Fréttir

“...fyrst og fremst venjuleg börn með óvenjulegan bakgrunn...„ Börn ættleidd frá Kína; tengsl við upprunalandið og þekking foreldra. Höfundur Jórunn Elídóttir

Jórunn Elídóttir
Jórunn Elídóttir

 

Þegar barn er ættleitt breytist veröldin á margvíslegan hátt. Kjörforeldrar kynnast nýju landi og menningu og eftir því sem tíminn líður verður það hluti af tilverunni þó misjafnt sé hversu mikið hver og einn tengist upprunalandinu. Með ættleiðingunni
opnast foreldrum líka nýr heimur af fróðleik og upplýsingum um landið sem barnið kemur frá, fólkið þar, ástæður þess að börn eru ættleidd og fleira. Segja má að ákveðin smáveröld skapist í kringum ættleiðinguna þar sem margt er sagt, ýmislegt lesið, annað fréttist en oft virðist vera um að ræða umræður, fullyrðingar og jafnvel órökstuddan fróðleik. Á veraldarvefnum er að finna mjög margt er varðar áhrif ættleiðingar á börn og hvað leiðir séu bestar að fara þegar barn er ættleitt og heim er komið. Þetta eitt og sér er eins og frumskógur að feta sig í gegnum fyrir fólk sem oft er leitandi að leiðum og áherslum í umönnun og uppeldi barna sinna. Oft eru þetta misvísandi ráðleggingar,
jafnvel mýtur, sögur í bland við ágætis hugmyndir, en fyrir margan má ætla að erfitt sé að meta hvað er rétt t.d. hvers má vænta er varðar áhrifa ættleiðingarinnar á barnið (Narad og Mason, 2004). Fyrstu börnin voru ættleidd frá Kína til Íslands árið 2002 en
fyrstu börnin ættleidd frá Kína voru til Bandaríkjanna 1992 þegar ný lög tóku gildi í Kína er varðar alþjóðlegar ættleiðingar (CCAA, 2005). Á seinni árum hafa verið gerðar margar rannsóknir er varða ættleidd börn frá Kína sem og önnur börn ættleidd frá
öðrum löndum. Ætla má að það sé að verða til góður grunnur til að byggja á þegar verið er að ræða áhrif ættleiðingar á börn almennt og þá einnig börn ættleidd frá Kína (Christoffersen, Hammen, Andersern og Jeldtoft, 2008.
Sú rannsókn sem er hér til umfjöllunar var framkvæmd á vormánuðum 2009 með það að markmiði að auka þekkingu um ættleidd börn og málefni er snertir þennan hóp barna. Rannsóknin tók til margra ólíkra þátta er varðar upplifanir og skoðanir foreldra
barnanna sem tóku þátt í rannsókninni. Þeir þættir sem dregnir verða fram hér snúa m.a. að tengslum við upprunalandið og bakgrunni barna sem ættleidd eru frá Kína.

“...fyrst og fremst venjuleg börn með óvenjulegan bakgrunn...„ Börn ættleidd frá Kína; tengsl við upprunalandið og þekking foreldra. 


Svæði