Fréttir

Þjónustukönnun 2014

Þjónustukönnun 2012 -2014

Þjónustukönnun Íslenskrar ættleiðingar (ÍÆ) var send á alla þá sem höfðu farið í gegnum ættleiðingarferlið og ættleitt á undanförnum tveim árum. Könnunin innihélt lokaðar spurningar, þar sem þátttakendur þurftu að haka við þann valmöguleika sem átti best við, og opnar spurningar. 

Meginmarkmið þjónustukönnunarinnar var að kanna viðhorf til þjónustu og viðmóts starfsmanna Íslenskrar ættleiðingar en einnig var leitast við að kanna ánægju með þjónustu skrifstofu sýslumannsins í Reykjavík, barnaverndar og Barnaspítala Hringsins. Tilgangur könnunarinnar var að kanna ánægjuna í ferlinu öllu, allt frá fyrsta viðtali á skrifstofu ÍÆ og þar til ættleiðingarferlinu lýkur.

Niðurstöður gáfu til kynna að flestir voru mjög ánægðir með fyrsta viðtalið hjá ÍÆ og fannst námskeiðið “Er ættleiðing fyrir mig?” nýtast eftir að heim var komið. 

Almennt voru þátttakendur ánægðir með tíman sem það tók ÍÆ að afgreiða forsamþykkis umsóknina og þær upplýsingar sem fengust varðandi forsamþykkisferlið. Viðhorf þátttakenda til þjónustu sýslumannsembættisins í Reykjavík var neikvæðara. Þátttakendur voru almennt óánægðir með tíman sem það tók skrifstofu sýslumanns að afgreiða umsóknina og óánægðari með þær upplýsingar sem fengust varðandi forsamþykkisferlið. 

Þegar spurt var um ánægju með viðmót starfsmanna ÍÆ, sýslumanns og barnaverndar virðast flestir vera ánægðastir með viðmót starfsmanna skrifstofu ÍÆ. 

Áður en farið var til upprunalandsins og forsamþykki hafði fengist hafði lítill hluti þátttakenda nýtt sér þjónustu Barnaspítalans og voru allir ánægðir eða mjög ánægðir með það viðmót sem þeir höfðu fengið þar. 

Flestir sem svöruðu voru einnig ánægðir með námskeiðið “Fyrstu skrefin” og meirihluti sagði að Ferðahandbókin hefði nýst sér vel. 

Þegar kom að undirbúningi fyrir ferðina til upprunalandsins sagðist minnihluti þátttakenda hafa kosið meiri undirbúning vegna ferðarinnar. Öllum fannst þeir vel eða mjög vel upplýstir um umsóknarferlið til upprunalandsins og það sama átti við um ánægju með upplýsingar sem fengust frá starfsfólki ÍÆ varðandi undirbúning ferðarinnar. 

Eftir að heim var komið þurfa allir að hitta lækni á Barnaspítala Hringsins a.m.k. einu sinni. Allir sem svöruðu voru mjög ánægðir með þá þjónustu sem þeir fengu þar, nema einn sem var ánægður. Þátttakendur voru einnig almennt ánægðir með viðmót félagsráðgjafa sem sá um eftirfylgni. 

Nánast allir þátttakendur sögðust vera ánægðir eða mjög ánægðir með þá þjónustu sem þeir fengu frá starfsfólki ÍÆ í öllu ferlinu, engin var óánægður. 

 


Svæði