Fréttir

Hver er ég, hvaðan kem ég? Um rétt barna til að þekkja uppruna sinn. Höfundur Snjólaug Aðalgeirsdóttir

Fjölskylduformið hefur breyst í gegnum tíðina og í kjölfarið hafa barneignir og hvernig þeim er háttað breyst að sama skapi. Börn geta eignast stjúpforeldra, kjörforeldra, eru tekin í fóstur og verið getin með tæknifrjóvgun. Lagaleg áhrif skipta meira máli þegar um nýja tækni og ættleiðingar er að ræða og oft þarf að skera úr um hver er faðir og móðir barnsins. Með tilkomu Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Barnasáttmálans, hefur verið einblínt á að börn njóti þeirra réttindi að þekkja uppruna sinn, geti fengið umönnun beggja foreldra og að ávallt sé hugsað um hvað barninu er fyrir bestu. Íslensk barnalög styðjast við Samning sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og kemur þar fram að börn eigi að þekkja báða foreldra sína en þó eru önnur ákvæði í lögum um tæknifrjóvgun sem segja að gjafi geti notið nafnleyndar ef hann óskar þess, sem gerir það að verkum að barn getur ekki alltaf leitað uppruna síns.
Svíþjóð, Bretland, Austurríki, Sviss, Þýskaland, Holland, Nýja Sjáland og Ástralía eru dæmi um lönd sem hafa aflétt nafnleynd á gjöfum og því geta börn alltaf leitað uppruna síns ef þau óska þess. Rannsóknir sýna að börn vilja þekkja uppruna sinn því þau telja mikilvægt að þekkja hvar ræturnar liggja, vita hvort þau eigi systkini, og hver heilsufarssaga gjafa er til að þau þekki sig betur og geti skilgreint sig á réttan hátt. Þetta telja þau stuðla að betra lífi en fara ekki endilega fram á að umgangast líffræðilega foreldra. Þetta á einnig við börn sem ættleidd eru.

Hver er ég, hvaðan kem ég? Um rétt barna til að þekkja uppruna sinn


Svæði