Fréttir

„Hvað gerir gott foreldri?“ Hreyfihamlaðar konur og barneignir. Höfundur Aðalbjörg Gunnarsdóttir

Ritgerðin fjallar um viðhorf hreyfihamlaðra kvenna á barneignaaldri til fjölskyldulífs og barneigna og byggir á niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar sem unnin var frá hausti 2008 til vors 2009. Tilgangur verkefnisins var að skoða hvaða hugmyndir barnlausar hreyfihamlaðar konur hefðu til barneigna, löngun þeirra til að eignast barn í framtíðinni og væntingar til fjölskyldulífs. Sjónum var beint að styrkleikum þeirra og hvað mögulega hindraði þær í að verða mæður. Þátttakendur rannsóknarinnar voru sex barnlausar hreyfihamlaðar konur fæddar á árunum 1970-1987. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að hreyfihamlaðar konur þrá að fá að upplifa móðurhlutverkið líkt og ófatlaðar konur. Einnig benda niðurstöðurnar til þess að miklir fordómar ríki gagnvart hreyfihömluðum konum í barneignahugleiðingum. Þannig fundu konurnar fyrir fordómum frá samfélaginu, fjölskyldu og vinum, heilbrigðiskerfinu og gildandi lögum og reglugerð um ættleiðingar. Neikvæð viðhorf og fordómar höfðu áhrif á sumar konurnar sem tóku þátt í rannsókninni sem birtist í vantrú þeirra á eigin hæfni en aðrar konur brugðust við þessum fordómum með því að leggja áherslu á styrkleika sína og lausnamiðaða hugsun. Niðurstöður rannsóknarinnar benda einnig til þess að endurskoða þurfi ákveðna þætti í löggjöf um málefni fatlaðra og lögum og reglugerð um ættleiðingu með tilliti til mannréttindasamnings um réttindi fatlaðs fólks þar sem lögð er áhersla á jafnan rétt og bann við mismunun.

„Hvað gerir gott foreldri?“ Hreyfihamlaðar konur og barneignir


Svæði