Fréttir

Kjörforeldrar á Íslandi - einkenni þunglyndis og stuðningur í kjölfar alþjóðlegra ættleiðinga. Höfundur Heiða Hraunberg Þorleifsdóttir

Höfundur: Heiða Hraunberg Þorleifsdóttir
Höfundur: Heiða Hraunberg Þorleifsdóttir

Útdráttur
Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort einkenni þunglyndis væru merkjanleg meðal kjörforeldra sem ættleitt hafa börn milli landa og tíðni þeirra einkenna. Í erlendum rannsóknum hafa slík einkenni verið skilgreind sem ættleiðingarþunglyndi. Annað markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig þátttakendur skilgreindu þörf sína fyrir þjónustu fagaðila eða annarra um stuðning og ráðgjöf í kjölfar ættleiðinga. Rannsóknaniðurstöður voru settar í samhengi við niðurstöður sambærilegra erlendra rannsókna. Rannsóknin var framkvæmd á haustmánuðum 2012 og var notuð megindleg aðferðafræði. Gagnaöflun fór fram með rafrænum spurningalista sem lagður var fyrir þá kjörforeldra sem ættleitt hafa barn milli landa með milligöngu félagsins Íslensk ættleiðing á árunum 2007-2012 (n=144). Alls svöruðu 79 þátttakendur, 20 karlar og 59 konur og var svarhlutfall 54,9%. Spurningar um bakgrunn og ættleiðinguna voru lagðar fyrir þátttakendur ásamt sjálfsmatskvarða, Patient Health Questionnaire (PHQ-9) sem metur einkenni þunglyndis samkvæmt greiningarviðmiðum DSM-IV-TR. Niðurstöður leiddu í ljós að einkenni þunglyndis voru ekki merkjanleg hjá 81,4% þátttakenda, væg einkenni voru merkjanleg hjá 17,1% þeirra og miðlungs einkenni mældust hjá 1,4% þátttakenda. Enginn þátttakandi mældist með alvarleg eða mjög alvarleg einkenni þunglyndis. Ekki reyndist vera tölfræðilega marktækur munur milli kynjanna. Tíðni einkennanna var sambærileg tíðni í erlendum rannsóknum. Þátttakendur leituðu eftir aðstoð til maka og annarra kjörforeldra í mun meira mæli en til fagaðila. Ástæður þess að þátttakendur leituðu til fagaðila var vanlíðan kjörbarns, tengslamyndun eða vanlíðan annarra fjölskyldumeðlima. Niðurstöður sýndu jafnframt að þátttakendur hefðu kosið þjónustu fagaðila í mun meira mæli en þeir fengu.

Kjörforeldrar á Íslandi - einkenni þunglyndis og stuðningur í kjölfar alþjóðlegra ættleiðinga


Svæði