Fréttir

Kjörfjölskyldan - Höfundar: Amalia Carli og Monica Dalen


Sú spurning vaknar hjá mörgum hvort kjörbörn séu ekki eins og önnur börn. Upplifa kjörforeldrar ekki sömu gleði og sorgir og allir aðrir foreldrar? Það að lifa með barni felur í sér svipaða tilfinningu hjá öllum, óháð því hvernig barnið er komið inn í fjölskylduna. En það er á margan hátt öðruvísi að verða foreldrar við ættleiðingu barns en við fæðingu.

Kjörforeldrar ganga í gegnum öðruvísi meðgöngu þar sem þeir verða að búa sig undir og takast á við ákveðna hluti sem kynforeldrar þurfa ekki því barnið þeirra hefur um lengri eða skemmri tíma búið við aðstæður sem geta haft áhrif á líðan þess og þroska um ókomin ár. Í flestum tilvikum kemur barnið frá öðru menningarsvæði og hefur oftar en ekki annað útlit en kjörforeldrarnir. Kjörbarnið hefur upplifað aðskilnað frá þeim sem hefur annast það, getur verið vannært og lítið örvað og í einstaka tilfellum verið andlega og/eða líkamlega vanhirt.

Slík byrjun á lífinu krefst mikils af foreldrum í samskiptum við barnið. Fæstir foreldrar þekkja slík dæmi í fjölskyldum sínum sem þeir geta stuðst við. Kjörforeldrar þurfa því sjálfir að leita eftir reynslu annarra, í samtalshópum eða með fræðslu úr bókum svo eitthvað sé nefnt. Reynslan sýnir að kjörforeldrar eru mjög áhugasamir að verða sér úti um slíkar upplýsingar og er rit þetta hugsað sem yfirlit um einstök atriði sem kjörforeldrar þurfa að hafa í huga. Bent er á þætti í þroska barnsins sem geta reynt mjög á foreldrana svo þeir þurfa kannski að leita sér ráðleggingar og aðstoðar utanaðkomandi aðila.

Kjörbörn eru mislitur hópur. Þó upphaf ævi þeirra sé sérstakt, þroskast þau hvert á sinn hátt, bæði sem börn, unglingar og fullorðnir. Í ritinu er fjallað um erfiðleika sem geta komið upp við það að vera ættleiddur og að hafa ættleitt barn erlendis frá. Það þýðir þó ekki að allir þurfa að glíma við þau vandamál sem hér er minnst á.

Það er mikilvægt að benda á að flestum kjörbörnum, sem alast upp á Íslandi, gengur mjög vel. Börn þurfa mikið öryggi, umönnun og stuðning í gegnum lífið, kjörbörn jafnt sem önnur börn. Ritið er hugsað sem innblástur og stuðningur við að þróa góð samskipti milli foreldra og barna í kjörfjölskyldunni. Umræðuefnin í ritinu má nota sem umræðugrundvöll fyrir kjörforeldra sem vilja deila reynslu sinni með örðum í sömu sporum, svo og til upplýsingar fyrir aðra meðlimi fjölskyldunnar.

Ritið er 55 síður að lengd

Höfundar bæklings:
Amalia Carli og Monica Dalen
Þýðing og yfirlestur: Gerður Guðmundsdótti og Jónína Hafsteinsdóttir


Svæði