þau nánast verið óaðskiljanleg síðan þá og eru fyrirmyndar systkini, með hlátri og gráti.
Umsókn Jóns Hafliða og Huldu var samþykkt úti í Kólumbíu 27.08.2010 og voru þau pöruð við Baldur Hrafn Jhon þann 17.09.2016. Jón Hafliði og Hulda voru á biðlista í rúm sex ár.
Þettar er þriðja fjölskyldan sem sameinast á árinu og eru börnin orðin 4. Nú hafa 15 börn verið ættleidd frá Kólumbíu með milligöngu Íslenskrar ættleiðingar.