Fréttir

Þjónustukönnun 2016

Þjónustukönnun 2014 - 2016

Þjónustukönnun Íslenskrar ættleiðingar (ÍÆ) var send á alla þá sem höfðu farið í gegnum ættleiðingarferlið og ættleitt á undanförnum tveimur árum. Könnunin innihélt lokaðar spurningar, þar sem þátttakendur þurftu að haka við þann valmöguleika sem átti best við, og einnig var þeim boðið upp á að koma með athugasemdir í opnum spurningum.
Meginmarkmið þjónustukönnunarinnar var að kanna viðhorf til þjónustu og viðmóts starfsmanna Íslenskrar ættleiðingar en einnig var leitast við að kanna ánægju með þjónustu skrifstofu sýslumannsins í Reykjavík, Barnaverndarnefndar og Barnaspítala Hringsins. Tilgangur könnunarinnar var að kanna ánægjuna í ferlinu öllu, allt frá fyrsta viðtali á skrifstofu ÍÆ og þar til ættleiðingarferlinu lýkur.
Heilt á litið voru flestir ánægðir með þjónustu ÍÆ í öllu ferlinu, eða 87%. Niðurstöður gáfu jafnframt til kynna að þátttakendur voru ánægðir með fyrsta viðtalið hjá ÍÆ (85,7%) og einnig með viðmót starfsólks (88,9%). Slíkt hið sama má segja um viðhorf þeirra til félagsráðgjafa Barnaverndarnefndar en 92% sögðust vera ánægðir. Viðhorf þátttakenda til þjónustu sýslumannsembættisins í Reykjavík var neikvæðara. Fáir þeirra (15,4%) voru ánægðir með viðmót starfsfólks á skrifstofu sýslumanns og enn færri (11,5%) voru ánægðir með afgreiðsluhraða og veittar upplýsingar.
Heilt á litið voru þátttakendur ánægðir með fræðslunámskeiðin „Að taka á móti barni?,“ og „Fyrstu skrefin.“ Um það bil 69 til 71% voru ánægðir með upplýsingarnar sem þeir fengu á námskeiðunum og á bilinu 73-85% sögðu að fræðsla beggja námskeiðanna hafi nýst þeim þegar heim var komið.
Tæp 67% svarenda taldi starfsfólk ÍÆ hafa staðið sig vel í að aðstoða þá við undirbúning ferðarinnar til upprunalandsins og sögðu 70,9% að „Ferðahandbókin“ hefði jafnframt nýst þeim vel. Rétt innan við helmingur (45,8%) taldi sig þó hafa þurft á meiri stuðningi að halda við undirbúning ferðarinnar.
Svarendur voru afar ánægðir með þá þjónustu ÍÆ að bjóða upp á aðstandendafræðslu en allir sem svöruðu spurningunni (19 einstaklingar) voru ánægðir.


Svæði