Fræðsluerindi framundan
Íslensk ættleiðing leggur mikið uppúr að fræðslu, ráðgjöf og stuðningi, bæði fyrir og eftir ættleiðingu. Eitt af því sem félagið bíður uppá fyrir félagsmenn og fagfólk er fyrirlestrarröð yfir vetrarmánuðina.
Fyrirlestur febrúarmánaðar verður haldinn 8. febrúar klukkan 17.30 og er titill fyrirlestrarins Internationally adopted children’s language and reading mastery. Fyrirlesarinn að þessu sinni er hin norska Anne-Lise Rygvold. Hún fór nýlega á eftirlaun eftir margra ára starf innan sérkennslusviðs Oslóarháskóla, en þar hefur hún stýrt talmeinafræðideild háskólans.
Anne-Lise hefur haft mikinn áhuga á ættleiddum börnum og lauk nýverið langtímarannsókn þar sem börn sem ættleidd voru frá öðrum löndum voru borin saman við samanburðarhóp þeirra sem ekki voru ættleiddir. Áhersla rannsóknarinnar var að kanna hvernig tungumálið og lestrarkunnátta þeirra sem ættleiddir eru í þessum samanburði.
Skráning hér
16. mars, 13-17 á Hótel Natura
Í mars mun félagið standa fyrir afmælismálþingi og bjóða þar uppá metnaðarfulla dagskrá. Aðalfyrirlesari er Sarah Naish, með erindi sem heitir Therapeutic parenting and adoption. Auk Söruh verða fleiri áhugaverð erindi á dagskrá. Nánari upplýsingar munu verða kynntar fljótlega.
Sarah er búin að starfa í þrjá áratugi innan málefna ættleiddra ásamt því að vera foreldri fimm ættleiddra barna. Hún hefur því gríðarlega reynslu af málaflokknum, bæði faglega og persónulega. Sarah var valin Kona ársins árið 2014 af samtökum kvenna í atvinnulífinu í Bretlandi.
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér frekar störf og bakgrunn Söruh Naish, ættu að smella hér
Í kjölfar afmælismálþings mun félagið standa fyrir námskeiðinu, PACE in real life sem Sarah leiðbeinir á. Námskeiðið er sérstaklega fyrir þá sem hafa ættleitt börn sem glíma við tengslavanda, en gagnast öllum foreldrum ættleiddra barna. Þá hentar námskeiðið foreldrum barna sem eru í langtímafóstri og fagfólki sem starfar í málaflokkunum. Námskeiðið verður haldið laugardaginn 17. mars.
Í fræðsluerindi aprílmánaðar verður kastljósinu beint að skólaaðlögun ættleiddra barna og sérstöðu þeirra á fyrstu árum skólagöngunnar. Ingibjörg Margrét Magnúsdóttir grunnskólakennari, MA í sérkennslu er fyrirlesari í þetta skiptið en hún er móðir tveggja ættleiddra barna. Fyrirlesturinn verður haldinn 28. apríl, 11.00 – 12.30.
Að venju verður fókusinn í maí á þau börn sem eru að hefja leik- eða grunnskólagöngu. Foreldrar þeirra barna sem eru að byrja á þessum skólastigum eru sérstaklega boðaðir á þessa fræðslu, en aðrir áhugasamir eru hjartanlega velkomnir. Fræðslan verður haldin 29. maí.