Því ætti það ekki að gerast aftur? Sorgarferli ættleiddra einstaklinga. Höfundur Kristín Skjaldardóttir
Sorgarferli ættleiddra einstaklinga hefur lítt verið rannsakað og fátt er um rannsóknarrit á akademískum vettvangi þar sem skýrar vísbendingar er að finna um það hvað valdi slíku sorgarferli. Til dæmis er ekki ljóst hve hátt hlutfall ættleiddra einstaklinga gengur í gegnum sorgarferli eða hvað skilur á milli þeirra sem glíma við það og þeirra sem gera það ekki. Í þessari ritgerð er fjallað um þetta ferli og hvernig foreldrar og félagsráðgjafar geti lagt þeim lið sem finna sig knúna til að vinna úr því. Fjallað er um hugtökin áfall, sorg, sorgarferli og tengslarof í tengslum við ættleiðingu barna og hvaða áhrif hún hefur á líf þessara einstaklinga. Því næst er lýst þeim aðferðum sem henta til að aðstoða ættleidda einstaklinga, börn og fullorðna, í gegnum sorgarferli sitt, og eru á færi foreldra og félagsráðgjafa að vinna með.
Niðurstöður leiða í ljós að ekki ganga allir ættleiddir einstaklingar í gegnum sorgarferli vegna ættleiðingar sinnar heldur líta þeir jákvæðum augum á hana og telja hana af hinu góða. Þeir einstaklingar sem berjast við sorg vegna ættleiðingar velta því einkum fyrir sér af hverju líffræðilegir foreldrar gátu ekki átt þá og hvernig þeir foreldrar séu að upplagi og uppruna. Niðurstöður sýna einnig mikilvægi þess að kjörforeldrar tjái sig opinskátt um ættleiðinguna, að þeir séu tilbúnir til að ræða hana við börn sín og að börnin skynji vilja kjörforeldra sinna til að ræða þessi mál við þau. Loks kemur fram að félagsráðgjafar, sem hafa tileinkað sér þekkingu á sorg og sorgarferli í fjölskylduráðgjöf, eru vel til þess fallnir að veita ættleiddum einstaklingum, börnum og fullorðnum, aðstoð leiti þau eftir henni.
Því ætti það ekki að gerast aftur? Sorgarferli ættleiddra einstaklinga